Kvikmyndir

A Knight’s Tale

Leikstjórn: Brian Helgeland
Handrit: Brian Helgeland
Leikarar: Heath Ledger, Mark Addy, Rufus Sewell, Paul Bettany, Shannyn Sossamon, Alan Tudyk, Christopher Cazenove, Bérénice Bejo, Roger Ashton-Griffiths, Nick Brimble, Leagh Conwell og James Purefoy
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2001
Lengd: 132mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
William (Heath Ledger) er skjaldsveinn gamals útbrunnins riddara sem keppir í burtreiðum. Hann er ungur, fátækur og af lágum stigum, en er staðráðinn í að breyta örlögum sínum. Þegar tækifærið býðst sannfærir hann vini sína um að koma með og hjálpa sér að keppa í burtreiðum. Þar sem hann er ekki af aðalsættum þarf hann að þykjast vera það og fær gott en óþekkt skáld sem hann hjálpar á leiðinni á burtreiðarnar til að falsa fyrir sig ættartöluna. Hann keppir síðan í fjölmörgum mótum og finnur þar ástina, en þar sem allt er byggt á lygi getur það hæglega reynst honum dýrkeypt.

Almennt um myndina:
Þetta er hin sígilda saga um strák sem dreymir um að verða meira en honum var ættlað. Hann vill breyta örlögum sínum til hins betra. Ekki spillir fyrir að stráksi finnur elskuna sína, en það verður honum engu að síður til trafala að hún er af hefðarfólki en hann ekki. Hvað skal þá gera? Jú, ljúga svolítið, bara smá, enda allt vel meint. Bara að enginn komist að því.

Myndin gerist á miðöldum og snýst söguþráðurinn allur um riddara, burtreiðar og stéttarskiptingu, en því er þó hvergi haldið fram að hún sé sögulega rétt eða sýni lífið frá þeim tíma með raunsæjum hætti. Þannig eru bæði rokktónlist og nútímalegur dans fléttuð inn í atburðarásina og er það látið krydda upp á lífið á hinum myrku miðöldum á mjög skemmtilegan og upplífgandi hátt. Eins og til að ítreka það að hið sígilda efni sögunnar sé ekki bundið við neina tiltekna öld er fortíð og nútíð í raun blandað saman.

Þetta er spennumynd með áhættuatriðum og er t.d. mikil áhersla lögð á að burtreiðarspjótin splundrist með áhrifamiklum en samt „trúverðugum“ hætti. Spjótin voru búin til úr balsaviði, mjög léttri en sterkri trjátegund sem er mikið notuð í flugvélamódel. Þau eru holuð að innan og fyllt með flísarbitum og linguini pasta og rákir skornar í þau til að veikja þau.

Það mætti geta þess að Goeffrey Chaucer, skáldið með spilafíknina sem Paul Bettany leikur og enginn kannast við í myndinni, á sér stoð í raunveruleikanum. Hann var uppi um 1343-1400 og var í raun þekktur rithöfundur, ljóðskáld, heimspekingur og stjórnmálamaður. Hann var sonur víngerðarmanns en vann sig upp í stöðu við hirð Eðvarðs III Bretakonungs en sonur hans Edward „the black prince of Wales“ kemur einnig við sögu í myndinni, leikinn af James Purefoy. (http://www.britannia.com/history/monarchs/mon32.html og http://www.themiddleages.net/people/chaucer.html) Það er því ekki bara hinn ungi William sem nær að breyta félagslegri stöðu sinni í lífinu. Athygli vekur að Chauser hvarf af sjónarsviðinu í hálft ár í kringum 1370 en þegar hann koma aftur fram hafði hann skrifað riddarasögurnar Chanterbury Tales.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Sannleikurinn er sagna bestur.

Þetta er sagan um hvernig maðurinn getur ekki aðeins breytt örlögum sínum heldur einnig samfélaginu í leiðinni. Fram kemur einstaklingur, skjaldsveinninn William, sem trúir því að hann geti gert hið ómögulega, að hann geti breytt stjörnum sínum og þar með örlögum sínum. Ef honum tekst það sýnir hann öðrum um leið að allt er hægt. En hann þarf að sigrast á fordómum stéttaskiptingarinnar og eigin efasemdum sem eru persónugerðar í erkióvininum Adhemar greifa í myndinni.

William veitist langþráð tækifæri til táknrænar endurfæðingar. Atriðið við krossgöturnar þegar hann reynir að fá vini sína til þess að taka þátt í ævintýrinu með sér og heldur síðan af stað upp lítinn götuslóða er táknrænt. Hann kýs að fara fáfarnar slóðir (He takes the road less traveled) í von um að hann nái þannig að breyta stöðu sinni í lífinu og orðið riddari þó svo að hann sé af fátæku fólki kominn. Skjaldarmerki hans verður þrír Fönixar því að eins og Fönixinn reis úr öskunni endurfæddur rís William upp úr fátækt sinni. Þannig rís hann upp nýklipptur, rakaður og þveginn og ríðandi glæstum hesti. Vonin um nýtt upphaf skín af honum. Hann er hin hvíta, bjarta og hreina hetja.

Það má sjá samsvörun við söguna um miskunnsama samverjann þar sem William tekur upp á arma sína nakta skáldið sem enginn þekkir, Goeffrey Chaucer. William og vinir hans vita ekki betur en að hann hafi verið rændur og barinn, en þeir hjálpa honum þó fyrst og fremst vegna þess að hann getur hjálpað þeim. Aftur kemur William Goeffrey Chaucer til bjargar þegar hann kemur sér í klandur og er rúinn (bókstaflega) inn að skinni í veðmáli. Goeffrey Chauser grátbiður hann um að hjálpa sér þegar veðmangarinn hótar hýðingu í nafni Drottins til þess að hann skilji að veðmál eru synd. William á ekki næga peninga en lofar samt að borga skuldina og fyrirgefur þannig skáldinu og veitir því tækifæri til nýs lífs.

Chauser hefur það hlutverk að kynna William í burtreiðunum. Hann lofar hann líka í hástert og segir frá afrekum hans, fær fólk til að hlusta á sig og styðja kappann. Hlutverki hans í myndinni svipar þannig til Jóhannes skírara sem boðaði komu Krists og kynnti hann til leiks. Hann kynnir William sem hetju úr krossferðunum, verndara ítalsks meydóms og segir hann framfylgja löghlýðni að vilja Guðs.

William verður ástfanginn af Joselyn leikin af Shannyn Sossamon og vill allt fyrir hana gera, kallar hana meira að segja Venus, Calipso og Afródítu úr grískri goðafræði. Þegar þau hittast fyrst er hún á leið til kirkju, en hann eltir hana þar inn á hestbaki og rekur biskupinn hann fyrir vikið umsvifalaust út aftur. Kórsöngurinn frá kirkjunni fylgir honum hins vegar áfram þegar hann svo ræðst gegn andstæðingi sínum í burtreiðunum og mætti segja að himneskir tónar beri hann þar til sigurs.

Kirkjur skipta þó áfram máli í sambandi þeirra, því að þegar þau mæla sér loks mót er það í Notre Dame dómkirkjunni í París, þar sem Jocelyn dáist að litunum í steindu gluggunum sem hún segir iða af lífi í þessari grámyglulegu veröld. Það er einmitt það sem William gerir, bætir lífi og litum í steinrunnið samfélagið, hann er hinn skæri litur, birtan og ljósið.

