Leikstjórn: Giuseppe Colizzi
Handrit: Giuseppe Colizzi
Leikarar: Terence Hill, Eli Wallach, Bud Spencer, Brock Peters, Kevin McCarthy, Tiffany Hoyveld, Federico Boido (undir nafninu Rick Boyd), Armando Bandini, Livio Lorenzon, Bruno Corazzari og Steffen Zacharias
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1968
Lengd: 116mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0064860
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Bófarnir Cat Stevens og Hutch Bessy svíkja $300.000 út úr bankastjóra í El Paso sem fyrir vikið bjargar dauðadæmda útlaganum Cacapoulos úr fangelsi til að siga honum á þá í von um að geta endurheimt fjárhæðina. Cacapoulos skýtur hins vegar bankastjórann, stelur peningunum frá Stevens og Bessy og stingur af til Mexíkó í leit að skúrkunum, sem höfðu svikið hann í steininn. Stevens og Bessy halda þegar í stað á eftir honum staðráðnir í að ganga frá honum en skipta um skoðun þegar á hólminn er komið og ganga í staðinn til liðs við hann.
Almennt um myndina:
Terence Hill og Bud Spencer léku saman í nokkrum spaghettí-vestrum áður en þeir slógu í gegn í hlutverki Trinity bræðranna árið 1970 og er kvikmyndin Ace High ein þeirra. Enda þótt flestar myndir þeirra Hills og Spencers verði að teljast slæmar þrátt fyrir ótrúlegar vinsældir þeirra á sínum tíma, er vestrinn Ace High samt furðu góður. Húmorinn er óvenju kaldhæðinn að þessu sinni, enda étur mexíkanska byltingin börn sín í svo til orðsins fyllstu merkingu, en sögupersónurnar hlægja jafnan kvikindislegum hrossahlátri á kostnað náungans.
Eli Wallace er vel valinn í hlutverk útlagans Cacapoulosar og minnir eilítið á þann ljóta (eða grimma eins og hann var jafnan nefndur á íslensku) í The Good, the Bad and the Ugly, sem gerð var tveim árum áður. Þeir Hill og Spencer sleppa sömuleiðis alveg stórslysalaust frá sínu.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Flestum til mikillar arðmæðu vitnar Cacapoulos gjarnan í afa sinn sem hafði kennt honum marga lífsspekina, meðal annars í trúarefnum. Við eitt tækifærið segir hann félögum sínum t.d. að það borgi sig hvorki að ljúga né segja sannleikann. Það gæti nefnilega farið eins fyrir þeim, sem segja sannleikann, eins og þeim fróma manni, sem krossfestur var á sínum tíma. (Sbr. t.d. Jh 18:37-38, 19:16.) Verður sú lífsspeki að teljast mjög í anda spaghettí-vestranna.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Jh 18:37-38, 19:16
Guðfræðistef: kraftaverk, frelsun, helvíti, krossfesting, sannleikur
Siðfræðistef: manndráp, dauðarefsing, ofbeldi, hefnd, lygi, fjárhættuspil, svindl, kynþáttahatur, meðaumkun, hæðni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross, talnaband
Trúarlegt atferli og siðir: signing