Kvikmyndir

A Clockwork Orange

A Clockwork Orange er ein af uppáhalds svölu myndunum mínum. Stíllinn er „últra kúl“! Klæðnaðurinn er fáranlegur, litasamsetningarnar hræðilegar og tungumálið samblanda af klassískri ensku og rússnesku. Einhverja hluta vegna gengur þetta samt allt fullkomlega upp. Tónlistin er einnig einstaklega kraftmikil og vel við hæfi.

Kvikmyndin A Clockwork Orange var tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir bestu leikstjórn, bestu klippingu, besta handrit og sem besta myndin. Það kemur hins vegar ekki á óvart að hún fékk engin verðlaun, enda óvenjulegt að jafn óhefðbundin og ofbeldisfull kvikmynd skuli hafa yfirleitt verið tilnefnd til þeirra verðlauna.

Þá var kvikmyndin einnig tilnefnd til Golden Globe verðlaunanna fyrir bestu myndina, besta leikstjórann (Stanley Kubrick) og besta aðalleikarann (Malcolm McDowell), en uppskar engin. Örlögin voru þau sömu þegar kom að Bafta verðlaununum. Sjö tilnefningar (t.d. besta myndin, besti leikstjórinn og besta handritið) en engin verðlaun. Þeir einu sem þorðu að veita myndinni verðlaun voru litlar og lítt þekktar kvikmyndahátíðir.

Ofbeldið í myndinni er listrænt, í raun eins og ballett, og því að vissu leyti heillandi þrátt fyrir óhugnaðinn. Myndin var harðlega gagnrýnd fyrir þetta í Bretlandi og gefið í skyn að ungmenni hafi líkt eftir ofbeldisverkunum. Fjölskylda Stanleys Kubrick fékk meira að segja nokkrar morðhótanir vegna hennar. Kubrick bannaði að lokum sýningu á myndinni í Bretlandi og sagði að hún yrði ekki sýnd þar aftur fyrr en eftir andlát sitt. Við það stóð hann.

Myndin er byggð á sögu Anthony Burgess og sækir að miklu leyti í reynsluheim hans. Meðan hann bjó um tíma í Malasíu varð eiginkona hans fyrir hrottafenginni árás fjögurra bandarískra hermanna og missti fóstur fyrir vikið, en sú árás varð kveikjan að þessari sögu. Hvað titilinn varðar þá þýðir „ourang“ víst „maður “ í Malasíu og er merking hans því ekki Vélknúið glóaldinn eins og svo oft hefur verið haldið fram heldur Vélknúinn maður.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Megin viðfangsefni kvikmyndarinnar eru frjáls vilji og innræti mannsins. Í myndinni er reynt að lækna glæpamanninn Alex með því að skilyrða hann. Alex er eins siðblindur og hugsast getur. Uppáhalds dægradvöl hans er ofbeldi, nauðganir og pyntingar. Það er líklega engin tilviljun að hann skuli vera með slöngu sem gæludýr í herbergi sínu (slangan er oft tákn hins illa) og styttu þar sem hæðst er að Kristi (fjórir dansandi krossfestir Kristar). Alex er sprautaður með einhverju lyfi og honum síðan sýndar svo margar ofbeldismyndir að hann fær ógeð á öllu ofbeldinu, svo mikið ógeð að hugsunin ein um það fær hann til að kúgast.

Læknarnir telja sig hafa fundið hina fullkomnu leið til að gera glæpamenn að góðborgurum. Einn þeirra segir t.d. eftir að nokkrar tilraunir hafa verið gerðar á Alex til að sanna ágæti meðferðarinnar: „Þið sjáið herrar mínir og frúr. Viðfangsefni okkar dregst að hinu góða vegna þeirrar furðulegu þversagnar að hann dregst að hinu illa. Löngunin til að grípa til ofbeldis kallar fram sterka vanlíðunartilfinningu. Til að yfirvinna þetta þarf viðfangsefnið að gjörbreyta tilfinningum sínum.“

Sá eini sem gagnrýnir þessa hugmyndafræði er fangelsispresturinn en hann svarar lækninum á eftirfarandi hátt: „Val! Drengurinn hefur ekkert val, er það nokkuð? Eiginhagsmunir! Hræðslan við líkamlegan sársauka fékk hann til að framkvæma þessa hræðilegu sjálfsniðurlægingu. Óheilindin voru augljós. Hann er ekki lengur afbrotamaður. Hann er ekki heldur lengur fær um siðferðilegt val.“

Þessu svarar læknirinn: „Við höfum engan áhuga á hvötum, eða æðra siðferði. Okkar markmið er að lækka glæpatíðnina og minnka álagið á fangelsin. Hann verður sannkristinn. Tilbúinn að bjóða hina kinnina. Viljugri til að vera krossfestur en að krossfesta aðra. Honum mun jafnvel hrylla við tilhugsuninni að drepa flugu. Afturhvarf! Maðurinn frammi fyrir englum Guðs! Það sem skiptir máli er að þetta virkar!“

En eins og presturinn í myndinni bendir á, hefur Alex hvorki verið læknaður né gerður að betri manneskju. Það að hann geti ekki framið illvirki þýðir ekki að hann sé góður að eðlisfari. Eins og presturinn bendir á er trúin ein fær um að frelsa manninn og breyta innræti hans. Og forsenda þess er frjáls vilji. Maður án frjáls vilja er ekki lengur mennskur, heldur áþekkari dýri eða dauðum hlut. Hann er vélknúinn, jafn dauður og hvert annað gangverk, sbr. nafn myndarinnar. Eða eins og presturinn segir á öðrum stað: ,,Hið góða kemur að innan. Það er val. Ef maðurinn hefur ekki val, er hann ekki lengur maður.“

Ekki það að trúin hafi breytt Alex mikið. Þrátt fyrir að hafa lesið Biblíuna spjaldanna á milli heillast Alex ekki að hinu góða í henni. Hann sér sig ekki í lærisveinum Krists heldur í böðlum hans. Og hann tekur Gamla testamentið fram yfir það nýja vegna þess að þar er meira um ofbeldi og saurlifnað. Þar er eins og Alex sé fæddur illur og ófær um göfugar tilfinningar. Í þessu samhengi má geta þess að lögreglumerki vina Alex, þeirra Dims og Georgies, eru númer 665 og 667. Það leiðir hugann að því hverjum tölustafurinn 666 tilheyrir (númer dýrsins í Opinberunarbók Jóhannesar). Freistandi er að eigna hann Alexi.

Myndin er einnig áhugavert innlegg í hina eilífu deilu um hvort sé mikilvægara trúin eða gjörðir. Svar myndarinnar er skýrt. Gjörðir eru einskis verður mælikvarði, því að þær blekkja og segja ekkert um innrætið. Hinn eini sanni mælikvarði er ástand sálarinnar og einlæg trú. Aðeins hún gefur gjörðum okkar gildi og gerir hvatirnar hreinar. Nú hef ég ekki lesið bókina en það er áhugavert í þessu sambandi að hún er sögð vera allegóría um rómversk-kaþólsku kirkjuna, en hún hefur oft verið gagnrýnd fyrir að leggja meiri áherslu á gjörðir en trú. (Kubrick á víst að hafa snúið henni upp á stjórnvöld.) Ef það er rétt að bókin sé allegóría um rómversk-kaþólsku kirkjuna þá má e.t.v. enn greina þann brodd í myndinni.

Myndin endar á sterkri pólitískri ádeilu. Stjórnmál eru jafn siðlaus og Alex. Stjórnmálin bjóða aðeins upp á innantómar lausnir en í augum stjórnmálamanna er maðurinn aðeins vél sem hægt er að stilla að vild. Það er kannski ekki tilviljun að stór hluti af orðaforða myndarinnar er rússneska. Er hér kannski að finna dulda ádeilu á hinn guðlausa kommúnisma þar sem skapa átti paradís á jörðu og breyta öllum í engla með frelsissviptingu og innrætingu? Hvort sem svo er eða ekki er að minnsta kosti ljóst að Axel hefur loksins fundið sinn stað í lok myndarinnar þar sem hann leggur höfuðið í faðm stjórnmálamannsins og lætur hann mata sig, bita fyrir bita.

