Kvikmyndir

Bandits!

Leikstjórn: Sergio Corbucci
Handrit: Sergio Corbucci, Sabatino Ciuffini, Mario Amendola, Adriano Bolzoni og Jose Maria Forque
Leikarar: Tomas Milian, Susan George, Telly Savalas, Eduardo Fajardo, Rosanna Yanni, Laura Betti, Franco Giacobini, Herbert Fux, Werner Pochath og Álvaro de Luna
Upprunaland: Ítalía, Spánn og Þýzkaland
Ár: 1972
Lengd: 93mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0068702
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Jed Trigado er óheflaður mexíkanskur bófi sem rænir frá hinum ríku fyrir hina fátæku og drekkur mjólkina beint af spenum kúnna. Honum til mikillar arðmæðu verður stúlkan Sonny yfir sig ástfangin af honum og eltir hann hvert sem hann fer eftir að hafa bjargað honum úr klóm lögreglumannsins Franciscusar. Smám saman tekur hann stúlkuna þó í sátt og fara þau rænandi og ruplandi um allt villta vestrið með Franciscus og aðstoðarmenn hans á hælunum. Engu máli skiptir hversu illa Jed kemur fram við Sonny, hún fyrirgefur honum allt þar til önnur kona kemur til sögunnar, en þá verður fjandinn laus.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Að mörgu leyti viðunandi spaghettí-vestri enda þótt allir einlægir femínistar muni örugglega hata hann eins og pestina. Önnur eins karlremba hefur líka verið fáséð á hvíta tjaldinu eins og sú sem birtist í þessari kvikmynd.

Tomas Milian í hlutverki Jeds Trigado vandar Sonny vinkonu sinni lengst af ekki kveðjurnar og segir blákalt að konan eigi að vera eins og hundur og elta karlinn eins og eigandann. Við annað tækifæri segir hann: „Þú ert verri en dýr! Þú ert kona!“ Engu að síður á hann sér draumakonu, en hún þarf að geta gefið af sér næga brjóstamjólk til að geta fætt allt mannkynið svo að það losni undan sífelldum áhyggjum af því að geta ekki aflað sér nægrar fæðu.

Þrátt fyrir allt elskar Sonny Jed og fær hann til að kvænast sér, en um leið og presturinn hefur lokið vígslunni stela þau öllu steini léttara úr kirkjunni. Þar með er erjum þeirra engan veginn lokið og er það helsti veikleiki myndarinnar hversu mikill tími fer í þær. Tomas Milian er þó fínn sem enn einn mexíkanski bófinn og Susan George er afbragðs leikkona sem hefði alveg mátt leika í fleiri betri kvikmyndum, en hún lék m.a. aðalhlutverkið í meistaraverkinu Straw Dogs sem Sam Peckinpah gerði árið áður. Svo stendur Telly Savalas í hlutverki Franciscusar auðvitað alltaf fyrir sínu að Eduardo Fajardo ógleymdum sem landeigandinn Garcia. Tónlist Ennios Morricone er sömuleiðis fín, ekki síst stefið þar sem nafn Sonnyar kemur við sögu á sérstæðan máta, sem honum einum er lagið.

Í hjónavígslu Sonnyar og Jeds vitnar presturinn í Matt. 19:6 þar sem segir: „Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ Svo virðist sem boðskapur kvikmyndarinnar árétti þessi orð því að það fer heldur betur illa fyrir Sonny og Jed þegar þau ákveða að skilja. Að biblíutilvitnuninni undanskilinni eru helstu trúarvísanirnar signing og bænir, auk þess sem Hjálpræðisherinn er nefndur á nafn af vændiskonu, sem sver af sér öll tengsl við hann.

Loks má geta þess að í einu atriðinu hámar Tomas Milian í sig spaghettíi í góða stund áður en hann segir af mikilli innlifun, að sá hafi verið snillingur, sem hafi fundið það upp. Er þetta nokkuð annað en sjálfshól?

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 19:6
Persónur úr trúarritum: María mey
Guðfræðistef: frelsi
Siðfræðistef: manndráp, ofbeldi, nauðgun, kvennakúgun, vændi
Trúarbrögð: Rómversk-kaþólska kirkjan, Hjálpræðisherinn
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, hjónavígsla, signing