Kvikmyndir

Antoine et Colette

Leikstjórn: François Truffaut
Handrit: François Truffaut
Leikarar: Jean-Pierre Léaud, Marie-France Pisier, Rosy Varte og François Darbon
Upprunaland: Frakkland
Ár: 1962
Lengd: 29mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Átján ára gamall verður Antoine Doinel ástfanginn af hinni tvítugu Colette og reynir allt hvað hann getur að vinna hug hennar.

Almennt um myndina:
Franska stuttmyndin Antoine et Colette var upphaflega fyrsti hlutinn af fimm í kvikmyndinni L’amour à vingt ans (Shintarô Ishihara, Marcel Ophüls, Renzo Rossellini, François Truffaut og Andrzej Wajda: 1962), sem fjallar um ástina í lífi nokkurra tvítugra einstaklinga víða um heim, en var síðar gefin út sem sjálfstæð mynd á myndbandi í Bretlandi og DVD í Bandaríkjunum. Stuttmyndin er í raun sjálfstætt framhald af einni þekktustu kvikmynd frönsku nýbylgjunnar, Les quatre cents coups (François Truffaut: 1959), sem almennt er sögð hafa verið sótt í æsku leikstjórans sjálfs, en hann átti eftir að gera þrjár kvikmyndir til viðbótar í fullri lengd um sömu sögupersónuna, piltinn Antoine Doinel sem Jean-Pierre Léaud lék í öllum tilfellum. Framhaldsmyndirnar eru Baisers volés (1968), Domicile conjugal (1970) og L’amour en fuite (1979) en sú síðasta þykir þeirra síst.

Nýbylgjan svo nefnda í Frakklandi fór að mörgu leyti nýjar leiðir í efnisvali og framsetningu kvikmyndarinnar. Eins og ítölsku raunsæismyndirnar eftir síðari heimsstyrjöldina sýndu frönsku nýbylgjumyndirnar oftast frá daglegu lífi fólks á götum úti en ekki inni á lokuðu sviði kvikmyndaveranna. Kvikmyndagerðarmennirnar voru ungt fólk sem var ófeimið við nýstárlegar tilraunir enda varð ásýnd myndanna og persónusköpunin oftar en ekki gjörólík þeim myndum sem komu frá stóru kvikmyndaverunum, einkum í Bandaríkjunum. Stuttmyndin Antoine et Colette er gott dæmi um frönsku nýbylgjuna en hún gerist úti á götum Parísar og fjallar um tilfinningaflækjur ungs manns með raunsæjum hætti.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
François Truffaut elskaði konur, umfram allt þó franskar konur. Það er ljóst af myndum hans, sem lang flestar fjalla um taumlausa dýrkun franskra karlmanna á konum, fjarlægum, óútreiknanlegum og nær óskiljanlegum þokkadísum. Stuttmyndin Antoine et Colette er þar engin undantekning. Antoine dýrkar Colette og reynir allt til þess að vinna hug hennar, en hún sýnir honum lengst af lítinn áhuga, umgengst hann þó aðeins um stund og niðurlægir hann loks frammi fyrir foreldrum sínum, sem höfðu margsinnis boðið honum í heimsókn.

Áður en til þess kemur brestur Antoine þolinmæðin og skammar Colette fyrir að draga sig á tálar án þess að endurgjalda ást hans en hún lætur sér nægja að segja honum að hann sé boðinn í mat heima hjá henni. Þegar Antoine mætir svo heim til Colette tekur hún á móti honum með epli í munninum, en á boðstólnum er eplaréttur. Hér er augljóslega verið að vísa til syndafallssögunnar þar sem Eva át af ávexti skilningstrésins og gaf manni sínum síðan bita þrátt fyrir að þeim hefði báðum verið bannað það. Enda þótt ávöxturinn sé ekki nefndur á nafn í þessum biblíutexta hefur í seinni tíð tíðkast að tala um hann sem epli, ekki síst í myndlist, bókmenntum og nú síðast kvikmyndum. Þessi tenging við syndafallssöguna er loks áréttuð í texta lokalags kvikmyndarinnar, en þar er talað um æsku heimsins, sem taki sér bita af lífinu, sem væri það stórt epli, en í kjölfarið verði sorgin og hverfulleikinn óhjákvæmilegur fylgifiskur hamingjunnar.

Þau verða ástfangin
um allan heiminn!
Öll æska heimsins
bítur í lífið
sem væri það stórt epli!

Fyrsti kossinn! Svo kemur sorgin!
Taktu við hjarta mínu! Gefðu mér hönd þína!
Allt fer það illa! Allt fer það vel!

Æskan er svo hverful
Þegar þau halda tvö og tvö saman sína leið
syngjandi niður strætið.
Svona er að vera tvítugur og ástfanginn!

Hér er í raun um að ræða afskaplega hefðbundna túlkun á syndafallssögunni þar sem ávöxturinn er tengdur ástinni og kynhvötinni, en Colette er hin dæmigerða Eva, sjálfstæð, eigingjörn og ónærgætin.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 3:6
Persónur úr trúarritum: Jóhanna af Örk
Guðfræðistef: illskan, manneðlið, von
Siðfræðistef: ást, vinátta, höfnun, niðurlæging
Trúarleg tákn: epli