Leikstjórn: Sami Raimi
Handrit: Scott B. Smith
Leikarar: Bill Paxton, Bridget Fonda, Billy Bob Thornton, Brent Briscoe, Jack Walsh, Chelcie Ross, Becky Ann Baker, Gary Cole, Bob Davis, Peter Syvertsen, Tom Carey og John Paxton
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1998
Lengd: 121mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Bræðurnir Hank og Jakob, sem er svolítið greindarskertur, og vinur hans Lou finna 4 milljón dollara í flugvélarflaki sem hafði hrapað úti í óbyggðum. Þeir taka þá örlagaríku ákvörðun að halda peningunum og tilkynna lögreglunni ekki um fundinn. Í kjölfar fundarins kemur upp misklíð milli bræðranna og vinarins og er uppgjör þeirra átakanlegt, þar sem eitt morð leiðir af öðru og flóknir svikavefir enda með ósköpum.
Almennt um myndina:
Myndin er mjög góð og vel leikin en Billy Bob Thornton er þar sérstaklega eftirminnilegur í túlkun sinni á greindarskerta bróðurnum. Leikstjórinn Sam Raimi tileinkaði sér hér frásagnarstíl Coen bræðra með góðum árangri og nýtti sér m.a. þá tækni sem þeir höfðu beitt við myndatöku í snjó við gerð myndarinnar Fargo (1996). Ýmsir þekktir leikarar voru lengi orðaðir við myndina á framleiðslustigi hennar og var t.d. Emma Thompson orðuð við hlutverk Söru en hún hafnaði því að lokum. Sömuleiðis kom Nicolas Cage til greina í eitt af aðalhlutverkunum meðan til stóð að myndinni yrði leikstýrt af Ben Stiller. Einnig má nefna að Brad Pitt og Juliette Lewis íhuguðu um tíma að leika í myndinni en hvorugt þeirra gat það vegna annarra verkefna sem þau reyndust skuldbundin af. Eflaust hefði myndin allt eins orðið góð með þessum gæðaleikurum en erfitt er að ímynda sér aðra en þá sem léku að lokum í henni enda frábærir í hlutverkum sínum.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin er dæmigerð syndafallssaga þar sem mennirnir uppskera eins og þeir sá. Þannig má hæglega túlka hana með hliðsjón af I. Mósebók 3 kafla en jafnframt er óhætt er að segja að hún sé drekkhlaðin siðfræðistefum.
Strax í upphafi er okkur gert ljóst að hætta sé í aðsigi með því að sýna krákur á sveimi í skóginum, þar sem bræðurnar Hank og Jacob og vinur hans Lou finna 4 milljón dollara í brotlentri flugvél. Sú hætta er svo ennfrekar áréttuð með að sýna ref fara í hænsnabú og drepa þar hænu sem hann fer síðan með út í skóg.
Myndin gerist að vetrarlagi um jólarleytið og gerist upphafsatriðið á gamlársdag. Þar ræðir aðalpersónan Hank um hvað faðir hans hafi sagt honum þegar hann var lítill en hann hafði sagt að það sem maður þarfnaðist til að vera hamingjusamur væri kona sem hann elskar, heiðvirt starf, vinir og grannar sem meta hann og virða. Hank segir að um tíma hafi hann átt þetta allt án þess þó að hafa gert sér grein fyrir því hversu hamingjusamur hann hafi verið.
Allt virðist fagurt og gott í þessu litla samfélagi, náungakærleikurinn umvefur það allt í myndarbyrjun. En þrátt fyrir þetta skynjar maður að eitthvað slæmt sé í aðsigi, m.a. vegna upphafsatriðisins en einnig vegna þess að ríkjandi litur myndarinnar er rauður. Myndin er að öðru leyti frekar litlaus, nema hvað rauði liturnn sker sig úr og er mjög áberandi.
