Kvikmyndir

Bagdad Cafe

Leikstjórn: Percy Adlon
Handrit: Eleonore Adlon, Percy Adlon og Christopher Doherty
Leikarar: Marianne Sägebrecht, CCH Pounder, Jack Palance, Christine Kaufmann og Monica Calhoun
Upprunaland: Þýskaland
Ár: 1988
Lengd: 92mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0095801#writers
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Þessi mynd er þekkt undir nafninu Bagdad Café, en hét upprunalega Out of Rosenheim. Eiginmaður Jasminar skilur hana eftir í miðri eyðimörk í Bandaríkjunum. Jasmin, sem er þýsk, rambar inn á niðurnýtt hótel í eyðimörkinni. Þar kynnist hún eigenda hótelsins, Bröndu og fjölskyldu hennar. Brenda nær ekki endum saman og fjölskyldan er að leysast upp. En það er eitthvað mystískt og dásamlegt við Jasmin, því nærvera hennar breytir sorg í gleði og auðn í paradís.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Bagdad Cafe var sýnd í Regnboganum fyrir um 13 árum við mikinn fögnuð áhorfanda og gagnrýnanda. Eitt það dásamlegasta við myndina er kvikmyndatakan en hún er svo flott að manni finnst kvikmyndatökumaðurinn vera að mála málverk með linsunni.

Það hefur verið bent á að Jasmin er kristgervingur í myndinni, en það er ekki fjarri lagi að lesa myndina þannig. Það er strax eitthvað dularfullt við komu hennar. Hún kemur úr auðninni inn í líf hrjáðs samfélags. Á leiðinni fær hún sýn, en síðar meir sér hún málverk af sýninni inn á hótelherberginu sínu. Kaffikannan hennar virðist einnig vera n.k. tákn, en hún skilar sér á hótelið áður en Jasmin mætir á staðinn. Með nærveru sinni göldrum og kærleik breytir Jasmin síðan þessu hrjáða samfélagi.

Málarinn á staðnum málar um tug mynda af Jasmin en allar eiga þær það sameiginlegt að Jasmin er með geislabaug. Á einni myndinni er hún meira að segja með áþekka fingrastellingu og Kristur er með á íkonum.

Rétt eins og þegar Kristur var tekinn frá mönnunum, þegar hann var krossfestur, er Jasmin tekin frá litla samfélaginu þegar dvalarleyfi hennar er útrunnið. En samkvæmt kristinni kenningu reis Kristur aftur upp og dvaldi á meðal mannanna. E.t.v. má líkja endurkomu Jasminar við upprisu en hún snýr aftur í hvítum kirtli sem minnir á skírnarkirtil. Við það tekur samfélagið gleiði sína á ný.

Bagdad Cafe er því lítil og heillandi saga um mátt kærleikans. Það má einnig skoða myndina sem útleggingu á starfi Krists, en sem slík er hún afar áhugaverð. Í fyrsta lagi er kristsgervingurinn kona og í öðru lagi er hjálpræðisverkið unnið með hefðbundnum heimils- og uppeldisstörfum. Jasmin breytir tilvist alla með því að taka til og sjá um börnin, að viðbættum göldrum.

Guðfræðistef: kristgervingur, kærleikur
Trúarleg tákn: geislabaugur
Trúarleg reynsla: sýn