Kvikmyndir

28 Minutes for 3 Million Dollars

Leikstjórn: Maurizio Pradeaux
Handrit: Maurizio Pradeaux
Leikarar: Richard Harrison, Franca Polesello, Claudio Biava, Ferruccio Viotti, Marino Carpano, Roberto Tonelli og Conny Carol
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1967
Lengd: 85mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0061314
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Úrráðagóður þjófur sem lifir hátt safnar liði fyrir innbrot í sýningarsal í Rómarborg þar sem verðmætur demantur er geymdur.

Almennt um myndina:
Ótal kvikmyndir hafa verið gerðar um undirbúning og framkvæmd stórþjófnaða þar sem söguhetjurnar eru þjófarnir. Flestar þessara kvikmynda voru gerðar á sjöunda áratugnum en enn rata slíkar kvikmyndir í kvikmyndahúsin öðru hverju.

Ítalska kvikmyndin 28 Minutes for 3 Million Dollars, sem gerð var árið 1967, er sennilega flestum gleymd, enda langt frá því að vera besta stórþjófnaðarmyndin. Handritið er ósköp flatt og spennulaust, enda gengur lengst af allt eins og í sögu hjá þjófunum. Það er síðan ekki fyrr en í bláendann að myndin umbreytist skyndilega í farsa en fram að því tekur hún sig háalvarlega. Gott dæmi um mun betri stórþjófnaðarmynd er franska film noir kvikmyndin Rififi (Jules Dassin: 1955), en 28 Minutes for 3 Million Dollars er að stórum hluta stæling á henni.

Helsti kostur kvikmyndarinnar er þó sviðsmyndin og kvikmyndatakan, sem víða er útfærð með glæsibrag. Tónlistin eftir Piero Umiliani er sömuleiðis nokkuð skemmtileg þó svo að hún jafnist ekki á við tónlist hans í gulmyndarmorðgátunni Five Dolls for an August Moon (Mario Bava: 1970).

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Helsta siðfræðistef kvikmyndarinnar er að sjálfsögðu þjófnaður, en útfærslan verður þó að teljast heldur vafasöm, enda þjófarnir hafðir aðlaðandi og ofursvalar hetjur, sem farnast vel í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur. Eins og í öðrum film noir kvikmyndum gekk boðskapur Rififi út á það að glæpir borguðu sig ekki undir neinum kringumstæðum. 28 Minutes for 3 Million Dollars upphefur hins vegar glæpinn á siðlausan hátt og lætur glæpamennina græða á óhæfuverki sínu, jafnvel þótt uppskeran reynist önnur en vænst hafði verið.

Siðfræðistef: þjófnaður, ábyrgð
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja