Kvikmyndir

About Schmidt

Leikstjórn: Alexander Payne
Handrit: Alexander Payne, byggt á samnefndri skáldsögu
Leikarar: Jack Nicholson, Hope Davis, June Squibb,
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2002
Lengd: 125mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Warren Schmidt er 66 ára gamall og nýlega sestur í helgan stein þegar hann missir eiginkonu sína til margra ára. Þessar breytingar krefja hann til að endurmeta líf sitt og sjálfan sig.

Almennt um myndina:
Myndataka, klipping og hljóð eru almennt góð. Myndatakan er skemmtileg, vel er sýnt framan í sögupersónur, sérstaklega þegar samræður eiga sér stað. Oft koma ofanskot, einkum þegar nota á umhverfið til að sýna líðan persónanna, aðallega Schmidts, og leggja þau áherslu á hve umhverfið er nauðsynlegt. Myndin hefst reyndar á ofanskoti, þar sem borgin Omaha í Nebraska er sýnd. Greinilega er vetur, allt er svo bert og hrásalagalegt og er það út alla myndina og leggur enn meiri áherslu hve snautt og líflaust líf Schmidts er. Turn tryggingafélagsins Woodmen of the World eða The Woodmen Life Assurance Co. gnæfir yfir aðrar byggingar, lýsir kannski því hvernig starfið hefur átt stærstan hluta í lífi Schmidts, ekki eiginkonan og dóttirin.

Tónlistin er þægileg undir myndinni, sama stefið heyrist oft og þá einkum þegar við fylgjum Schmidt eftir án þess að nokkurt tal sé. Í samræðuatriðum er engin tónlist, þögnin verður áberandi þegar við á. Sérstaklega er þetta áhrifaríkt í samtali Schmidts og dóttur hans er hún ætlar heim til Denver eftir jarðarför móður sinnar.

Leikararnir skila sínu vel. Jack Nicholson nær að skapa trúverðuga persónu sem auðvelt er að finna til með og skilja. Svipbrigði og allt látbragð, göngulag, hæfir vel persónunni Schmidt, þó svo manni finnist það ekki hæfa hinum stórbrotna leikara. Kathy Bates fer á kostum sem Roberta, móðir brúðgumans.

Ein persónan kemur aldrei fram í myndinni en er samt eins og rauður þráður í gegnum hana, en það er fóstursonur Schmidts í Tansaníu, Ndugu. Hún skiptir hann miklu máli. Reyndar var stofnaður menntasjóður fyrir hinn raunverulega Ndugu, Abdallah Mtulu, í gegnum Childreach organization, sem eru til í raunveruleikanum. (Sjá Fun stuff á síðu myndarinnar http://www.imdb.com/title/tt0257360/trivia.) Sama er með fyrirtækið The Woodmen Life Assurance Co., það er starfandi tryggingafélag. Atriðin á skrifstofu Schmidts eru tekin upp í byggingu fyrirtækisins og var Nicholson gerður að heiðursskógarhöggsmanni eftir að tökum lauk. (Sjá Fun stuff á síðu myndarinnar http://www.imdb.com/title/tt0257360/trivia.)

Myndin er bönnuð innan 12 ára hér á landi og er það í samræmi við aldurstakmarkanir í Ameríku. (http://www.nccbuscc.org/movies/a/aboutschmidt.htm.) Ástæða þessa er einkum gróft orðbragð, en töluvert er blótað í myndinni, ásamt því að bert hold sést.

Leikstjórinn, Alexander Payne, hefur getið sér gott orð sem kvikmyndaleikstjóri. Eldri myndir hans eru Citizen Ruth (1996) og Election (1999) sem báðar hafa hlotið lof gagnrýnenda. Mynd hans Sideways (2004) gerist að nokkru leyti á ferðalagi, líkt og myndin About Schmidt, og segir frá tveimur félögum sem nálgast miðjan aldur en hafa ekki afrekað margt í lífinu. Þeir horfast því í augu við sjálfa sig, á sama hátt og Schmidt, og endurskoða líf sitt. Nebraska heitir nýjasta mynd hans, en hún er væntanleg síðar á árinu.

