Leikstjórn: Ingmar Bergman
Handrit: Ingmar Bergman
Leikarar: Max von Sydow, Ingrid Thulin, Gunnar Björnstrand, Naima Wifstrand, Bengt Ekerot, Bibi Andersson, Gertrud Fridh, Lars Ekborg, Toivo Pawlo, Erland Josephson, Åke Fridell, Sif Ruud, Oscar Ljung og Ulla Sjöblom
Upprunaland: Svíþjóð
Ár: 1958
Lengd: 97mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Þegar töframaðurinn Albert Emanuel Vogler mætir með leikhóp sinn í sænskan smábæ hafa þegar borist fregnir af ýmsum yfirnáttúrulegum lækningum og fyrirbrigðum sem átt hafa sér stað í tengslum við sýningar erlendis. Bæjaryfirvöldunum hugnast ekki þessar fregnir og ákveða að taka Vogler til gaumgæfilegrar athugunar áður en hann fær að setja þar upp sýningu fyrir almenning. Töframaðurinn er látinn setja upp einkasýningu fyrir bæjaryfirvöldin þar sem héraðslæknirinn, málsvari vísindahyggjunnar, reynir að fletta ofan af honum en vandséð er hvor þeirra fari með sigur af hólmi.
Almennt um myndina:
Óhætt er að segja að kvikmyndin Andlitið sé eitt af áhugaverðari verkum sænska kvikmyndagerðarmannsins Ingmars Bergman, þar sem hún varpar nokkru ljósi á lífssýn hans og trúarlega glímu, ekki síst viðhorf hans til stöðu trúarstofnunarinnar í samfélaginu og hlutverks hennar. Það má því telja myndina með trúarlegra verka Bergmans, svo sem trúarþríleiknum svonefnda sem hann var þá ekki byrjaður á, þ.e. myndunum Eins og í skuggsjá (1961), Kvöldmáltíðargestirnir (1963) og Þögnin (1963).
Svart-hvít kvikmyndatakan nýtur sín vel og leikararnir, sem sumir hvernir áttu eftir að leika í mörgum myndum Bergmans, skila hlutverkum sínum vel. Kvikmyndaleikstjórinn Bergman er hér mjög bundinn reynslu sinni og þekkingu af leiksviðinu en hún kemur honum einkar vel á stundum t.d. þegar hann lýsir viðureign læknisins og töframannsins. Gagnrýna má hins vegar myndina fyrir ósannfærandi ástarsenur. Gáskafullur farsinn sem einkennir samskipti aukapersónanna rímar heldur ekki alveg við alvöru töframannsins, sambandi hans við konu sína, sem um leið er aðstoðarmaður hans og átökum hans við fulltrúa hins opinbera. Ef gagnrýna má myndina væri það einna helst ástarsöguhluti hennar sem verður að teljast ósannfærandi og gamansemin sem virkar yfirborðsleg.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin fjallar um hóp leikara og töframanna sem ferðast um og sýna listir sínar. Hann er mættur á herragarð og þar eru gestir sem ætla að gera sér glaðan dag við það að afhjúpa blekkingavef leikaranna. Sýslumaðurinn er mættur á staðinn ásamt héraðslækninum og þeir hugsa sér got til glóðarinnar. Leikhópurinn þarf að glíma við blendnar móttökur þarna eins og annars staðar. Heimur töframannsins laðar fram duldar óskir og hégóma fólks sem dreymir um annan veruleika en þann sem mótar hversdagsleikann og gefur öryggi þótt hann sé tilbreytingalítill og oft leiðinlegur. Leikurunum fylgir því eftirvænting og spenna, en fólk er einnig fljótt að snúa við þeim baki, sína þeim lítilsvirðingu og jafnvel ofsækja þá.
Til viðbótar við skemmtun og hrollvekju getur hópurinn boðið upp á dáleiðslu, kraftaverk og lækningar. Í för hans hefur útbrunninn drykjumaður slegist, leikari sem á aðeins eftir að leika eitt hlutverk og það er að mæta dauðanum. Þetta hlutverk er alveg eins hægt að nota sem uppistöðu í töfrabragð eins og hvað annað. Líkið kemur sér vel fyrir töframanninn þegar morð og endurlífgun eru sett á svið fyrir húsbóndann og gesti hans. Það þarf að kryfja og ganga frá eftir kúnstarinnar reglum og hefst þá atburðarás sem ekki var að öllu leyti séð fyrir. Heimarnir tveir, þ.e. skynsemisveröld læknisins annars vegar og dularheimur töframannsins hins vegar rekast á og vandséð hvor þeirra fer með sigur af hólmi því töframaðurinn er mannþekkjari og býr yfir mætti sefjunarinnar. Barist er upp á líf og dauða. Krufningin er annars vegar tákn fyrir forvitni mannsins en hins vegar tákn fyrir vald hins opinbera, sem heldur skrár yfir þegnana og feril þeirra frá fæðingu til dauða í því skyni að deila og drottna og heimta skatta. Hún er bæði hversdagslegt skylduverk og handavinna og ógnvekjandi könnunarleiðangur á vit hins óþekkta. Atburðarrásin afhjúpar bæði brögð töframannsins og hégómagirnd og vanþekkingu borgarastéttarinnar, og hún flettir ofan af hræsni og hroka yfirvaldsins, sem tekið hefur vísindin í þjónustu sína.
