Leikstjórn: Joel Schumacher
Handrit: Akiva Goldsman, byggt á sögupersónunni Batman eftir Bob Kane
Leikarar: George Clooney, Chris O’Donnell, Arnold Schwarzenegger, Uma Thurman, Alicia Silverstone, Michael Gough, Pat Hingle, John Glover, Elle Macpherson, Vivica A. Fox, Vendela Kirsebom, Elizabeth Sanders og Jeep Swenson
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1997
Lengd: 120mín.
Hlutföll: 1.85:1
Ágrip af söguþræði:
Félagarnir Batman og Robin hafa fengið leðurblökustúlkuna Batgirl til liðs við sig. Ekki veitir af þeim liðsauka þar sem illmennin Frosti og eitraða Ivy ætla að tortíma öllu mannkyninu.
Almennt um myndina:
Batman and Robin, sem myndi líklega útleggjast sem Bíbí og blaka á Íslensku, er fjórða kvikmyndin í myndaröðinni um ofurhetjuna Batman og sú alversta af þeim. Leitstjóranum Joel Schumacher tókst gjörsamlega að jarða Batman með þessum hroðalega óskapnaði, enda trónir myndin á mörgum botnlistum yfir lélegustu myndir sögunnar.
Til að byrja með er handritið svo handónýtt að maður er gáttaður yfir því að einhver skuli yfirleitt hafa lagt nafn sitt við myndina. Handritið minnir einna helst á gamlar B-myndir eða lélega sápuóperu. Þar er að finna endalausar einræður þar sem persónurnar útskýra fyrir sjálfum sér hvað þær ætli að gera. Þá eru spakmælin í heild ófyndin að því undanskyldu þegar eitraða Ivy segir um leið og hún reynir að drepa eiginkonu Frosta með því að taka frystiklefa hennar úr sambandi: „Hver þarf svo sem á kaldlyndri eiginkonu að halda?“ („Frigid wife“ getur auðvitað líka merkt „kynköld eiginkona“.)
Akiva Goldsman á heiðurinn á þessu ömurlega handriti, en hann skrifaði einnig handritin fyrir kvikmyndirnar A Time to Kill (Joel Schumacher: 1996) og Lost in Space (Stephen Hopkins: 1998) sem báðar verða seint taldar til stórverka kvikmyndasögunnar. Þá hefur Akiva Goldsman einnig komið að handritum kvikmynda á borð við The Client (Joel Schumacher: 1994), Batman Forever (Joel Schumacher: 1995) og Practical Magic (Griffin Dunne: 1998). Besta og frægasta handrit hans til þessa er þó A Beautiful Mind (Ron Howard: 2001) en fyrir það hlaut hann óskarsverðlaun ásamt fjölda annarra verðlauna og tilnefninga. Ef eitthvað er að marka kvikmyndatitla þá virðist sú velgengni ætla að verða skammlíf því nú er verið að undirbúa framleiðslu á handriti eftir hann sem ber þann pólitíska rétthugsunartitil Cinderella Man (Ron Howard: 2004), þ.e. öskubuskukarlmaðurinn.
En handritið er alls ekki það versta við myndina Batman og Robin því að leikurinn slær öllu við með Arnold Schwarzenegger í fararbroddi. Það eru ekki ný sannindi að Arnold sé lítill leikari en hér slær hann öll met. Honum virðist ómögulegt að koma heilli setningu út úr sér og fær maður það einna helst á tilfinninguna að hann hafi verið að lesa textann yfir í fyrsta skiptið á meðan tökur stóðu yfir.
George Clooney er litlu betri sem Batman. Hann á í stökustu vandræðum með að setja sig inn í hlutverkið, en reynir að bjarga málum með því að brosa og koma vel fyrir. Clooney getur þó huggað sig við það að hann er langt frá því að vera versti leikari myndarinnar því Alicia Silverstone er í harðri samkeppni við Arnold um þann vafasama titil sem leðurblökustúlkan. Henni hefur sennilega verið skellt inn í handritið á síðustu stundu vegna vinsælda leikkonunnar, en það hefur þótt viðeigandi á þessum síðustu tímum jafnréttisbaráttunnar að hafa einnig ofurkvendi í svona hasarmynd. Uma Thurman stendur sig þó hvað best af öllum í hlutverki hinnar eitruðu Ivy, þ.e. dr. Pamelu Isley. Hún ofleikur reyndar ferlega sem dr. Pamela en nær sér ágætlega á strik sem tælandi morðkvendi.