Þegar Joselyn fer fram á það við William að hann tapi næsta móti fyrir sig eru þau inni í dómkirkjunni og hljómar þá kórsöngurinn aftur í bakgrunninum sem árétting á alvarleika beiðninnar fyrir hann. Hún vill að hann geri það sem honum hugnast síst, að tapa fyrir svörnum andstæðingi sínum. Tónlistin endurspeglar sálarangist hans og spyr áhorfandinn sig hvort hann standist þessa raun, hvort stoltið sé of mikið til þess að hann geti gefist unnustunni algerlega. Hann segir nei en meinar já.

Þegar William fer síðan úr axlarlið á burtreiðamóti þarf að setja hann í frumstætt miðaldarlækningartæki. Hann segir þá að hún minni sig á það hvernig það var að vera í kirkju þegar hann var ungur, enda finni hann þar sama óttann og þjáninguna og sömu ástina. Hann segir að hann fari með bænir sínar fyrir hana og engan annan, hún sé kirkjan hans og styrkur, en hann er þá minntur á það að þetta sé guðlast.

Einu sinni er minnst beint á Biblíuna en það er þegar William segir Joselyn minna sig á hana og vitnar í Jósúabók 10:13 þegar Guð stöðvaði sólina í Gíbeon og lengdi daginn fyrir Jósúa svo hann gæti unnið Amorítana. William segir fegurð hennar ómótstæðilega og ef hann gæti beðið Guð um hvað sem er þá væri það að stöðva tunglið eins og hann stöðvaði sólina til þess að kvöldið og fegurð hennar myndi endast eilíflega.

Þegar Adhemar greifi, helsti keppinautur Williams og persónugerfingur alls þess sem hann þarf að yfirstíga jafnt á vellinum sem utan hans, er kynntur fyrir Joselyn segir hann hana vera fegurstu konuna í hinum kristna heimi. William spyr hana hins vegar að nafni og kallar hana engil. Þeir keppast báðir um hana, en eru um leið andstæður hvors annars, eins og svart og hvítt, hinn góði og hinn vondi. Á meðan William er að keppa í burtreiðunum er Adhemar greifi sendur út á vígvöllinn þar sem hann stjórnar herflokki sem gengur berseksgang þar til hermönnunum er skipað af vígvellinum, en þá ræna þeir heimili og kirkjur og drýgja elstu syndirnar með nýjum hætti.

Vondi karlinn, Adhemar greifi, kemur upp um lygi Williams, að hann er sonur þaksmiðs og kominn frá fátækrahverfum London. Samkvæmt lögum má hann því ekki keppa í burtreiðum, enda geti hann ekki verið riddari og er honum fyrir vikið varpað í svartholið. Adhemar fer þangað til hans, minnir hann á uppruna hans og segir honum að hann hafi verið veginn á skálum og léttvægur fundinn (sbr. Dn 5:27), að hans líkar geti aldrei sigrað sig.

Þegar William gefst upp og játar allt saman, er hann settur í gapastokk og niðurlægður af múginum sem skömmu áður hafði hvatt hann á keppnisvellinum. Félagar hans koma hins vegar og standa með honum til að verja hann, þeir sömu og höfðu áður hvatt hann til að flýja.

Frelsunin, fyrirgefningin og lausnin birtist að lokum í persónu Edwards, svarta prinsins frá Wales, á þeirri stundu þegar William hefur gefið upp alla von. Hann leysir William úr gapastokknum, ver gerðir hans, fyrirgefur honum lygina, og veitir honum riddaratign og þar með vonina á ný. Síðast en ekki síst veitir hann honum tækifæri til að sanna sig á ný, til að rísa upp úr eymdinni og sigra óvin sinn.

Þó að persóna Williams sé ekki kristgerfingur má samt tala um hliðstæður og vísanir í persónusköpun hans. Báðir safna þeir fylgdarmönnum í kringum sig, annar lærisveinum en hinn vinum sínum, og hrífa almenning með sér en eru að lokum sviknir og hæddir af múginum, annar á krossi en hinn í gapastokki, þar til þeir fá uppreisn æru sinnar og rísa upp, hvort sem er í bókstaflegri eða táknrænni merkingu.

