Kvikmyndir

Angel Heart

Leikstjórn: Alan Parker
Handrit: Alan Parker, byggt á skáldsögunni Falling Angel eftir William Hjortsberg
Leikarar: Mickey Rourke, Robert De Niro, Lisa Bonet, Charlotte Rampling, Stocker Fontelieu
Upprunaland: Kanada, Bretland, Bandaríkin
Ár: 1987
Lengd: 113mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0092563
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Maðurinn að nafni Louis Cyphre fær leynilögreglumaðurinn Harry Angel að leita að Johnny Favourite, frægum söngvara. Louis Cyphre hjálpaði við frægðarferil Johnny gegn ákveðinni greiðslu en Johnny stóð hins vegar ekki við samninginn því hann slasaðist alvarlega í síðari heimstyrjöldinni og missti minnið. Andlit hans afmyndaðist svo mikið að læknar þurftu að móta nýtt andlit á Johnny. En stuttu á eftir uppskurðinn hvarf Johnny með umbúðirnar enn vafnar um andlitið og minnislaus með öllu. Síðan eru liðin 12 ár og ekkert hefur heyrst til hans síðan. Rannsókn Harry Angel sækist seint því allir sem Harry Angel spyr um Johnny finnast myrtir nokkrum klukkustundum síðar og ókunnugir menn reyna að koma Harry Angel fyrir kattarnef.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það er ekki fræðilegur möguleiki að fjalla um trúarstef Angel Heart án þess að ljóstra upp um endi myndarinnar. Þeir sem ekki vilja vita hvernig myndin endar ættu því ekki að lesa áfram. Umboðsmaðurinn sem leitar Johnny Favourite er enginn annar en Satan sjálfur, en nafn hans Louis Cyphre hljómar að sjálfsögðu eins og Lúsifer. Eitt það áhugaverðasta við Angel Harry er sú mynd sem dregin er upp af djöflinum. Hann er fágaður og yfirvegaður og í kringum hann starfa kristnir öfgatrúarhópar sem féflétta sauðheimskan almúginn. Einn presturinn segir t.d. „Ef þið elskið Guð og ef þið elskið mig, þá skulið þið opna hjörtu ykkar og opna veski ykkar og gefa mér peninga ykkar…“. Viðhorf Lúsifers til trúarhópa eru í samræmi við þetta: „Sagt er að það séu nógu mörg trúarbrögð í heiminum til að láta fólk hata hvort annað en ekki nógu mörg trúarbrögð til að skapa ást manna á milli.“ Þessi Satan er einnig merkilega „trúaður“ en hann segist t.d. trúa á „auga fyrir auga“, og hann sækir messur í kirkjum. Hann ávítar meira að segja Harry Angel fyrir að gæta ekki að því hvað hann segir í kirkju! Lúsifer virðist vel að sér í biblíunni og trúarbragðafræði og vitnar t.d. í orð Krists um að holdið sé veikt (Mt 26:41, Mk 14:38).

Harry Angel kemst að lokum að því að hann er sjálfur Johnny Favourite. Johnny hafði selt djöflinum sál sína í skiptum fyrir frægð og frama en hafði síðan ætlað að leika á Satan. Hann hafði fundið ungan hermann, Harry Angel að nafni, drepið hann og etið úr honum hjartað til að komast yfir sál hans. Þannig hugðist hann framlengja líf sitt og fela sig fyrir djöflinum. Það er ljóst að Lúsifer vissi það frá upphafi að Harry Angel var Johnny en það var hins vegar nauðsynlegt fyrir hann að Angel kæmist að því sjálfur. Í myndinni segir Lúsifer að sum trúarbrögð líti á hænuegg sem tákn sálarinnar, en um leið og hann sleppir orðinu bítur hann í egg. Þetta er einmitt megin markmið Satans, að komast yfir sálir. En hliðstæðan við eggið er þó ekki fullkomin því það nægir ekki Lúsiferi að komast yfir sálir, þær verða að gera sér grein fyrir gjörðum sínum fyrst. Þessi afstaða er merkilega siðfræðileg. Rétt eins og foreldri myndi ekki skamma barn sitt án þess að láta það fyrst vita hvað það hefur gert af sér, kvelur Satan ekki fórnarlömb sín án vitneskju um syndir sínar.

Harry Angel drap sjálfur alla sem þekktu til Johnny. Ástæðan var líklega sú að undir niðri vildi hann ekki komast að því hver hann var. Lúsifer ítrekar þetta í myndinni þegar hann segir Harry að hann beri sjálfur ábyrgð á morðunum, en svo segir hann: „hönd mín stjórnaði þér að sjálfsögðu.“ En ef Satan stjórnaði Harry, er Satan þá ekki morðinginn sjálfur? Myndin svarar því nú ver og miður ekki þessari spurningu. Annað vafaatriði í myndinni er barn Epiphany Proudfoot (dóttur Harry/Johnny). Andi Lúsifers gerði Proudfoot þungaða (satanisk meyjarfæðing). Er sonurinn andkristur sjálfur eða aðeins eitt af fjölmörgum börnum Lúsifers? Í myndinni er hvergi minnst á heimsslit eða það gefið í skin að barnið marki einhver tímamót. Hins vegar dæmir barnið Harry í lok myndarinnar, rétt áður en hann er sendur til heljar og augu þess verða gul, eins og augu Satans.

Harry Angel hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér, enda fléttan frábær, tónlistin fullkomin og sviðmyndin flott. Myndin er á köflum illa klippt og gulu augu Lúsifers og barnsins eru klisjukennd og illa gerð. Lisa Bonet (úr Bill Cospy Show) sýnir hins vegar góða takta og Robert De Niro er góður í hlutverki Lúsifers.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 2M 21:24, 3M 19:21, 24:20, Mt 5:28, Mt 26:41, Mk 14:38
Persónur úr trúarritum: andkristur, engill, Jesús Kristur, Lúsifer, satan
Guðfræðistef: illska, kynlíf, ódauðleiki, sálin
Siðfræðistef: eiturlyfjaneysla, kynþáttahatur, morð, sifjaspell
Trúarbrögð: babtistar, djöfladýrkun, hjátrú, rómversk kaþólska krikjan, svarti galdur, vúdú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: helvíti, kirkja
Trúarleg tákn: fimmarma stjarna, talnaband, tarot
Trúarlegt atferli og siðir: fjárframlög, lófalestur, skírn
Trúarleg reynsla: andsetning, meyjarfæðing, sýn