Leikur myndarinnar hefði kannski ekki orðið eins vondur og raun ber vitni ef hæfileikaríkur leikstjóri hefði verið við stjórnvölin. Joel Schumacher sem leikstýrði m.a. St. Elmo’s Fire (1985), The Lost Boys (1987), Flatliners (1990), Falling Down (1993), The Client (1994), Batman Forever (1995), A Time to Kill (1996), 8MM (1999), Flawless (1999) Tigerland (2000) og Phone Booth (2002) virðist ekki hafa verið með hugann við efnið og skilar hér frá sér sinni verstu mynd. Schumacher viðurkenndi reyndar mistök sín síðar meir og sagði t.d. í einu viðtali að hann hafi verið alveg „týndur“ eftir gerð hennar, enda hefði gróðinn skipt meira máli í framleiðslunni en myndin sjálf. Hann hafi því þráð það heitast að komast sem lengst frá Hollywood og hugsast gat eftir Batman And Robin. George Clooney tekur í sama streng og segir að af öllum þeim myndum, sem hann hafi leikið í, sjái hann mest eftir að hafa leikið í þessari, sem sé með því allra versta, sem gert hafi verið.
Það kemur því fáum á óvart að Batman og Robin skuli hafa verið tilnefnd til 11 Razzie verðlauna, þ.e. fyrir verstu myndina, versta handritið, verstu leikstjórnina, versta frumsamda lagið, verstu framhaldsmyndina, versta tvíeykið (George Clooney og Chris O’Donnell) og verstu leikarana í aukahlutverki: Chris O’Donnell, Arnold Schwarzenegger, Uma Thurman og Alicia Silverstone. Myndin er einnig í 94 sæti yfir verstu myndir allra tíma á Internet Movie Database (14. júlí 2003).
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þótt Batman og Robin sé langversta Batman-myndin er hún engu að síður líklega sú trúarlegasta.
Eins og í öllum öðrum Batman-myndum hafa óþokkarnir lent í slysi sem hefur dregið fram það versta innra með þeim. Það eru einmitt örlög Pamelu Isely, sem vinnur að því að búa til nýja tegund plantna með því að blanda saman erfðarefnum snáka og jurta. Hún fær þessa blöndu yfir sig sem og haug af snákum. Fyrir vikið er hún gædd hæfileikum og fegurð plönturíkisins en um leið jafn eitruð og hættuleg og snákar.
Pamela á það einnig sameiginlegt með óþökkum fyrri Batman-mynda að telja sig guðlega. Þegar hún innréttar nýtt hýbýli sitt segir hún t.d.: „Það tók Guð sjö daga að skapa Paradís. Sjáum til hvort ég geti ekki gert betur.“ Við annað tækifæri segir hún: „Ég er armur náttúrunnar. Andi hennar. Vilji hennar. Andskotinn hafi það, ég er Móðir náttúra sjálf og það er kominn tími til að plöntur endurheimti heiminn sem með réttu er okkar! Vegna þess að það er ekki gott að koma illa fram við móður náttúru.“
Eitruðu Ivy er fyllsta alvara með að plöntunar eigi að endurheimta heiminn, en eins og áður sagði hefur hún skapað sérstakt afsprengi plantna sem eru að hálfu plöntur og að hálfu snákar. Tengsl eiturkvendisins við snáka eru sérstaklega áhugaverð í ljósi eftirfarandi samtals við Frosta:
Frosti: „Ég mun hylja borgina með eilífum vetri. Fyrst Gotham og svo allan heiminn.“Eitraða Ivy: „Einmitt það sem ég hafði í huga. Allt mun líða undir lok nema við tvö. Tækifæri fyrir móður náttúru til að byrja upp á nýtt. Þetta verður dögun nýrrar aldar. Stökkbreyttu plönturnar mínar hafa kraft á við banvænar skepnur. Þegar þú hefur fryst mannkynið munu þessar elskur breiðast um allan heim og við munum drottna yfir þeim, því að við tvö verðum einu manneskjurnar sem eftir eru á jörðinni.“Frosti: „Adam og illska!“ [Á ensku: „Adam and Evil!“]
Hér renna Eva og snákurinn (tákn Satans/illskunnar) í eitt, en löng hefð er fyrir því að kenna Evu einni um fall mannkynsins þótt sjaldnast sé gengið eins langt og hér. Það er þó einkar áhugavert að þessi mikla illska skuli birtast í líki öfgafulls umhverfissinna en ekki herforingja eða gráðugs auðvaldssinna! Og hvað umhverfisvernd varðar þá er afstaða Batmans sú að virða beri náttúruna en að mannkynið sé ávallt mikilvægara. Engu er hins vegar svarað um hvar draga skuli línuna á milli nauðsynja og almennra þæginda.
