Leikstjórn: William A. Wellman
Handrit: Robert Pirosh
Leikarar: Van Johnson, John Hodiak, Ricardo Montalban, George Murphy, Marshall Thompson og James Whitmore
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1949
Lengd: 114mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0041163
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Þýzki herinn umkringir bandaríska herdeild í bænum Bastogne í Belgíu í Ardennasókninni í desember 1944. Enda þótt bandarísku hermennirnir verjist hraustlega, sjá þeir ekki fram á annað en ósigur, berist þeim ekki hjálp innan tíðar. Helsta vonin er bundin við flugher bandamanna en vegna lélegs skyggnis nær hann hvorki að athafna sig gegn óvininum né að varpa niður vistum til sinna manna. Ofan á allt saman kemur svo í ljós, að sumir þýzku hermannanna hafa klæðst einkennisbúningum bandamanna til að villa um fyrir þeim og eiga þannig auðveldara með að leggja þá að velli.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Gagnsókn þýzka hersins í Ardennafjöllunum í árslok 1944 var sú síðasta, sem eitthvað hvað að, áður en nazistar gáfust upp u.þ.b. hálfu ári síðar. Myndin er sögð frá sjónarhóli nokkurra bandarískra hermanna, sem sendir eru á vesturvígstöðvarnar og lenda áður en varir í einni af helstu stórorrustum stríðsins. Þegar hermennirnir hafa svo að mestu gefið upp alla von í sjálfu umsátrinu, vitnar einn þeirra í Jes. 40:31 og skýtur inn nokkrum kaldhæðnislegum athugasemdum áður en þeir taka þátt í jólaguðsþjónustu undir berum himni.
„Þeir sem vona á Drottin, fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. [Ef þokunni léttir!!!] Þeir hlaupa og lýjast ekki. [Ef fætur þeirra eru ekki þegar frostnir!!!] Þeir ganga og þreytast ekki. [Ef þeir missa ekki of mikið blóð áður en læknirinn kemur!!!]”
Lútherski herpresturinn reynir síðan að stappa í þá stálinu og bendir á, að stríðið sé nazistunum einum um að kenna. Bandaríkin hafi neyðst til að fara í stríð til að verja hinn frjálsa heim. Að því búnu hvetur hann hermennina að biðja Guð um að létta þokunni og halda þeir saman hljóða bænastund undir ærandi fallbyssugný. Þegar hermennirnir sjá Þjóðverjana hefja stórsókn gegn sér nokkru síðar, léttir þokunni skyndilega og ná flugvélar bandamanna að hrekja þá alla á brott. Um leið og hermennirnir sjá það, öðlast versið úr Jesaja nýja merkingu fyrir þeim og þeir vitna í það aftur: „Þeir fljúga upp á vængjum sem ernir.“ Hermaðurinn, sem hafði farið svo kaldhæðnislega með versið, bætir jafnframt við: „Þeir hlaupa og lýjast ekki.“ Við það fyllast allir nýjum eldmóði og taka á rás á eftir óvinunum.
Þetta er ein fjölmargra stríðsmynda, þar sem trú og stríð eru látin fara saman en Þorkell Ágúst Óttarsson hefur fjallað um nokkrar slíkar í bók sinni Saltarinn, trúarstef og stríðsmyndir, sem Guðfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2000. Það er ennfremur táknrænt fyrir boðskap myndarinnar, að mjög snemma eru bandarísku hermennirnir sýndir leita sér hvíldar undir stórum róðukrossi áður en þeir halda áfram til vígstöðvanna.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Jes. 40:31
Trúarbrögð: lútherska kirkjan
Trúarleg tákn: kross, róðukross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn