Kvikmyndir

Bacheha-Ye aseman

Leikstjórn: Majid Majidi
Handrit: Majid Majidi
Leikarar: Mohammad Amir Naji, Amir Farrokh Hashemian, Bahare Seddiqi, Nafise Jafar-Mohammadi, Fereshte Sarabandi, Kamal Mirkarimi, Behzad Rafi, Dariush Mokhtari, Mohammad-Hasan Hosseinian, Masume Dair, Kambiz Peykarnegar, Hasan Roohparvari og Abbas-Ali Roomandi
Upprunaland: Íran
Ár: 1997
Lengd: 88mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Myndin segir frá tveimur systkinunum, Zahra og Ali, sem alast upp í bláfátækri fjölskyldu. Dag einn sendir móðir þeirra Ali til að sækja skó systur sinnar úr viðgerð. Á leiðinni heim leggur Ali skóna frá sér í örstutta stund sem verður til þess að betlari stelur þeim. Ali verður miður sín og viss um að foreldrar hans verði reiðir og sárir þegar þeir komast að þessu, þar sem þeir hafa ekki efni á að kaupa nýja skó handa Zahra. Ali reynir að finna skóna, en þegar það tekst ekki dettur honum í hug að Zahra og hann geti samnýtt skóna hans, þar sem þau eru ekki í skólanum á sama tíma. Zahra samþykkir þetta og í nokkurn tíma tekst þeim að láta þetta ganga. Stundum er það þó mjög erfitt og síðar flækjast málin.

Almennt um myndina:
Ég mæli með því að foreldrar líti með börnum sínum á írönsku kvikmyndina Himnabörn (Bacheha-Ye aseman), eina bestu barna- og fjölskyldumynd sem ég hef séð. Myndin stendur alveg fyrir sínu sem fullorðinsmynd, en rétt að börn fái að njóta hennar líka. Himnabörn er frá Íran og kom út árið 1997.

Leikstjórinn, Majid Majidi, er fæddur inn í íranska miðstéttarfjölskyldu í Teheran árið 1959. Hann fékk ungur áhuga á leiklist og byrjaði að vinna með áhugaleikfélögum 14 ára gamall. Síðar fór hann í leiklistarskóla og útskrifaður sneri hann sér að kvikmyndaleik. Frumraun hans sem kvikmyndaleikstjóri var myndin “Baduk” sem hann leikstýrði og gerði handritið að árið 1992.

Himnabörn hefur fengið verðskuldaða athygli og hlotið ótal verðlaun og viðurkenningar. Hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna á sínum tíma, en laut í lægra haldi fyrir ítölsku myndinni Lífið er dásamlegt, La vita e bella.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Fegurð þessarar kvikmyndar liggur annars vegar í einfaldri en sterkri sögu um traust og ást milli systkina og hins vegar í umgjörð myndarinnar, frábærri myndatöku, fallegum litum og geislandi andlitum leikaranna ungu. Sagan er sögð frá sjónarhóli barnanna, sem gerir hana trúverðuga. Maður fær djúpa samúð með persónunum, gleðst með þeim þegar vel gengur og öfugt.

Nokkrar senur sýna stéttaskiptingu á einfaldan en áhrifaríkan hátt, t.d. þegar Zahra horfir á fætur bekkjarsystra sinna til að athuga hvort nokkur þeirra sé í svipuðum skóm og hún átti. Einnig má nefna gott atriði þegar Ali og faðir hans reyna að falast eftir aukavinnu við garðyrkju og þeir þurfa að bjóða frá hjálp sína gegnum dyrasíma.

Umfjöllunin birtist upphaflega á kvikmyndavef Sigríðar Pétursdóttur www.kvika.net en er hér endurbirt í aðlagaðri útgáfu.

Guðfræðistef: kærleikur
Siðfræðistef: systkinakærleikur, þjófnaður, stéttaskipting
Trúarbrögð: islam
Trúarleg tákn: slæða