Í myndum Paynes er persónusköpunin trúverðug og hefur hann lag á að draga upp raunsanna mynd af hversdagslífi meðaljónsins, sem oft er grátbroslegt þegar vel er að gáð. Það sem einkennir þær er fyrst og fremst mannleg samskipti, breyskleiki mannsins, lífið og þau tækifæri sem það býður uppá, sem og hæfileiki mannsins til að líta í eigin barm og taka því sem þar er að finna. Þær vekja mann gjarnan til umhugsunar um eigið líf, vonir og væntingar og er það góður kostur við myndir.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Persónur myndarinnarAðalpersónan, Warren Schmidt, er hægur og rólegur maður. Hann hefur náð því að verða aðstoðarvaraforstjóri hjá tryggingafélaginu og hefur vinnan átt hug hans allan, þrátt fyrir að draumur hans um að eignast sitt eigið fyrirtæki og gera það stöndugt, jafnvel koma því á hlutabréfamarkað, hafi ekki ræst. Í bréfi sínu til Ndugus segir hann það hafa verið of mikil áhætta sem konan hans hefði aldrei leyft honum að taka.

Schmidt virðist ekki tjá sig mikið við konu sína um hvernig honum líður né um hvað hann er að gera. Til dæmis leynir hann henni vonbrigðum sínum eftir heimsóknina á vinnustaðinn og lætur sem hans hafi verið þörf og heimsókn hans hafi verið gagnleg fyrir eftirmann hans, en segir henni ekki frá þeirri niðurlægingu sem hann upplifði. Hann lætur hana heldur ekki vita er hann ákveður að taka að sér fósturbarn í Tansaníu, eftir að hafa séð sjónvarpsauglýsingu frá Childreach-stofnuninni og reyndar felur hann það fyrir henni.

Afskiptaleysi hans af dótturinni, Jeannie, hefur skapað gjá á milli þeirra. Minningar hans um hana eru einkum frá æskuárum hennar sem sýnir að tengslin hafi rofnað eftir að hún fullorðnaðist. Þegar Schmidt allt að því bannar Jeannie að giftast unnusta sínum furðar hún sig á að hann ætli nú að sýna lífi hennar áhuga og segja henni fyrir verkum.

Helen er róleg kona sem lítið virðist fara fyrir. Hún er þó dugnaðarforkur og hefur skapað þeim fallegt og gott heimili og sett eiginmanni sínum reglurnar með ýmsa umgengni. Eftir 42 ára hjónaband er hún farin að þekkja mann sinn vel og kunna á hann. Þau hafa ákveðin hlutverk og ekki þarf að breyta þeim. Helen er ánægðari með starfslok Schmidts en hann sjálfur og hlakkar til að ferðast í stóra húsbílnum, en greinilegt er að þetta er fremur hennar hugmynd en hans ­ hann fylgir bara með og samþykkir það sem hún vill gera. Þær mæðgur eru nánar og talast nærri daglega við og hjálpast að við skipulagningu væntalegs brúðkaups. Öfugt við eiginmann sinn er Helen ánægð með ráðahaginn og telur Jeannie heppna að finna sér mann.

Lítið fer fyrir dótturinni í myndinni. Greinilegt er þó að henni finnst ekki mikið til föður síns koma. Hún ásakar hann um að hafa ekki sýnt Helen næga virðingu eftir allt sem hún lagði á sig fyrir hann í hjónabandi þeirra. Jeannie er á fertugsaldri og býr í Denver. Þar starfar hún hjá tölvufyrirtæki og virðist hafa nóg að gera. Unnusti hennar, Randall, selur vatnsrúm en er sífellt að leita að nýjum tækifærum til að efnast á. Það gengur þó heldur hægt. Hann er gerður svolítið einfaldur, virðist reyna að halda fast í æsku sína með því að hafa sítt tagl þó hárið sé farið að þynnast á kollinum. Randall er ljúfur maður en Schmidt sér ekkert nema fávita sem ekki er nógu góður fyrir dóttur hans.

Tengdafjölskylda Jeanniear er fremur furðuleg. Kannski er það að hluta til vegna þess að hún er sýnd með augum Schmidts, sem hefur ekki mikið álit á tilvonandi tengdasyni sínum og hans fjölskyldu. Fjölskyldumynstrið er ekki hefðbundið. Móðirin, Roberta, er fráskilin en þótt eiginmaðurinn fyrrverandi sé kvæntur að nýju er hann mikið hjá Robertu og lætur hana stjórna sér og skammast í sér eins og hún hefur örugglega alltaf gert. Bróðir Randalls, unnusta Jeanniear, virðist ekki reiða vitið í þverpokum.