Eitraða Ivy hefur ekki bara almenna óbeit á mannkyninu öllu, heldur beinist hún sérstaklega að karlmönnum. Þetta sést vel í eftirfarandi yfirlýsingu hennar: „Karlmenn! Fáranlegasta skepna Guðs. Við konur gefum ykkur líf, en við getum jafn auðveldlega tekið það til baka.“
Þar sem eitraða Ivy lítur á sig sem móður náttúru ætti það ekki að koma á óvart að hún skuli fyrst og fremst vera með hugann við sköpunarsögur Biblíunnar. Nú þegar hefur verið minnst á sköpunina á sjö dögum, Adam og Evu og nú síðast sköpun karlmannsins. Þegar hún svo lýsir upp himininn með merki Robins vitnar hún aftur í fyrstu sköpunarsöguna með orðunum: „Verði ljós!“
Frosti er einnig áhugaverð persóna. Hann reynir að frysta eiginkonu sína, sem hefur fengið banvænan sjúkdóm, með það fyrir augum að afþýða hana síðar þegar hann hefur fundið lækningu við sjúkdóminum. Tilraun hans tekst þó ekki betur en svo að hann frýs sjálfur með þeim afleiðingum að hann þolir ekki hita eftir það og virðast tilfinningar hans einnig hafa frosið. Þegar lögreglumaður nokkur biður hann um að þyrma lífi sínu svarar Frosti: „Ég er hræddur um að ástand mitt hafi gert mig ónæman (cold) fyrir beiðni þinni um miskunn.“ Á öðrum stað segir hann einnig: „Ef ég þarf að þjást skal mannkynið þjást með mér.“ Það ætti því ekki að koma á óvart að eitraða Ivy skuli lýsa því yfir að Frosti sé ekki maður heldur „Guð“.
Það er áhugavert að skoða ástand Frosta í ljósi sorgarferils. Hann á erfitt með að sætta sig við dauða eiginkonu sinnar en algengt er að fólk sveiflist frá afneitun til reiði og djúprar sorgar. Frosti virðist vera fastur í reiðinni og tekur út gremju sína á öllum í kringum sig. Hann upplifir þó afturhvarf í lok myndarinnar eftir að Batman bendir honum á að það sé enginn máttur í því fólginn að taka líf annarra. Slíkt sé á færi allra. Því fylgi hins vegar mikill máttur að gefa líf.
Frosti er þó langt frá því að vera sá eini sem er með dauðann á heilanum. Batman viðurkennir það sjálfur að hann líti á dauðann sem óvin og sé sífellt að reyna að sigrast á honum. Þá er Ivy drifin áfram af ótta við dauða náttúrunnar. Dauði ástvina er einnig ástæða þess að Batman, leðurblökustúlkan og Robin ákváðu að gerast ofurhetjur og berjast fyrir réttlæti. Öll þrjú reyna að bjarga lífi þjónsins, Alfreðs, sem sér ástæðu til að benda Batman á að það sé „enginn ósigur í dauðanum“ heldur sé sigur falinn í því að „verja það sem er rétt á meðan við lifum.“
Kvikmyndin fjallar einnig að stórum hluta um mikilvægi þess að við sýnum vinum okkar og fjölskyldumeðlimum traust og leyfum þeim að fara sínar eigin leiðir. Það er einmitt hér sem myndin sekkur hvað dýpst í væmni.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 1-3
Persónur úr trúarritum: Adam, Eva, snákur, Guð, Venus
Guðfræðistef: heimsslit, sorg, sorgarferli, illska
Siðfræðistef: öfundsýki, valdagræðgi, hefnd, ást, jafnrétti, vinátta, umhverfisvernd, morð, miskunn
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: helvíti, paradís
Trúarleg tákn: snákur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn
Trúarleg reynsla: afturhvarf