Samkvæmt umfjöllun Sigríðar Pétursdóttur um liti í kvikmyndum í tengslum við umfjöllun sína um þríleik Kieslowskis, Rauðan, Hvítan og Bláan, segir hún m.a. að rauði liturinn sé sá sem snýst allra mest um tilfinningar. Rauði liturinn getur merkt ást, kynlíf, orku, eld og hættu. Í sumum myndum tengist rauði liturinn grimmd, árásargirni, stríði, reiði, skömm og jafnvel synd. En Sigríður bendir jafnframt á að litir geta haft tvöfalda merkingu, neikvæða og jákvæða. Hún segir orðrétt: „Flest höfum við tilhneygingu til að tengja rauðan við stöðvunarskyldumerki, brunaboða, blóð, rósir og helvíti. Í alþýðumenningu er rauði liturinn litur ástar og ástríðu. Yfirleitt í tengslum við blóm, oftast rósir, og hjörtu.“ (Sjá: http://www.dec.hi.is/?greinar/rautt_hvitt_blatt.) Hvort sem það sé tilviljun eða ekki má benda á í þessu samhengi að í upphafsatriði myndarinnar þar sem lögreglumaðurinn er að hjálpa einum íbúa þorpsins með bíl sinn sést umferðarskilti í baksýn með aðvöruninni STOP. Það er einnig áhugavert hvað varðar umfjöllun Sigríðar um liti í kristinni listasögu að syndugar konur eru látnar klæðast rauðu, en í myndinni þar sem Sara eiginkona Hanks sést í fyrsta sinn er hún einmitt nakin í rauðum náttslopp. Bíll Jacobs er ennfremur rauður, hann er oftast í rauðri skyrtu, o.s.frv. Nærtækt er að álykta að í þessari mynd eigi rauði liturinn að tákna hættu, synd eða jafnvel ást í ljósi þess kærleika sem ríkir milli bræðranna og milli Hanks og konu hans.
Það fyrsta sem gerist þegar Hank finnur peningana í flugvélinni, er að hrafn kroppar í augu látins flugmanns, en hugsanlega má líta á það sem hliðstæðu við Orðskviðina 30:17; „Það auga, sem gjörir gys að föður sínum og fyrirlítur hlýðni við móður sína, mega hrafnarnir við lækinn kroppa út og arnarungarnir eta.“ Það sem gefur þessum texta aukið vægi hér er að peningarnir sem flugmaðurinn hafði verið að ferja reynast illa fengnir eins og bræðurna og vini þeirra grunar strax.
Þegar þeir félagar finna peningana, fara þeir strax að rökræða um það hvort þeir eigi að halda þeim. Í fyrstu virðist Hank vera sá eini sem vill fara rétt að og tilkynna um fundinn, en hinir láta strax freistast og vilja halda peningunum eftir. Þeir réttlæta það m.a. með því að að öllum líkindum hafi þeir verið illa fengnir. Jakob líkir þeim við Hróa Hött sem geti notað þá í þágu annarra og samþykkir Hank að lokum að halda þeim ef hann fái að geyma þá og segist muni brenna þá ef einhver minnsti grunur vakni um að upp um þá komist.
Í upphafi myndarinnar birtist Sara sem saklaus siðapostuli, enda er hún alls ekki viss um að hún vilji halda peningunum þegar Hank maður hennar spyr hvað hún myndi gera við peninga sem hún hefði fundið og vissi ekki hvaðan kæmu. En strax og hún sér að peningarnir eru raunverulegir fellur hún fyrir freistingunni. Rauði sloppurinn sem hún sást fyrst í áréttar í raun þennan siðferðisbrest hennar og reynist hún þegar lengra líður bæði slóttug og „úrræðagóð“ í ráðabruggi sínu og yfirhilmingu. Í ljósi þess sem áður sagði að hægt er að túlka myndina með hliðsjóna af syndafallssögu I. Mósebókar má álykta sem svo að í myndinni sé Sara í hlutverki Evu.
Fyrsta morðið er framið fljótlega eftir peningafundinn. Bræðurnir fara aftur á staðinn þar sem peningarnir fundust til að skila hluta þeirra þar eftir samkvæmt ráðleggingum Söru enda má ætla að eigendur þeirra muni reyna að hafa uppi á þeim og gera sér grein fyrir að einhver íbúinn á svæðinu hafi stolið þeim finnist ekkert í flakinu. Jakob slær í flemstri til bónda nokkurs sem á þar leið um og ætlar inn í skóginn þar sem Hank er að koma peningunum fyrir. Í ljós kemur að Jakob hafði aðeins slegið hann í rot en hann rankar við sér þegar Hank er að ferja hann á afskektan stað til að sviðsetja slys. Þegar bóndinn biður Hank um að kalla til lögreglu, kæfir hann manninn í örvæntingu sinni og sviðsetur síðan slysið. Hér má velta því fyrir sér hvort Hank hafi drepið bóndann til að hjálpa bróður sínum eða til að ekki komist upp um peningafundinn en hvort heldur sem er er morðið jafn glæpsamlegt fyrir vikið. Undir þessum kringumstæðum er ólíklegt að Hank hafi gefið sér mikinn tíma til að íhuga málið enda leitar hann svo til konu sinnar til að fá réttlætingu fyrir verknaðinum.
Ákvörðunin um að halda peningunum reynist ekki átaklaus fyrir samvisku þeirra. Hank tekur að efast um að réttmætt sé að halda peningunum vegna þess að í ljós kemur að þeir tengdust mannráni en ekki eiturlyfjum eins og hann hélt í fyrstu. Sara sér hins vegar um að eyða þeim vangveltum og réttlætir enn allt fyrir honum.
