Kvikmyndir

Africa Express

Leikstjórn: Michele Lupo
Handrit: Mario Amendola, Bruno Corbucci og Gabrielle Martin
Leikarar: Giuliano Gemma, Ursula Andress, Jack Palance, Giuseppe Maffioli, Nello Pazzafini, Gianni Vernucio [undir nafninu John Werner], Luciana Turina, Rossana Di Lorenzo og Roberto Dell’acqua
Upprunaland: Ítalía og Þýzkaland
Ár: 1975
Lengd: 93mín.
Hlutföll: 1.85:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Ungur Bandaríkjamaður freistar gæfunnar í Afríku í von um að geta safnað fyrir bensínstöð heima í Detroit. Hann gerist flutningabílstjóri og farandsölumaður og fylgir apinn Biba honum hvert sem hann fer. Dag einn bjargar hann nunnu á flótta undan lestarræningjum úti í óbyggðum, en hún reynist vera njósnari á höttunum eftir eftirlýstum stríðsglæpamanni frá síðari heimsstyrjöldinni.

Almennt um myndina:
Ítölsk gamanmynd fyrir alla fjölskylduna með tilheyrandi hnefahöggum og steikarpönnubarsmíðum, en slíkur húmor einkennir jafnan slagsmálamyndir Micheles Lupo. Aldrei þessu vant er Bud Spencer þó ekki á svæðinu og notar aðalleikarinn Giuliano Gemma tækifærið undir miðri mynd til að kvarta sérstaklega undan því. Ursula Andress er hér aðeins farin að eldast og fer það henni bara vel en Jack Palance er eins og venjulega samur við sig.

Meðal handritshöfundanna er Bruno Corbucci, sem m.a. gerði spaghettí-vestrann The Longest Hunt (1970), en hann er bróðir eins af afkastamestu kvikmyndagerðarmönnum Ítalíu, Sergios Corbuccis.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þegar ungi farandsölumaðurinn bjargar nunnunni undan lestarræningjunum, fer hann með hana til næstu trúboðsstöðvar og sýnir henni þar tréstyttu af dýrlingnum Bibongo, sem er með segulbandstæki lokað inni í bakinu. Í hvert sinn sem segulbandstækið er sett í gang flytur styttan Sálm 23 í heild og krjúpa þá allir nærstaddir á kné. Í þýðingu Guðna Kolbeinssonar er sálmurinn á þessa leið:

Herrann er hirðir minn.
Mig skal ei skorta neitt.
Hann endurnærir sál mína
og leiðir mig á vegum réttlætis.
Jafnvel í skuggadal dauðans óttast ég ei,
því Herrann er með,
náð hans og miskunn mun fylgja mér.

Ástæðan fyrir því hversu stuttur sálmurinn er í þessari þýðingu er sennilega sú að spara pláss á skerminum, en þýðingar á kvikmyndum eru oftar en ekki bara styttingar eða endursagnir. Engu að síður er áhugavert að sjá hvernig sálmurinn hefur verið útfærður í þessari endursögn, en það er alveg ljóst að þýðandinn hefur ekki haft fyrir því að fletta upp á honum í Biblíunni. Þannig er talað um „Herrann“ í stað „Drottins“ að útlenskum hætti og „dimmi dalurinn“ verður að „skuggadal dauðans“ eins og það er orðað í King James þýðingunni. Í íslensku biblíuútgáfunni frá 1981 er sálmurinn á þessa leið:

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mina,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns sins.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mina,
og í húsi Drottins bý ég
langa ævi.

Gnægð er af grænum grundum og vötnum í myndinni og njóta allir næðis á trúboðsstöðinni þar sem dýrlingsstyttuna er að finna. Síðar bilar segulbandið og þarf þá aðalsöguhetjan að fara með styttuna í viðgerð á flutningarbílnum sínum. Á leiðinni lendir hann hins vegar í átökum við nokkra skúrka og endar ásamt nunnunni (sem er reyndar bara njósnari í dulargervi) með flutningarbílinn á bólakaf út í stórfljót. Þar sem styttan er gerð úr tré komast skötuhjúin hins vegar lífs af með því að halda sér fast í hana langleiðina niður fljótið. Við tekur síðan flótti með dýrlinginn um dimmt skóglendi (sem ásamt öllum hasarnum gæti staðið fyrir dimma dalinn) en hann bjargar aftur lífi þeirra þegar skúrkarnir skjóta hann í höfuðið í misgripum fyrir þau. Allt fer þetta þó vel að lokum og hagnast trúboðsstöðin á öllu saman.

Enda þótt það sé freistandi að heimfæra Sálm 23 upp á söguþráð myndarinnar, er alls óvíst hvort aðstandendurnir hafi haft sálminn sérstaklega í huga með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. Hver veit?

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Sl 23
Persónur úr trúarritum: heilagur Bibongo, djöfullinn, skógarandi, engill
Guðfræðistef: trú, köllun, fyrirgefning Guðs, guðleysi, kraftaverk, paradís, óútreiknanlegir vegir Guðs, draugur, helvíti
Siðfræðistef: ofbeldi, fjárhættuspil, morðtilraun, kynlífshræðsla, þjófnaður, smygl
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: trúboðsstöð, kirkja
Trúarleg tákn: dýrlingsstytta, kross í hálsmeni, kristsstytta, altari, kross
Trúarleg embætti: nunna, abbadís, prestur, biskup, töfralæknir
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, kropið við ritningarlestur, ritningarlestur, predikun, sálmasöngur, messa, signun, blessun, kristniboð