Leikstjórn: Gabriel Axel
Handrit: Gabriel Axel og Isak Dinesen, byggt á sögu eftir Karen Blixen
Leikarar: Stéphane Audran, Birgitte Federspiel, Bodil Kjer, Jarl Kulle, Jean-Philippe Lafont, Bibi Andersson, Ghita Nørby, Asta Esper Hagen Andersen, Thomas Antoni, Gert Bastian, Viggo Bentzon, Vibeke Hastrup, Therese Hojgaard Christensen og Pouel Kern
Upprunaland: Danmörk
Ár: 1987
Lengd: 104mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Myndin fjallar um konu sem flúði frá París í kjölfar uppreisnar þar árið 1870 til afskekkts þorps á Jótlandi. Þar bjó fámennur lútherskur söfnuður sem afneitaði öllum veraldlegum munaði og hafði um margt tekið á sig svipmót sértrúarsafnaðar. Tvær piparmeyjar, Filippa og Martina, dætur hins látna sóknarprests, sem nánast hefur verið tekinn í dýrlingatölu af sóknarbörnum sínum, hafa fetað í fótspor föður síns og halda söfnuðinum saman og lifa fyrir þjónustuna við hann, eyða hverri stund og næstum öllum sínum litlu vaxtatekjum í þágu góðra málefna. Hittist söfnuðurinn, sem samanstendur af aldurhnignu fólki, vikulega á heimili þeirra systra sem leitast við að viðhalda þeim trúarlegu hefðum sem faðir þeirra hafði byrjað á og heiðra þanning minningu hans.
Meginefni myndarinnar er kvöldmáltíð sem Babette efnir til eftir að hafa starfað kauplaust sem ráðskona hjá systrunum í fjórtán ár. Hún hafði unnið mikinn happadrættisvinning, 10 þúsund franka, og notaði alla þá upphæð til að halda mikla máltíð fyrir safnðarfólkið er hundrað ár voru liðin frá fæðingu leiðtoga safnaðarins, föður systranna tveggja. Það er í máltíðinni sem hinir trúarlegu drættir birtast einkum.
Almennt um myndina:
Kvikmynd danska leikstjórans Gabriels Axels Babettes Gæstebud hlaut Óskarsverðlaunin sem besta erlenda kvikmyndin 1987. Hér er enda á ferðinni stórfenglegt trúarlegt listaverk sem er mjög girnilegt til skoðunar fyrir guðfræðinga. Í umræðunni um kristsgervinga í kvikmyndum hlýtur hana jafnan að bera á góma. Myndin hefur margsinnis verið valin besta myndin í kosningum félaga Deus ex cinema um bestu myndina sem sýnd hefur verið innan félagsins.
Áður en vikið verður að hinum trúarlegu dráttum myndarinnar skal gerð aðeins nánari grein fyrir söguþræði myndarinnar, sem felur í sér allnákvæma endursögn samnefndrar skáldsögu eftir Isak Dinesen (Karen Blixen).
Söfnuður þessi afneitaði þessa heims lystisemdum. Jörðin og allt, sem henni heyrði til var í augum þessa fólks tálsýn ein og hin Nýja Jerúsalem var það sem söfnuðurinn beið eftir og þráði. Eftir því sem árin liðu hafði hins vegar missætti og óeining í vaxandi mæli gert vart við sig innan hins fámenna safnaðar.
Fábrotið og tilbreytingalaust líf þeirra systra breytist haustkvöld eitt árið 1871 þegar frönsk kona að nafni Babette knýr dyra hjá þeim. Var hún á flótta frá borgarastríði því sem geisað hafði á götum Parísar, en þar hafði hún misst bæði eiginmann sinn og son.
Báðar höfðu þær Filippa og Martina á unga aldri verið eftirsóttar af karlmönnum. En biðlunum var jafnan vísað á bug af föður þeirra, sem sagði að dæturnar væru hans hægri og vinstri. Báðar höfðu þær einnig hafnað gylliboðum álitlegra útlendra biðla og í þess stað kosið að dvelja áfram í húsi föður síns. Þessir tveir biðlar voru franski ópersöngvarinn Archille Papin og ungur sænskur liðsforingi að nafni Lorens Löwenhielm.
Báðir áttu þeir Papin Lövenhielm eftir að koma meira við sögu í myndinni, beint og óbeint. Papin með því að senda Babette til þeirra og Lövenhielm með því að koma óvænt til veislunnar sem segja má að sé í raun eini umtalsverði atburðurinn í þeirri frásögn sem myndin byggir á.
Eftir nokkurt hik og eftir að hafa lesið meðmælabréfið frá Archille Papin láta systurnar tilleiðast að ráða dularfullu konuna með myrku fortíðina sem eldabusku og húshjálp þegar hún örvingluð hefur lýst því yfir að hún muni fús að starfa kauplaust, aðeins ef hún fái húsaskjól.
Reynist Babette þeim systrum í alla staði mjög vel og hinn fábrotni matur sem þær hafa jafnan á borðum, soðinn fiskur og brauðsúpa, bragðast betur en áður, en systurnar halda áfram að þjóna söfnuðinum og halda þannig merki síns látna föður á lofti. Kona þessi sem komið hafði hrakin og hrjáð varð brátt „virt og vel metið hjú í útliti og öllum háttum“. Ekki tókst henni að læra tungu síns nýja lands með öllu óaðfinnanlega en nægilega vel til að prútta við kaupmennina í bænum og ná fram mjög hagstæðum kjörum, bæði í fjörunni og á torginu.
Þar kemur að Babette fær óvænta umbun eftir að hafa unnið kauplaust í fjórtán ár. Berst henni skyndilega tilkynning um að tíu þúsund franka happdrættisvinningur hafi komið á miða sem hún átti í París. Systurnar og þorpsbúar allir vænta þess að Babette noti tækifærið, pakki saman föggum sínum og yfirgefi þennan dapurlega afskekkta stað og snúi aftur til Parísar. Hún biður að vísu um stutt leyfi. En leyfið notar hún til þess panta inn matvörur frá París til að geta haldið upp á hundrað ára afmæli sóknarprestsins á veglegan hátt með með því að framreiða franskan miðdegisverð. Dætur prestsins höfðu vissulega ætlað að halda daginn hátíðlegan með því að bjóða söfnuðinum heim en höfðu ekki annað í huga en mjög fábrotna máltíð og kaffisopa. Þeim var ekkert um hugmynd Babette gefið og allra síst að hún færi að greiða matinn úr eigin vasa. En þar sem hún hafði aldrei beðið þær neins gátu þær ekki neitað að verða við þessari bón hennar sem hún bar svo ákaft og einlæglega fram við þær.
Vörurnar skiluðu sér frá París og kenndi þar margra grasa, fullar börur af vínflöskum, risastór skjaldbaka, lifandi lynghænsn og ýmislegt annað torkennilegt.
Hinn íhaldssami söfnuður kvíðir máltíðinni, óttast að verið sé að nota hús prestsdætranna fyrir „nornaveiðar“ og ber ugg í brjósti yfir því að „vita ekki einu sinni hvað við fáum að borða.“ Fólkið vill þó ekki særa tilfinningar prestsdætranna. Gerir það hins vegar með sér samkomulag um að minnast ekki einu orði á mat og drykk undir borðhaldinu og haga sér eins og þau hafi ekki einu sinni bragðskyn.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Allt táknmál myndarinnar er trúarlegs eðlis og hún er alveg óvenjulega girnileg til skoðunar fyrir áhugamenn um trúarleg stef í kvikmyndum.
Þegar boð kemur á síðustu stundu um að óvæntur gestur verði við borðhaldið hefur það atriði strax mjög mikilvæga trúarlega skírskotun. Hér var um að ræða Löwenhielm hershöfðingi, sem verið hafði í heimsókn hjá gamalli frænku sinni í sókninni. Hann veit ekkert um samkomulag hinna gestanna. Nærvera hans þýðir að þátttakendurnir í máltíðinni verða tólf í stað ellefu. Óneitanlega skapar talan tólf hugrenningatengsl við hina síðustu kvöldmáltíð og ljóst má vera að þar er ekki um neina tilviljun að ræða. Verður vikið nánar að því í kaflanum hér að aftan.
Undir borðum reynir Löwenhielm hershöfðingi stöðugt að brydda upp á umræðum um matinn. Hástemmdum athugasemdum hans um hinn undursamlega veislumat er svarað út í hött, gjarnan með setningum eins og: „Stormurinn er genginn niður“ eða „Ég er viss um að það muni snjóa allan daginn á morgun“. Hershöfðinginn segir einnig sögu af kynnum sínum af matargerðarlist í París og nefnir í því sambandi stórkostlegan veitingastað, Café Anglais, þar sem yfirkokkurinn hafi verið kona og meðal annars búið til réttinn Cailles en sarcophage (kornhænsn í kistu). Um hana hafi verið sagt að hún hafi „getað breytt máltíð í kærleikssamband“. Það er líka vert að veita því athygli að veitingastaðurinn skuli vera kenndur við engla.
Þar kemur að því að það lýkst greinilega upp fyrir hershöfðingjanum hver standi á að bak við þetta borðhald, einmitt þegar rétturinn Cailles en sarcophage reynist vera meðal allra krásanna. Og svo fer líka um þessa máltíð að hún breytir andrúmsloftinni meðal gestanna þannig að þegar upp er staðið er orðið til kærleikssamband meðal þeirra. Halda þeir út í stjörnubjarta nóttina og tjá þar gleði sína og vináttu með því að stíga hringdans.
Það er alls ekki langsótt að sjá hliðstæðu við hina heilögu kvöldmáltíð í myndinni, og raunar á sú hliðstæða að liggja alveg í augum uppi fyrir hvern þann sem stendur föstum fótum í hinum kristna arfi.
Áður var minnst á að þátttakendurnir í máltíðinni eru tólf og er sú tala strax vísbending í þessa átt. Orð Babettu „allt er til reiðu“ eru og meðal fyrstu vísbendinganna um þessi tengsl (sbr. Mk 14:15). Máltíðin er haldin í minningu leiðtoga safnaðarins, hún er a.m.k. öðrum þræði minningarmáltíð. Meiru skiptir þó að þar eru til staðar bæði syndajátning og aflausn. Ánægjan yfir matnum og víninu verður þess valdandi að einn þátttakendanna játar gagnvart sessunaut sínum að hann hafi gert á hlut hans og hinn játar að það hafi verið gagnkvæmt og síðan fyrirgefa þeir hvor öðrum og menn taka að óska hver öðrum Guðs blessunar o.s.frv. Fyrirgefning og sættir ráða ríkjum í lok máltíðar. Gamla fólkið tekur að rifja upp orð prestsins sem þau eru að minnast og orða hans um að þau eigi að elska hvert annað (sbr. Jh 13:34). Hér var því um sannkallaða náðar- og kærleiksmáltíð að ræða.
Einn rétturinn í máltíðinni vísar tvímælalaust til lynghænsanna sem urðu á vegi Ísraelsmanna í eyðimörkinni, á leið þeirra úr ánauðinni til Egyptalands og til fyrirheitnalandsins (2M 16:13). Í samhengi þess texta er talað um brauðið sem Drottinn gaf þeim til fæðu. Hér á ég við réttinn Cailles en sarcophage, sem í íslenskri þýðingu Hjartar Pálssonar er nefnt „kornhæsn í kistu“. Hér má m.ö.o. greina exodus-stefið. Og raunar tengir einn gestanna óafvitandi með orðum sínum við þetta sama stef (exodus- eða landnámsstefið) er hann, þegar talið berst að vínberjunum á borðinu, hefur yfir eftirfarandi orð úr 4. Mósebók: „Þeir komu í Eskóldal og sniðu þar af vínviðargrein með einum vínberjaklasa og báru hann tveir á stöng á milli sín“ (4M 13:23). Samhengið sem þetta vers stendur í greinir frá því er Móse sendi menn inn í Kanaansland til að kanna það og komu til baka og greindu frá því að fyrirheitna landið flyti í mjólk og hunangi.
Þetta má leggja út á þann veg að í máltíðinni sé söfnuðurinn þegar á leið til fyrirheitna landsins, sem í þeirra tilfelli er hin himneska Jerúsalem og jafnvel að áhrifa hennar gæti þegar við máltíðina.
Það er einmitt þegar hershöfðinginn hefur bragað á réttinum Cailles en sarcophage sem það lýkst upp fyrir honum hver matreiðslumeistarinn frammi í eldhúsi hljóti að vera.
Því hefur líka verið haldið fram að hér hafi fagnaðarerindið leyst lögmálið af hólmi, að uppbygging myndarinnar samsvari byggingu hjálpræðissögunnar. Samkvæmt slíkri greiningu mætti segja að fyrri hluti myndarinnar samsvari Gamla testamentinu. (Um þetta atriði vil ég þó hafa þann fyrirvara að hæpið er í meira lagi að flokka allt Gamla testamentið sem lögmál). Líf safnaðarins einkennist þá af ströngum reglum um breytni og mataræði undir leiðsögn leiðtogans sem talað er um sem prest og spámann jöfnum höndum. Hér tekst Gabriel Axel að láta litina vinna með boðskapnum, hinir gráu og brúnu litir tjá vel meinlætalíf og heimshöfnun safnaðarins. (Ef Baugh á við að heimshöfnun sé einkenni á trúarlífinu eins og það birtist í Gamla testamentinu þá verð ég að taka fram að þar er ég honum alveg ósammála þó svo að ég geti að öðru leyti tekið undir greiningu hans og Stone á skiptingu myndarinnar í lögmál og fagnaðarerindi, í gamlan sáttmála og nýjan. Það er fjarri því að Gamla testamentið beini sjónum sínum fyrst og fremst að öðrum heimi, upprisuhugmyndir koma t.d. aðeins fyrir í allra yngstu textum Gamla testamentisins, svo sem í Daníelsbók 12:2-3.)
Babette flytur hins vegar með sér ljós og liti. Segja má að hún sé ljósið sem skín í myrkrinu (sbr. Jh 1:5). Með því að sýna Babette og umhverfi hennar í skærari litum tekst Gabriel Axel að skapa hugrenningatengsl áhorfenda við Krists. Ekkert fer á milli mála að Babette kemur með eitthvað nýtt inn í þetta lokaða trúarsamfélag á Jótlandi. Með hógværð sinni, samfara léttleika og glaðværð, vinnur hún fljótt hug og hjörtu fólksins. Hún gefur sig alla að þjónustunni og kryddar jafnt hinn fábreytna mat sem fólkinu er borinn sem og tilveru fólksins. En á þessu stigi myndarinnar er of fljótt að tala um Babette sem kristsgerving en þegar litið er til baka af sjónarhóli hins franska kvöldverðar sem hún efnir til má sjá að hér eru þegar til staðar vísbendingar um það sem koma skal.
Hlutverki Löwenhielms hershöfðingja má líkja við embætti prestsins. Hann leitast stöðugt við að opna augu hinna gestanna fyrir því hvað þeir eru raunverulega að borða og drekka og þar líkist hlutverk hans því hlutverki prests að túlka hin táknrænu atriði altarissakramentisins. Ræðan sem hann flytur undir borðum er sömuleiðis líkust prédikun prests. Sú ræða er römmuð inn af tilvitnunum í 85. sálm Saltarans: „Elska og trúfesti mætast, réttlæti og fögnuður (friður) kyssast“ (v. 11) og er þar vísað aftur til ræðu sem presturinn, faðir þeirra Martinu og Filippu, hafði haldið út af þessum orðum.