Eitt af því átakanlegasta í myndinni er hvernig Hank með tilstilli Söru leikur á Jakob og notfærir sér þannig fötlun hans til að ná sínu fram. Þó svo að Jakob hafi freistast til að halda peningunum og séð hugsanlega gæfu fylgja því, er hann í raun mynd hreinleikans í einfeldni sinni. Hann á erfitt með að þeygja yfir leyndarmálum og getur því ekki hilmt yfir verknaðinn. Hann er auk þess áhrifagjarn og fylgir ýmist bróður sínum og mágkonu eða vininum Lou að málum.
Næstu tvö morð má segja að séu afleiðing þess hvernig Hank og Sara nota Jacob til að fá falska játningu fram frá Lou varðandi morðið á bóndanum. Jacob hafði í einfeldni sagt Lou frá því voðaverki til að reyna að kúga Hank til að láta sig hafa sinn hluta af peningum. Þegar Lou kemst að því að þeir bræður hafi verið saman í því að gabba hann til játningar og taka það upp, nær hann í skammbyssu í miklu ölæði og miðar á Hank. Nú snýst dæmið við frá fyrra morðinu því að Jakob hjálpar bróður sínum með því að skjóta Lou og deyr hann við það. Hank fer strax að spinna sennilega sögu og reynir árangurslaust að fá eiginkonu Lous til að taka þátt í því en það endar með því að hann skýtur hana í eins konar sjálfvörn. Eftirtektarvert er hversu lítið þessir atburðir virðast snerta Söru, en eftir jarðarförina kyssir hún barn sitt sakleysislega eins og ekkert hafi í skorist.
Eitt sinn þegar Jakob gistir í barnaherbergi þeirra Hanks og Söru eftir að hafa fundist ofurölvi í húsi Lous spyr hann bróður sinn hvort hann sé vondur, sem hann telur sjálfan sig vera. Jakob virðist upplifa sig sem óhreinan annars vegar andstætt sakleysi barnsins og hins vegar hreinleika barnaherbergisins.
Í síðasta hluta myndarinnar kemur við sögu maður sem villir á sér heimilidir og segist vera frá alríkislögreglunni FBI en reynist vera bróðir látna flugmannsins og annar mannræningjanna. Auðvitað er það hin klára Sara sem áttar sig á þessu. Það er áhugavert að á rakarastofunni sem Hank er á þegar lögreglufógetinn biður hann um að hitta FBI fulltrúann skuli vera uppstoppaður refur í glugganum, en líta má á það sem tákn um örlög hinna óheiðarlegu, enda braust refurinn inn í hænsakofann í upphafi myndarinnar.
Endir myndarinnar er hinn dapurlegasti. FBI fulltrúinn myrðir lögreglufógetann en segja má að Hank hafi í raun verið valdur að því þar sem hann hafði fundið flugvélina án þess að gera viðvart um það. Hank ætlar aftur að koma málum þannig fyrir að ekki komist upp um sekt þeirra. Það er þá sem Jakob gefst upp, hann biður Hank um að skjóta sig en láta líta út fyrir að falski FBA fulltrúinn hafi gert það. Jakob telur sig ekki geta lifað með því sem hann hafi verið þátttakandi í.
Hvað varðar Söru og örlög hennar þá eru þau ekki ósvipuð örlögum Evu í syndafallinu. Hank kennir henni nánast um það hvernig komið er fyrir þeim og gerir hann fyrirætlanir hennar að engu með því að brenna alla peningana. Af öllu því sem að framan greinir má segja að boðskapur myndarinnar sé sá að allar þær syndir sem drýgðar höfðu verið fyrir veraldlegt ríkidæmi reyndust ekki til neins og ekki þess virði. Myndin áréttar þannig þá lífspeki föður þeirra Hanks og Jakobs (sem hafi framið sjálfsmorð) að veraldleg gæði, glæpir og voðaverk stuðli aldrei að hamingju. Hank vaknar því upp við þann vonda draum að hann hafi þrátt fyrir allt verið hamingjusamur áður, en nú sitji hann og Sara ein eftir með óbærilega sekt sem þau verði að læra að lifa með.
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M3, Orðskv 30:17
Persónur úr trúarritum: Sara, Jakob, Mary (Beth)
Sögulegar persónur: Hrói Höttur
Guðfræðistef: syndafall, synd
Siðfræðistef: sjálfsvíg, morð, óhófleg drykkja, undirferli, vinátta, þjófnaður, svik, freisting, samviska, lygar, náungakærleikur, hamingja, eftirsjá
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, kikjugarður
Trúarleg tákn: rauður litur, hrafnar, auga, fullt tungl
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: jarðarför, ómeðvituð áköllun til Guðs, ómeðvitað bölvun
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól, gamlárskvöld