Leikstjórn: Giorgio Mariuzzo [undir nafninu George McRoots]
Handrit: Giorgio Mariuzzo og Antonio Raccioppi
Leikarar: Al Cliver, Clara Hopf [undir nafninu Yara Kewa], Corrado Olmi, Ely Galleani, Marie-France Boyer, Federico Boido [undir nafninu Rick Boyd], Stefano Oppedisano [undir nafninu Roque Oppedisano], Venantino Venantini, Frank Warner, Nadir Brown og Eugen Bertil
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1976
Lengd: 86mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Bandarísk riddaraliðssveit stráfellir hóp Apacheindíána fyrir að yfirgefa verndarsvæði sitt en verður að hörfa undan gagnárás og skilja eftir meðvitundarlausan hermann. Þegar hermaðurinn kemst til meðvitundar, finnur hann þar indíánastúlku, sem komist hafði lífs af, og neyðast þau til að snúa bökum saman gegn nokkrum vægðarlausum bófum, sem leið eiga um svæðið.
Almennt um myndina:
Eins og í bandarísku vestrunum voru indíánar í spaghettí-vestrunum lengst af stórhættulegir villimenn sem áttu fátt betra skilið en að vera skotnir. Þannig eru indíánar t.d. sagðir villimenn upp til hópa í spaghettí-vestranum Ringo and His Golden Pistol (Sergio Corbucci: 1966) og þeir strádrepnir. Á áttunda áratugnum hafði afstaðan til indíána hins vegar snarbatnað og sýndu kvikmyndir þá orðið í mun jákvæðara ljósi. Málstaður indíána var t.d. tekinn upp í bandarísku vestrunum Soldier Blue (Ralph Nelson: 1970) og Little Big Man (Arthur Penn: 1970) og fjöldamorðin á þeim þar gagnrýnd harðlega.
Spaghettí-vestrinn Apache Woman er að mörgu leyti undir áhrifum frá þessum tveim bandarísku vestrum og er samúðin öll með indíánunum, sem að öllu jöfnu er friðsemdarfólk er neyðist til að verja sig fyrir morðóðum hvítum kynþáttahöturum. Aðalsöguhetja myndarinnar er hermaður sem tekur þátt í fjöldamorðunum í upphafi en missir meðvitund svo til strax í átökunum. Afstaða hans til indíánanna breytist síðan smám saman eftir því sem hann kynnist apachestúlkunni betur og verður hann að lokum ástfanginn af henni. Þau eiga sér hins vegar enga framtíð saman og eru málalokin eins bölsýn eins og hugsast getur, nokkuð sem búast má við í öllum spaghettí-vestrum.
Þetta er áhugaverð kvikmynd sem er vel þess virði að sjá. Helsti galli hennar er hins vegar ansi langdreginn millikafli og einhæf gítar- og banjótónlist sem erfitt getur reynst að umbera.
Leikstjórinn Giorgio Mariuzzo gerði sárafáar kvikmyndir á ferli sínum en skrifaði þeim mun fleiri kvikmyndahandrit, t.d. fyrir nokkrar af myndum Lucios Fulcis. Þar má nefnda The Smuggler (1980), The Beyond (1981), The House by the Cemetery (1981) og Ænigma (1987). Al Cliver sem leikur hermanninn átti sömuleiðis eftir að leika í fjölda mynda eftir Fulci, svo sem Zombie 2 (1979), The Black Cat (1981), The Beyond (1981), Rome 2072 A.D.: The New Gladiators (1983), Murder Rock Dancing Death (1984), Touch of Death (1988), Sodoma’s Ghost (1988), The House of Clocks (1989) og Demonia (1990). Loks má nefna hina fögru Ely Galleani í hlutverki dóttur predikarans en hún lék t.d. í myndunum Five Dolls for an August Moon (Mario Bava: 1970) og Redneck (Silvio Narizzano: 1972).
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hermaðurinn heldur strax í átt til næsta virkis og hefur indíánastúlkuna með í för en alls kyns misindismenn verða á vegi þeirra sem þau þurfa að takast á við. Meðal þeirra er biblíuelskur predikari, sem sest hefur að í yfirgefinni póststöð með fjölskyldu sína, en hermaðurinn og indíánastúlkan fá þar að borða þegar þau koma á staðinn.
Predikarinn dregur þó hermanninn afsíðis og lætur hann vita að vegleg fjárhæð hafi verið sett til höfuðs hverjum þeim indíána sem vogar sér út fyrir verndarsvæðið og vill hann fá greitt fyrir indíánastúlkuna. Hann segir hvergi vera minnst á indíána í Biblíunni enda líti Drottinn á þá alla sem skynlausar skepnur og villimenn. Indíánakonurnar séu t.d. allar hálfnaktar til þess eins að táldraga karlmenn. Hermaðurinn svarar predikaranum hins vegar kuldarlega að hann skuli ekki reyna að réttlæta þetta með Biblíunni því að það sé alveg ljóst að það séu peningarnir sem hann ágirnist.
Á sama tíma reynir dóttir predikarans að handsama indíánastúlkuna með aðstoð bræðra sinna en er skotin af hermanninum sem nær að flýja með vinkonu sína á hestbaki. Eftir stendur predikarinn sem formælir þeim báðum með biblíulegu orðfæri í anda King James þýðingarinnar: „May God strike you down!“ (Sbr. t.d. Job 34:26, Sl 110:5.) Í raun gengur bölvunin eftir enda þótt ekki sé þar með sagt að Drottinn eigi þar einhvern hlut að máli.
Predikarinn er holdgervingur hræsninnar, peningagráðugur og kærleikssnauður. Hann segir að Biblían banni mönnum að fremja morð en gerist samt sjálfur sekur um það. (2M 20:13, 5M 5:17.) Og þegar hann vitnar til Biblíunnar er það einatt til að réttlæta vafasaman málstað sinn og gjörðir, t.d. þegar hann segir: „Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.“ (Jes. 41:10.)
Spaghettí-vestra sérfræðingurinn Antonio Bruschini heldur því fram í bókinni Western All’Italiana: The Wild, the Sadist and the Outsider að predikarinn sé mormóni, en ekkert kemur fram í myndinni, sem styður það. Predikarinn vitnar aldrei í sérritningar mormóna á borð við Mormónsbók og gerir ekkert sem átt gæti við um þá. Í ofan á lag er það mormónum mikið hjartans mál að sýna fram á að vitnað sé til indíána í Biblíunni (t.d. Jh 10:16) auk þess sem Mormónsbók varðar þá að stórum hluta. Enginn mormóni myndi því halda því fram sem predikarinn segir í myndinni.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 2M 20:13, 5M 5:17, SL 37:3, Jes 41:10
Hliðstæður við texta trúarrits: Job 34:26, Sl 110:5
Guðfræðistef: guðhræðsla, trúleysi, traust
Siðfræðistef: kynþáttahatur, manndráp, þjófnaður, vændi, manndráp, nauðgun, nekt, siðferði, dauðarefsing, hefnd, liðhlaup, hræsni
Trúarleg tákn: kross á leiði
Trúarlegt atferli og siðir: borðbæn, biblíulestur, bölvun