Eftir að hafa vitnað í ofannefnd orð úr Sl 85 hélt hershöfðinginn áfram. „Hann talaði hárri og skýrri röddu, sem orðin var langþjálfuð á æfingavelli hersins og í sölum hirðarinnar, og […] hægt og hátíðlega.“ Ennfremur sagði hann: „Maðurinn heldur í veikleika sínum og skammsýni, að hann verði að velja og hafna í lífinu og skelfist áhættuna sem því fylgir. En skelfist ekki því að val okkar skiptir engu. Sá tími kemur að augu ykkar opnast og okkur verður ljóst að náðin setur engin skilyrði. Við þurfum aðeins að bíða hennar í trausti og taka við henni í þakklæti. Og sjá! Allt sem við höfum valið hefur okkur verið gefið og allt sem við höfum hafnað það hefur einnig verið gefið. Já, við fáum jafnvel til baka það sem við höfum hafnað því miskunn og sannleikur mætast, réttlæti og friður kyssast.“
Hér er borðræða hershöfðingjans tvímælalaust eins og ræða prests. Hann hefur áður bent söfnuðinum á hvað þau eru að borða í raun og veru (Amonillado … alvöru froskasúpu … Blimis Demidoff … Veuve Cliquot 1860). Í ræðu sinni er hershöfðinginn vissulega að tala út frá eigin reynslu, út frá kynnum sínum af prestsdótturinni og söfnuðinum og að hvaða niðurstöðu hann hefur komist um sjálfan sig. En hann er líka að tala um trú og lífið almennt. Babette og hershöfðinginn hittast aldrei þar sem hún heldur sig allan tímann í eldhúsinu. Engu að síður verðum við að álykta að hann sé fulltrúi hennar við máltíðina því hann túlkar máltíðina fyrir þátttakendunum á svipaðan hátt og presturinn gerir í hinni heilögu kvöldmáltíð.
Það er vert að veita því athygli að á meðan á borðhaldinu stendur hljóma í þrígang fáein stef úr titillagi myndarinnar um hina himnesku Jerúsalem, sem söfnuðurinn batt alla sína von við frekar en jarðlífið auma. Með þessu tel ég að verið sé að koma þeim boðskap til skila að hin himneska Jerúsalem sé til staðar hér og nú á þann hátt að áhrifa hennar gæti þegar í og með þeirri listilegu máltíð sem Babette, listakonan á sviði matreiðslunnar, hafði búið söfnuðinum. Hér er því eskatalógísk vídd í myndinni. Hin himneska Jerúsalem og hinir hinstu tímar eru þegar að verki í lífi safnaðarins fyrir tilstilli Babette. Þar höfum við vísbendingu um ástæða sé til að kanna nánar hvort líta megi á hana sem kristsgerving í myndinni.
Babette sem kristsgervingurVera má að hugtakið kristsgervingur sé ofnotað. Að mínu mati fer oft betur á því að láta nægja að tala um „vísanir til Krists“ eins og Gunnar J. Gunnarsson lektor hefur bent á. En séu vísanirnar umtalsverðar og hliðstæðurnar við Krist afgerandi þá tel ég sjálfgefið að tala um kristsgerving, ekki síst ef greina megi hjálpræðissögulegt samhengi í uppbyggingu myndarinnar. Tel ég að raunar að leitun sé að kvikmynd þar sem skírskotanirnar eru jafn afgerandi og í þessari fallegu dönsku kvikmynd. Get ég heilshugar tekið undir með Brian P. Stone sem telur að í persónu Babette sjáum við einhvern augljósasta kristsgerving sem myndaður hefur verið. Er það ekki síst athyglisvert í ljósi þess að kristsgervingurinn er konaHér má minna á að tvö af þýðingarmestu eða þekktustu kraftaverkum Jesú snerust um fæðu og skapa þau óneitanlega hugrenningatengsl við máltíð Babettu. Hér á ég að sjálfsögðu annars vegar við frásögn Jóhannesarguðspjalls af brúðkaupina í Kana (Jh 2) þar sem Jesús breytti vatni í vín og hins vegar við ekki síður kunna frásögn guðspjallanna af því þegar Jesús mettaði fimm þúsund manns með fimm brauðum og tveimur fiskum. (Sjá Mt 14:13-21; Mk 6:30-44; Lk 9:10-17 og Jh 6:1-14. Brauðin og fiskarnir í mettunarfrásögnum guðspjallanna minna óneitanlega á brauðsúpuna og fiskana í kvikmyndinni.)
