Von í þjáningu

Út er komin hjá Guðfræðistofnun Háskóla Íslands bókin Von í þjáningu: Trúarstef í nokkrum helfararmyndum eftir dr. Gunnlaug A. Jónsson prófessor. Hér er um að ræða fyrsta bindið í sérstakri ritröð um kvikmyndir sem fjalla um helför Gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni.

Í bókinni er fjallað um þrettán helfararmyndir frá ýmsum tímum og ýmsum löndum. Elsta myndin er frá árinu 1960 og sú nýjasta frá árinu 2002. Þar er fjallað um mjög þekktar kvikmyndir eins og Píanóleikarann (Roman Polanski: 2002) en einnig um myndir sem sennilega fáir kannast nú við eins og Kapó: Í kvennafangabúðum nasista (Gillo Pontecorvo: 1960). Báðar eru þessar myndir hins vegar mikil en átakanleg listaverk.

Markmiðið með þessari rannsókn, sem birtast mun í nokkrum bindum, er að beina kastljósinu að trúarlegum stefjum í helfararmyndum og huga þar sérstaklega að samspili vonar og þjáningar. Helförin, einhver mesti glæpur mannkynssögunnar, er svo átakanleg og ósegjanleg í senn að það er hreint ekki auðvelt að ætla sér að gera henni skil í kvikmyndum.

Kvikmyndirnar sem hér er fjallað um sýna á hversu fjölbreytilegan hátt kvikmyndagerðarmenn hafa nálgast þetta vandmeðfarna viðfangsefni. Í flestum þeirra gegnir stef vonarinnar stóru hlutverki andspænis þjáningu og örvæntingu hinna hrjáðu Gyðinga.

Bókin fæst m.a. á skrifstofu Guðfræðideildar Háskóla Íslands.