Kvikmyndir

Bad Man’s River

Leikstjórn: Eugenio Martín [undir nafninu Gene Martin]
Handrit: Eugenio Martín [undir nafninu Gene Martin] og Philip Yordan
Leikarar: Lee Van Cleef, James Mason, Gina Lollobrigida, Eduardo Fajardo, Gianni Garko, José Manuel Martín, Simón Andreu, Jess Hahn, Diana Lorys og Per Barcley
Upprunaland: Ítalía, Spánn og Frakkland
Ár: 1972
Lengd: 86mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0068246

Ágrip af söguþræði:
Í miðri borgarastyrjöldinni í Mexíkó ákveður bandaríski bófaforinginn Roy King að slást í lið með Alicu, fyrrverandi eiginkonu sinni, og Montero, eiginmanni hennar, til þess að ræna $1.000.000 frá stjórnvöldum. Áður en það tekst eru þau hins vegar handsömuð af uppreisnarmönnunum og lenda með þeim í blóðugu umsátri stjórnarhersins inni í afskektu þorpi. Að lokum heitir byltingarleiðtoginn King og mönnum hans frelsi, geti þeir þaggað niður í fallbyssum stjórnarhersins og bjargað þeim þaðan burt, en það tilboð þiggja þeir umsvifalaust.

Almennt um myndina:
Alveg ótrúlega lélegur, heimskulegur og leiðinlegur spaghettí-vestri sem allir ættu að forðast. Meira að segja tónlistin er eins slæm og hugsast getur. Það er dapurlegt að sjá öndvegisleikarana James Mason, Lee Van Cleef og Ginu Lollobrigida taka þátt í þessum ósköpum.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í kvikmyndinni kemur prestur aðeins við sögu en um leið og hann ætlar að segja eitthvað trúarlegt er skrúfað niður í talinu og skelfilegri amerískri sveitartónlist skellt á í staðinn. Síðar í myndinni bendir Montero félögum sínum og uppreisnarmönnunum á að frá þorpskirkjunni liggi leynigöng, sem nái alla leið niður að næstu á, en engum tekst samt að sleppa þar í gegn þar sem stjórnarherinn hefur einnig komið sér þar fyrir. Sennilega væri það oftúlkun að lesa einhvern sérstakan boðskap inn í það atriði.

Siðfræðistef: manndráp, samviskubit, svik, þjófnaður, aftaka, heimska
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, trúboðsstöð
Trúarleg tákn: kross, Maríumynd, altari
Trúarlegt atferli og siðir: hjónavígsla, signing