Babette fórnar öllu eigum sínum til að halda þessa máltíð, tíu þúsund franka happdættisvinningnum eyddi hún öllum til að gera máltíðina eins veglega og henni væri unnt. Fórn hennar hlýtur að leiða hugann að fórn Krists okkur mönnum til sáluhjálpar. Babette virðist ekki svo mikið sem hugleiða þann möguleika að yfirgefa þjónustuna og hefja nýtt líf annars staðar með aðstoð peninga sinna. Hér má tvímælalaust sjá hliðstæður við Krist sem lítillækkaði sig og tók á sig þjóns mynd (Fl 2:7). Sömuleiðis koma í huga orð Páls postula um að kærleikann sem leitar ekki síns eigin (1Kor 13:5).
Einnig má sjá kristsfræðilega vídd í þolgæði Babette framan af myndinni, eins og Baugh hefur bent á í vandaðri umfjöllun sinni um Babette sem kristsgerving. Hér er átt við það þolgæði sem þessi frægi matreiðslumeistara frá París sýnir árin fjórtán í þjónustu þeirra systra, hvernig hún í auðmýkt gerir sér að góðu hina fábrotnu matreiðslu þeirra með soðnum fiski og brauðsúpu. Hér má sjá hliðstæðu við huldu árin í lífi Jesú og við upphaf starfs hans.
Í fyrst og síðast er það í máltíðinni sjálfri sem við sjáum skyldleika Babette við Krist. Endurlausn á sér stað í söfnuðinum í máltíðinni, söfnuðurinn gjörbreytist. Í stað þeirrar sundrungar sem þar hafði ríkt verður til sannkallað kærleikssamfélag. Sannkölluð hvítasunnustemmning ríkir með gestanna sem blessa hvern annan og lofa Guð með orðinu: „Hallelújah.“ (Hebreska orðið „hallelújah“ merkir „Lofið Drottin.“)
Lok myndarinnar, eins konar eftirspil, þegar systurnar ganga inn í eldhúsið til að þakka Babette er mikilvægt. Þar hefur jafnvel verið bent á hliðstæðu við Emmausgöngu hins upprisna Jesú og samtal hans við lærisveinana og hvernig það laukst upp fyrir þeim hver hann var þegar hann braut brauðið. Hér má því beinlínis segja að upprisustef komi við sögu í lok myndarinnar. Babette afhjúpar sömuleiðis fyrir þeim systrum hver hún er í raun og veru, þ.e.a.s. að hún hafi eitt sinn fyrir þekktur matreiðslumeistari í París. Áhyggjum systranna yfir því að hún hafi eytt öllum peningunum í þessa máltíð mætir Babette með orðunum: „Listamaður er aldrei fátækur.“ Og þær svara: „Þetta er ekki endirinn, Babette, í paradís muntu verða sá stóri listamaður sem Guð hefur ætlað þér að vera. En hvað þú munt gleðja englana.“
Vissulega er hægt að njóta þessarar myndar án þess að íhuga svo mjög hinar kristsfræðilegu skírskotanir sem augljóslega eru í henni eða jafnvel án þess að láta sig varða um tengslin við hina heilögu kvöldmáltíð eða hreinlega án þess að gera sér nokkra grein fyrir skírskotunum í þá átt. En sá áhorfandi missir af miklu sem ekki gerir sér grein fyrir þessum tengslum. Hér höfum við því gott dæmi um að sá sem þekkir ekki vel hinn biblíulega