Biblíutextarnir í kvikmyndinni eru allir úr Douay-Rheims þýðingunni. Eins og svo oft áður hefur íslenski þýðandinn ekki haft fyrir því að fletta upp í íslenskri biblíuþýðingu til að kanna orðalagið. Þegar presturinn vitnar í Orðskviðina 24:1 í samtalinu við Alex, segir í íslenska texta myndarinnar: „Leitist ekki eftir að vera eins og vondir menn, né þrá samneyti við þá því heilar þeirra skipuleggja rán og varir þeirra mæla svik.“ Í íslensku biblíuþýðingunni frá 1981 segir hins vegar: „Öfunda ekki vonda menn og lát þig ekki langa til að vera með þeim, því að hjarta þeirra býr yfir ofríkisverkum, og varir þeirra mæla ógæfu.“

Alex svarar þá með Orðskviðina 24:10 en í íslenska texta myndarinnar er það orðað svo: „Ef þér tapið voninni eða þreytist á eymd dagsins þá mun styrkur þinn minnka.“ Í íslensku Biblíunni segir hins vegar: „Látir þú hugfallast á neyðarinnar degi, þá er máttur þinn lítill.“ Að lokum vitnar Alex í Orðskviðina 29:17, en þar er það þýtt í myndinni: „Kenndu syni þínum og hann mun endurnýja þig og mun veita sálu þinni gleði.“ Í íslensku Biblíunni segir hins vegar: „Aga þú son þinn, þá mun hann láta þig hafa ró og veita unað sálu þinni.“ Það ætti að vera hverjum manni ljóst að verið er að vitna í Biblíuna og því er það með öllu óskiljanlegt að ekki skuli vera leitað í íslenska þýðingu hennar.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían; Gamla testamentið; Nýja testamentið; 1M 25:31-36; 2M 21:24; Ok 24:1; Ok 24:10; Ok 29:17; Mt 5:39; Mt 18:12; Mt 27:28; Mt 27:31; Mt 27:35; Mk 15:17; Mt 27:20; Lk 15:4-5; Lk 23:27; Jh 10:4; Jh 10:11; Jh 10:14; Jh 10:27; Jh 19:17; Heb 12:16
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 2-3; 1Kon 1; Rm 3:21-31; Opb 13:18
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur, blóðsuga, engill, María mey, dýrlingur, Guð, djöfullinn
Guðfræðistef: krossburður, píslaganga, krossfesting, framtíðarsýn, illt innræti, bölsýni, alsæla, heilaþvottur, samviska, synd, glötun, iðrun, valfrelsi, frjáls vilji, treysta Drottni, sannkristni, kvalir fordæmdra, þjáningin, forsjón, kall Guðs, frumburðarréttur
Siðfræðistef: ofbeldi, morð, klám, drykkjuskapur, mannfyrirlitning, nauðgun, agi, glæfraakstur, aftaka, tillitsleysi, hópkynlíf, lauslæti, innbrot, slagsmál, fangelsun, pyntingar, samkynhneigð, hefnd, girnd, nekt, sjálfsvörn, refsing, endurhæfing, alræði, ábyrgð, kaldhæðni, vanvirðing foreldra, þjófnaður, stríð, sjálfsvíg, kynlíf, svik, þjófnaður
Trúarbrögð: anglíkanska kirkjan, gyðingdómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: himnaríki, helvíti
Trúarleg tákn: kriststytta, róðukross, kross, snákur
Trúarleg embætti: fangelsisprestur
Trúarlegt atferli og siðir: píslaganga, predikun, sálmasöngur, guðsþjónusta, biblíulestur, blessun, signing
Trúarleg reynsla: sýn, bænheyrsla