Hápunktur myndarinnar er þegar William slær óvin sinn Adhemar greifa niður af hesti sínum í burtreiðarkeppni. Adhemar hafði svindlað með því að nota beitt burtreiðaspjót sem kona nokkur hafði fært honum, en fyrir vikið er ljóst að hann er ekki síður tilbúinn til að beita blekkingum til að leggja andstæðing sinn að velli. Spurningin er hins vegar sú hvor blekkingin sé verri, blekking Williams eða Adhemars greifa? William særist í átökunum en hann berst samt ótrauður áfram. Hann hefur verið niðurlægður en rís upp endurfæddur eins og fuglinn Fönix, brynjulaus og hjálmlaus. Hann er því algerlega berskjaldaður þegar hann berst á móti Adhemar greifa, tákngerfing alls þess sem hann hefur þurft að standa af sér. Þar takast í raun á ljós og skuggi, sannleikurinn og blekkingin, svart og hvítt.

Að lokum má geta þess að það er afar áhugavert að líta á aukaefnið á DVD disknum og fráklipptu atriðin. Í einu atriði sem heitir “Chauser’s wife” er eiginkona Chausers, Philippa, sem annars kemur ekki fram í myndinni. Hún hafði sent hann nakin út til að ná í eitthvað fyrir sig að borða, hann kemur svo með rautt epli handa henni. William og félagar hans sjá Chauser nakinn, þeir halda að hann hafi verið að veðja og elta hann inn í skemmu, þar liggur kona Chausers í rúmmi undir feld. Hún býður William og félögunum eplið eftir að hún hefur sjálf tekið einn bita af því, rétt eins og Eva sem bauð Adam sitt. Í sama atriði er stóra ástin í lífi Williams, Jocelyn sýnd í rauðum kjól og hún er með hárgreiðslu sem minnir á horn. Þar er því greinilega verið að ýja að því að freistingin komi frá konum.

Í öðru fráklipptu atriði sem heitir “The stocks” eða gapastokkurinn kemur örstutt fyrir maður sem talar um að lausnina úr helvíti sé að finna hjá Kristi og hann hafi í hendi sér hið eina sanna brauð sem Kristur braut við síðustu kvöldmáltíðina. Sami maður kemur fyrir í myndinni (1:10:20 mín) þar sem hann talar um að haninn hafi galað þrisvar við afneitun Péturs. Ef vandlega er hlustað á atriðið þegar verið er að smella axlarlið Williams aftur í liðinn, (1:21:12 og 1:21:30 mín) má enn heyra í bakgrunninum sama mann tala um að hann hafi þar naglann sem festi vinstri hendi Krists við krossinn.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Js 10:13, Mk 14:72, Dn 5:27
Hliðstæður við texta trúarrits: Lk 10:30-37 (miskunsami samverjinn), 1M 3:6 (Eva með ávöxtinn)
Persónur úr trúarritum: Guð, djöfullinn, María mey, Jesús Kristur, Jóhannes skírari, Eva, Venus, Afródíta, Kalipso, Fönix
Guðfræðistef: fyrirgefning, játning, guðlast, samviska, synd
Siðfræðistef: kvenímynd, ást, hatur, miskunnsemi, miskunnarleysi, kaldlyndi, meðalhóf, hjónaband, æra, trúnaður, traust, fátækraeiður
Trúarbrögð: kristnidómur, rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Jerúsalem, kirkjur, dómkirkjur, helvíti, himnaríki, paradís
Trúarleg tákn: kross, biskupsstafur, íkon, maríustytta, skýrnarlaug, bænaband, biblían, epli, steindur gluggi
Trúarleg embætti: biskup, prestar, páfi
Trúarlegt atferli og siðir: signing, bæn, kirkjusöngur, skriftir, grátbeðni
Trúarleg reynsla: upprisa