Max von Sydow leikur Albert Emanuel Vogler, aðaltöframanninn með andlitið magnaða sem dáleiðir fólk. Eins og Austurríkjamaðurinn Franz Anton Mesmer (1733-1813), sem sagðist geta læknað sjúka á grundvelli umdeildra kenninga sinna um frumeter, stjörnuspeki og segulkraft, segist Vogler geta læknað sjúkdóma þar sem læknavísindin verða frá að hverfa. Mesmer var reyndar lærður læknir og notkun hans á dáleiðslu og sefjun skiluðu vissum árangri. En hann varð að þola rannsóknarrétt upplýsingarmanna sem gerðu hann að lokum að utangarðsmanni.
Vogler ögrar heimssýn vísindasamfélagsins og þeirri reglu sem borgaralegt samfélag er grundvallað á og treystir. Hann og fylgdarlið hans er fyrir vikið sett undir smásjá og leikur listir sínar fyrir framan fulltrúa valdsins. Þjáð og fjarrænt andlit hans líkist andlitsmyndum af Kristi og verður fólk hæglega fyrir áhrifum af persónutöfrum hans og þeim dularmætti sem yfir honum hvílir. Þegar blekkingavefur töframannanna svo hrynur, eru mannlegar og breyskar tilfinningar sögupersónanna og áhorfendanna svo flæktar í vefinn að ekki er hægt að fylgja þeirri rannsóknarniðurstöðu eftir. Þegar öll sund virðast lokuð fyrir töframanninum og fylgdarliði hans kemur hins vegar orðsending frá konungshirðinni um að hans hátign vilji fá að sjá sýninguna sjálfur. Þrátt fyrir það að bæði gestir og gestgjafar hafi misst alla sjálfsvirðingu og trúverðugleika verður leiksýningin að halda áfram.
Líta má á að þessa kvikmynd sem gagnrýni á þau yfirvöld sem fletta ofan af blekkingavef töframannanna en þurfa samt á þeim að halda til þess að bæta sér upp innihaldslaust og tilgangslaust líf. E.t.v. táknar leiksvið töframannanna trúarstofnunina, kirkjuna, sem byggir á kraftaverkum sem ekki fást staðfest, en sem fólkið og valdið þurfa á að halda bæði vegna aðdráttaraflsins sem handanheimar hafa á fólk og þess ótta sem þeir vekja. Ríkjandi stjórnkerfi sem þrífst á þessu sjúklega ástandi verður því að vara sig á því að afhjúpa ekki blekkingarnar sem það byggir tilveru sína á.
Einnig má líta svo á að leikflokkurinn sé fulltrúi fyrir listina og örlög hennar í samfélaginu. Listin getur verið eins og glæsilegar umbúðir utan um blekkingu. Listamaðurinn kitlar hégómagirnd aðdáenda sinna og svo lengi sem hann getur gert það er hann í miklum metum. En samband hans við listunnendur er falskt og yfirborðslegt. Þeir sem hafa efni á listum eru ekki að leita sannleikans þar þótt það sé yfirskinið. Þeir þola hann í raun og veru ekki og listamaðurinn situr uppi með það, að þegar honum tekst best upp er hann í raun og veru í hlutverki fyrirlitins svikahrapps.
Nánari umfjöllun um Ingmar Bergman og trúarstef í kvikmyndum hans má finna í ritinu Kónguló eða kærleiksguð: Um áhrif kristindómsins á Ingmar Bergman og listsköpun hans eftir Pétur Pétursson.
Persónur úr trúarritum: Franz Anton Mesmer (1733-1815), Guð, Venus Aphrodite, djöfulinn
Guðfræðistef: töfrar, kraftaverk, tilgangur lífsins, vísindahyggja, handanheimurinn, hlutverk trúarbragða, trúarstofnunin, yfirnáttúruleg fyrirbrigði, sjúkdómar, draugar, sannleikur, dauðinn, fyrirgefning, þögn Guðs, vantrú, efahyggja, yfirnáttúruleg öfl
Siðfræðistef: blekking, hræsni, krufning, svik, sjálfsvígshugsanir, lygi, ögrun, lítilsvirðing, dauðarefsing, fyrirlitning, vændi, hatur
Trúarbrögð: efnishyggja, hjátrú, þjóðtrú, stjörnuspeki, segulkraftarkenning Mesmers
Trúarleg tákn: stjörnumerkin, kross á hvolfi, davíðstjarnan, galdratákn
Trúarleg embætti: töframaður, norn
Trúarlegt atferli og siðir: signun, bæn, spálestur, lófalestur, leggja álög, selja sálu sína, galdrar, krossmark á hvolfi á vegg, sálgæsla, sálmasöngur, spenna greipar
Trúarleg reynsla: lækning sjúkra, kraftaverk, trú