Schmidt er utanveltu í samskiptum sínum við fjölskylduna, eiginkonan er honum allt að því framandi og dóttirin er fjarlæg. Tengdasonurinn tilvonandi, sem á sjálfur mjög náið samband við ráðríka móður sína, vill styrkja samband sitt við Schmidt og reynir það bæði með hluttekningu í sorg hans sem og með því að reyna að fá hann í samstarf. Schmidt kann ekki að taka tilraunum Randalls til nánari sambands auk þess sem honum stendur ógn af honum og raunar tengdafjölskyldunni allri, enda stendur hann lakar að vígi en þau í samskiptunum við Jeannie.

Sá eini sem Schmidt á náin samskipti við er Ndugu. Samskiptin eru þó einhliða og felast í bréfum hans til drengsins. Hann opnar sig fyrir Ndugu og segir honum ýmislegt sem hann getur ekki sagt við aðra. Þó fegrar hann hlutina fyrir honum, rétti eins og fyrir konu sinni forðum. Í bréfi til Ndugus, stuttu eftir jarðarförina, talar Schmidt um hve nauðsynlegt sé að halda ákveðinni rútínu þegar umrót kemst á líf manns. Hann segist fara út og hugsa vel um sig og að það gangi vel að sjá um heimilið. Sannleikurinn er sá að hann situr aðgerðarlaus fyrir framan sjónvarpið og fer ekki út úr húsi fyrr en allt ætilegt er á þrotum. Í fleiri bréfum er sami blekkingarleikurinn í gangi, allt er látið líta vel út og sannleikanum hagrætt örlítið. Schmidt virðist samt sem áður hafa ákveðna þýðingu fyrir Ndugu. Það tjáir hann í mynd sem hann teiknar fyrir Schmidt, þar sem þeir tveir haldast í hendur.

Hliðstæður við texta í BiblíunniLíta má á myndina About Schmidt sem hliðstæðu við Jobsbók í Gamla testamentinu. Þar segir frá trúræknum manni sem missir allt sitt og skoðar í framhaldi af því guðsmynd sína og heimsmynd. Job er auðugur maður en er Guð reynir hann missir hann lífsviðurværi sitt, börn hans deyja og hann tapar heilsunni. Hann missir aldrei trúna á Guð þó hann reiðist honum og sé ósáttur. Í myndinni fylgjumst við með Schmidt missa vinnu sína, ekki bara vegna starfsloka heldur er ævistarfi hans hent á haugana. Þá missir hann einnig fjölskyldu sína og lífið eins og hann hafði talið það vera en hann uppgötvar gamalt framhjáhald konu sinnar. Æskudraumana hafði hann fyrir löngu gefið upp á bátinn.

Schmidt er kominn á sjötugsaldur og farinn að láta á sjá, þótt hann sé heilsuhraustur. Myndin hefst á því að Schmidt situr í auðri skrifstofu sinni og bíður þess að síðasti vinnudagurinn líði. Með vinnumissinum hverfur megintilgangurinn í lífi hans. Í stað þess að vakna og halda til vinnu, sest hann og ræður krossgátur. Hann hefur engum skyldum að gegna á heimilinu, þar ræður frúin ríkjum. Eftir heimsókn á gamla vinnustaðinn er eins og vinnuframlag hans sé einskis metið, ekki aðeins vegna þess að hann sér pappíra sína á leið á haugana, heldur er eftirmaður hans ekki líklegur til að feta í fótspor hans. Reiði og biturð gagntaka hann í garð hins unga eftirmanns sem með hroka æskunnar hafði gert lítið úr honum. Schmidt lætur þó ekkert uppi við eiginkonu sína en það er í bréfi hans til drengsins í Tansaníu sem við sjáum hvernig honum líður. Í sama bréfi tíundar Schmidt þá drauma er hann átti í upphafi starfsferils síns, en nú er ljóst að þeir ná ekki að rætast.

