Trú eða vissa – Sjöunda innsiglið
Í Opinberunarbók Jóhannesar stendur skrifað: „Þegar lambið lauk upp sjöunda innsiglinu, varð þögn á himni hér um bil hálfa stund.“ (Opb 8.1-2) Opinberunarbók Jóhannesar myndar ákveðinn ramma utan um mynd Bergmans Sjöunda innsiglið. Í upphafi myndarinnar er lesið úr fyrsta versi áttunda kafla Opinberunarbókarinnar þar sem greint er frá því þegar sjöunda innsiglið er rofið. Þegar innsiglið er brotið þá verður þögn. Á sama hátt verður algjör þögn í mynd Bergmans þegar Dauðinn birtist í gervi náhvíts karlmanns sem er klæddur eins og munkur. Alger þögn ríkir í sálum margra, þessa þögn upplifir aðalpersóna myndarinnar, riddarinn Antóníus Block í sálu sinni. Hann er staddur í myrku djúpi og ákallar Drottinn: ,,Heyr þú raust mína.” Antóníus á erfitt með að lifa í trú og vill í staðinn lifa í vissu. Hann vill fá staðfestingu!! Staðfestingu á tilvist Guðs. Ef hann ekki fær staðfestingu eða þekkingu á Guði, vill hann losna við Guð og trúna á hann úr hjarta sínu. Antóníus telur að ef ekkert bíði mannsins hinu megin við móðuna miklu þá sé lífið tilgangslaust. Dauðinn holdi klæddur …