boðskap eða hinn kristna trúararf hann er í raun og veru ólæs á kvikmynd sem þessa. Slíkur áhorfandi sér trúlega ekki annað í þessari mynd en enn eina neikvæða og drungalega mynd af lúthersku kirkjunni og það hvernig vegleg veisla getur mýkt hjörtu mannanna. Hann kann e.t.v. að líta á myndina sem lofgjörð til matargerðarlistarinnar. (Myndin af hinum afskekkta lútherska söfnuði á Jótlandi sem birtist í kvikmyndinni um kvöldmáltíð Babette virðist að ýmsu leyti koma heim og saman við þá mynd sem birtist af þessari kirkjudeild og þá einkum í skandinavískum myndum. Á þetta hefur verið bent í áhugaverðri norskri grein „Lutheranere ser på seg selv“. Þar heldur höfundurinn því fram að ef marka megi kvikmyndir þá geri gyðingar grín að sér en lútherskir menn fyrirlíti sjálfa sig. Þessi neikvæða mynd af kirkjunni kemur vel fram í hinni ágætu norsku kvikmynd Søndagsengler eftir Berit Nesheim og í því þessu sambandi hefur líka verið bent á kvikmyndina Mørkets øy eftir Trygve Allister Diensen.)
Táknmál myndarinnar byggist hins vegar allt á trúarlegum grunni og myndin verður allt önnur og áhugaverðari ljúkist sú staðreynd upp fyrir áhorfendum. Ekki nóg með það heldur fá jafnvel Kristur sjálfur og hin heilaga kvöldmáltíð nýja vídd í huga okkar eftir að við höfum íhugað þessa kvikmynd af sjónarhóli Biblíunnar og kristinnar trúarhefðar og þannig notið þess stórbrotna trúarlega listaverks sem kvikmyndin Babettes gæstebud tvímælalaust er.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 4M 13:23, Sl 85: 11, Jb 1:21, Pd 1:2 o.fl., Mt 6:9-13 (faðir vor), Jh 2, 13:34, 1Jh 1:7
Hliðstæður við texta trúarrits: 2M 16:13, Mt 14:13-21; Mk 6:30-44; Mk 14:15, Lk 9:10-17 og Jh 6:1-14
Persónur úr trúarritum: Englar, lærisveinar, maðurinn með ljáinn
Sögulegar persónur: Lúther, Melankton
Guðfræðistef: aflausn, dýrð, eilífð, eilíft líf, Guðs blessun, Guðs orð, Guðsríki, Guðs vilji, hjálpræði, kraftaverk, kærleikssamband, miskunn, náð, næsta líf, réttlæti, skammsýni, syndajátning, söfnuður, trúfesti, vegir Guðs, veikleiki, þjónusta við Drottin
Siðfræðistef: ást, borgarastyrjöld, fjandskapur, góðgerðarstarfsemi, happdrættisvinningur, hégómi, kærleikur, nornaveiðar, ‘púrítanskur’, rán, skammsýni, svik, þjónusta
Trúarbrögð: Kristni (lúthersk), lútherska-kirkjan í Danmörk
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Gröf, hin himneska Jerúsalem, himinn, kirkja, Paradís
Trúarleg tákn: heilög kvöldmáltíð, hempa, kirkjuklukkur, Kristslíkneski, kross, mynd af Jesú, róðukross, sálmabók
Trúarleg embætti: Prestur, spámaður
Trúarlegt atferli og siðir: Bæn, sálmasöngur
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: Jól, minningarhátíð um kirkjuleiðtoga
Trúarleg reynsla: Gleði, sættir