Eftir áratuga langt hjónaband er Schmidt efins um að hann þekki konu sína, þessa gömlu konu sem býr í húsinu hans. Hann ergir sig yfir nánast öllu í fari hennar en er hún deyr skyndilega verður það honum áfall. Hann stendur uppi einn í ellinni og þarf að sjá um sig sjálfur. Dóttirin er að fara að gifta sig og vill ekki koma og hugsa um hann, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um. En það er ekki einungis konan hans sem deyr heldur missir hann einnig þá sýn er hann hafði á hjónaband sitt þegar hann finnur gömul ástarbréf frá sínum besta vini til Helenar. Hvað stendur eftir nú þegar vinnan, draumarnir, eiginkonan, lífið og hjónabandið eins og hann hafði álitið það vera, er allt horfið? Hann á jú ennþá dótturina eða er hann búinn að missa hana líka? Schmidt heldur af stað til að verja tíma með Jeannie og telja hana ofan af því að giftast Randall. Á ferðalaginu endurskoðar hann líf sitt, sjálfan sig og samskipti sín við aðra. Einnig þarf hann að sættast við sjálfan sig og það líf sem hann átti.

Job fær aftur trúna á lífið og í lokahluta sögunnar farnast honum vel að nýju. Sama má segja um Schmidt. Hann hefur náð ákveðnum sáttum við dóttur sína, fengið fyrirgefningu og fyrirgefið sjálfur. Hann hefur aftur öðlast tilgang í lífinu, ekki síst vegna Ndugus. Einhverjir myndu þó vilja halda því fram að Schmidt sé enn fullur vonleysis og biturðar í lok myndarinnar, en vonandi eru þeir fleiri sem sjá hið gagnstæða.

Þó líta megi á mynd þessa sem hliðstæðu við Jobsbók er margt ólíkt með Job og Schmidt. Í sögunni af Job er velt fyrir sér orsökum og afleiðingum af gjörðum mannsins. Af hverju henda svona slæmir hlutir góðan og trúaðan mann. Slíkum spurningum er ekki velt upp í About Schmidt heldur er áherslan á hvernig getur farið ef maður er ekki í tengslum við sína nánustu og við sjálfan sig, afleiðingarnar af framkomu mannsins við aðra. Job þurfti að sættast aftur við Guð en Schmidt þarf að endurskoða sjálfan sig og taka sig og líf sitt í sátt. Sætta sig við hvernig hann hefur lifað lífinu og hvernig komið er fyrir honum nú vegna þess. Einnig þarf hann að finna leið til að lifa lífinu áfram í sátt við sjálfan sig og aðra og hann virðist hafa fundið ákveðna leið til þess.

Trúarlegt atferliÁhersla á trúarlíf og trúarleg atferli er ekki mikil. Áberandi eru þó huggunarorð margra er segjast biðja fyrir Schmidt eftir að hann missir eiginkonuna. Kannski lítur hann á það sem eitthvað sem fólk segir á slíkum stundum án þess að meira liggi að baki orðanna. En líka verður að muna að hann á ekki auðvelt með samskipti við aðra, hvað þá náin samskipti. Þó verður að benda á að fólkið var bænheyrt, Schmidt nær að halda áfram sínu lífi eftir lát eiginkonu sinnar. Honum tekst að rífa sig upp úr þunglyndi og drífa sig af stað í ferðalag og koma heim sáttari við sjálfan sig en áður.

Schmidt talar við prest eftir lát Helenar, eiginkonu sinnar, en það samtal virðist ekki veita honum huggun, aðeins leyfi til að vera reiður Guði, því Guð skilji það. Jarðarför Helenar er með hefðbundnu bíómyndasniði, reyndar er Rómverjabréfið 14.8 lesið en ekki 23. sálmur eins og svo oft er. Maðurinn sem þvær stóran trukk hinum megin götunnar minnir jarðarfaragesti og áhorfendur á að lífið heldur áfram þótt fylgja þurfi einhverjum í gröfina.

Brúðkaup dóttur hans, Jeannie, fer fram í kirkju með söng, heitum brúðhjónanna, bænum og öðru sem tilheyrir amerískum bíómyndabrúðkaupum.

Það er mjög sterkt atriði þegar Schmidt fyrirgefur Helen framhjáhaldið og biður hana fyrirgefningar á öllu því er hann hafði gert á hennar hlut, það er að hann hafi ekki verið sá maður sem hún átti skilið að eiga og að hann hafi ekki veitt henni það sem hún þurfti og átti skilið. Þarna nær Schmidt stórum áfanga í lífi sínu ­ hann hefur horfst í augu við sjálfan sig og líf sitt og sér að hann hefði þurft að leggja sig meira fram við sína nánustu. Hann iðrast þess hvernig samband þeirra hjóna var, hvað samskiptunum var ábótavant og hve stóran hlut hann átti þar að máli. Schmidt situr undir stjörnubjörtum himni og sér stjörnuhrap. Hann lítur á stjörnuhrapið sem svar Helenar og fyrirgefningu. Þetta fær mikið á hann og í hálfgerðri leiðslu signir hann sig. Eftir þetta hefur hann öðlast ákveðna endurlausn eða sátt, og getur ótrauður haldið áfram ætlunarverki sínu, sem er að koma í veg fyrir brúðkaup dóttur sinnar.

GuðfræðistefFyrirgefningin er eitt sterkasta guðfræðistefið í myndinni. Eins er fyrirgefningin mikilvæg í lífi hvers manns. Það að fyrirgefa öðrum getur fyllt okkur nýju lífi, ekki síður en þegar við fáum fyrirgefningu annarra. En að biðja aðra fyrirgefningar krefst einnig mikillar sjálfsskoðunar. Þegar sá sem biður fyrirgefningar iðrast gjörða sinna, hefur hann horft inn í sjálfan sig og viðurkennt að hafa breytt ranglega og í kjölfarið viðurkennir hann misgjörðir sínar fyrir þeim sem á að veita fyrirgefninguna.

Þegar Schmidt hefur fyrirgefið eiginkonu sinni framhjáhaldið og fengið fyrirgefningu hennar verður hann sem nýr maður. Hann hefur fengið endurlausn. Honum líður vel, allt er svo skýrt og hann veit nákvæmlega hvað hann vill og hvað hann þarf að gera. En er það hið rétta? Verður hann ekki líka að fá fyrirgefningu dóttur sinnar? Schmidt er enn sannfærður um að Jeannie sé að gera mistök með því að giftast Randall. Hann þrábiður hana um að hætta við brúðkaupið, hann reynir að hafa áhrif á hana á ýmsan hátt en þegar allt þrýtur grípur hann til þess ráðs að banna henni að giftast honum. Loks verður honum ljóst að hann fær ekki sínu fram og verður að sætta sig við að dóttirin giftist manni sem er engan veginn nógu góður fyrir hana. Í brúðkaupsveislunni leggur hann blessun sína yfir hjónabandið, talar um hve ánægð þau Helen voru með ráðahaginn, hve vel Randall hefur reynst þeim og talar fallega um tengdafjölskylduna. Með þessu hefur hann rétt út sáttarhönd til dóttur sinnar og að einhverju leyti fengið fyrirgefningu og viðurkenningu frá henni.

Fyrirgefningin og sáttin eru ríkjandi guðfræðistef í myndinni en einnig vakna spurningar um tilgang lífsins, örlög mannsins og eðli hans. Einnig er að finna mörg siðfræðistef, mannleg samskipti eru ef til vill það sterkasta, það er hvernig við komum fram við aðra og hvernig aðrir koma fram við okkur, og hvaða áhrif það hefur á líf okkar.

Boðskapur myndarinnarAbout Schmidt fjallar á ýmsan hátt um sama efni og mynd Ingmars Bergman, Smultronstället (1957), um það að horfast í augu við sjálfan sig og verða að betri manni. Hún segir á mjög sterkan hátt hve nauðsynleg fyrirgefningin er okkur, bæði að fyrirgefa öðrum sem og að fá fyrirgefningu annarra, svo að óttinn og hatrið yfirtaki okkur ekki og koma í veg fyrir þroska okkar.

Heimildirhttp://www.imdb.com/title/tt0257360/trivia
http://www.imdb.com/title/tt0257360/trivia
http://www.nccbuscc.org/movies/a/aboutschmidt.htm
http://www.unomaha.edu/jrf/Vol7No1/aboutschmidtrev.htm
Biblían. 1981. Hið íslenska biblíufélag. Reykjavík
About Schmidt – aukaefni á mynddiski

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Rm 14:8
Hliðstæður við texta trúarrits: Jobsbók
Guðfræðistef: dauði, sorg og sorgarferli, iðrun, fyrirgefning, mannseðlið, tilgangur lífsins, vantrú, örlög, sektarkennd, von, endurlausn, sátt
Siðfræðistef: framhjáhald, fordómar, heiðarleiki, hroki, ótti, hjálpsemi, ást, samskipti, vinátta, níska, afskiptaleysi, kynlíf
Trúarbrögð: kristindómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kerti, altari, stjörnuhrap
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: jarðarför, hjónavígsla, signing, bæn, góðar hugsanir
Trúarleg reynsla: endurlausn