Kvikmyndir

Before Sunset

Before Sunset

Leikstjórn: Richard Linklater
Handrit: Richard Linklater, Kim Krizan, Julie Delpy og Ethan Hawke
Leikarar: Julie Delpy og Ethan Hawke
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2004
Lengd: 80mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði

Það eru níu ár liðin frá því Jesse og Celine hittust í Vínarborg og eyddu þar saman rómantískustu nótt ævi sinnar. Nú hittast þau aftur þar sem Jesse er að kynna nýja skáldsögu eftir sig sem fjallar um nótt þeirra forðum. Jesse þarf að fara upp á flugvöll eftir klukkustund og því hafa þau aðeins stuttan tíma til að ræða um allt það sem hefur gerst síðan þau hittust síðast.

Almennt um myndina

Endursögn á söguþræði myndarinnar nær engan vegin að fanga þann galdur sem þessi mynd hefur að geyma enda felst hann ekki í söguþræðinum heldur kvikmyndatökunni, samtölunum og stórkostlegum leik Julie Delpy og Ethan Hawke. Myndin er sjálfstætt framhald af Before Sunrise (1995) sem var gerð níu árum áður. Það er erfitt að gera upp á milli þessara mynda. Báðar eru einstakir gimsteinar í ótrúlegri meðalmennsku sem hefur tröllriðið kvikmyndaheiminum síðustu tíu árin.

Eins og í fyrri myndinni er áherslan lögð á andrúmsloft frekar en atburðarrás. Tökurnar eru langar og samtölin raunveruleg, rétt eins og maður greini óvart samtal fólks á næsta borði á kaffistofu. Munurinn á myndunum er fyrst og fremst sá að í Before Sunset er hin tæra og fallega ást horfin. Lífið hefur haft sín áhrif og skilið eftir ör. Draumar þeirra hafa ekki allir ræst og lífið hefur ekki verið eins skemmtilegt ferðalag og þau bjuggust við.

Myndin er að stórum hluta byggð á reynslu aðalleikaranna Julie Delpy og Ethan Hawke sem skrifuðu handritið með leikstjóra hennar Richard Linklater. Í raun er erfitt að greina á milli raunveruleika og skáldsögu. Ethan Hawke hefur t.d. skrifað skáldsögur en hann er rithöfundur í kvikmyndinni. Julie Delpy hefur gefið út plötu en hún spilar og semur lög á gítar í myndinni. Þrjú laga hennar eru meira að segja spiluð í Before Sunset. Hawke er skilinn við Uma Thurman sem hann eignaðist barn með. Í myndinni er hjónaband hans farið í vaskinn en hann eignaðist barn með þeirri konu. Delpy lærði kvikmyndagerð í New York en í myndinni lærði persónan sem hún leikur einnig í New York. Þá hefur Hawke búið í New York og það sama á við um persónuna sem hann leikur. Svona mætti lengi telja. Munurinn á milli raunveruleika og skáldskapar er því hárfínn. Það er kannski þess vegna sem manni finnst maður ekki vera að horfa á kvikmynd heldur eitthvað satt, einlægt og raunverulegt.

Það tók aðeins 15 daga að gera myndina sem virðist gerast í rauntíma. Það telst nokkuð gott sé miðað við það að kvikmyndagerðamennirnir hafa þurft að gæta þess að veðrið væri alltaf það sama, sem og lýsingin, sem er öll náttúruleg. Tökurnar eru langar en jafnframt flæðandi og rammarnir aldrei dauðir eða þreytandi. Sérstaklega var ég heillaður af skoti þar sem þau ganga upp tröppurnar inn í blokkinni þar sem Celine býr. Myndavélin eltir þau á meðan þau ganga hring eftir hring í niðurníddu stigahúsinu. Það er einmitt í þessari löngu, dáleiðandi töku sem maður fær það á tilfinninguna að eitthvað sé að gerast innra með þeim. Það væri útilokað að fanga slíkan galdur í stuttum tökum eða með hröðum klippingum. Að þessu leyti minnir myndin nokkuð á Frönsku nýbylgjuna eða kvikmyndir rússneska leikstjórans Andrei Tarkovksy.

Richard Linklater leikstýrði einnig fyrri myndinni Before Sunrise. Linklater er sjálfmenntaður og sjálfstæður kvikmyndagerðamaður en hann vakti fyrst athygli á sér með myndinni Slacker. Síðan þá hefur hann gert myndir á borð við Wakeing Life (2001) og The School of Rock (2003). Ég spái því að það verði hins vegar fyrir þennan einstæða tvíleik sem hans verður minnst í framtíðinni, ekki nema honum takist að toppa þessi meistaraverk.

Að lokum er rétt að geta þess að það er ekki nauðsynlegt að hafa séð Before Sunrise áður en farið er á þessa mynd en það er þó betra ef hægt er að koma því við.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum

Rétt eins og fyrri myndin er þessi byggð að miklu leyti upp á samtölum og eru þau nánast öll tilvistarleg. Ef maður ætlaði því að gera grein fyrir öllum þeim siðferðislegu og trúarlegu þáttum sem koma fyrir í myndunum hefði maður þurft að birta allt handritið. Það segir sig sjálft að það er útilokað að ná öllu sem sagt er í myndinni niður á blað og því verður þessi úrdráttur að duga þangað til mér tekst að leggjast yfir myndina á DVD.

Helsti munurinn á Jesse og Celine nú og áður er sá að á meðan Jesse hefur orðið opnari fyrir andlegum hliðum lífsins hefur Celine misst alla trú á eitthvað yfirnáttúrulegt. Jesse sækir mikið í dulhyggju trúarbragða og þá sérstaklega kristni og búddisma. Hann heldur því t.d. fram að hamingjan felist ekki í því að fá hluti heldur að vinna að þeim. Hann trúir því að maðurinn yrði ánægðari ef hann gæti losað sig við alla þrá, rétt eins og búddistarnir boða. Það sé svo sem allt í lagi að vilja eitthvað svo framarlega sem maður verður ekki sár ef maður fær þá ekki. Hann vill lifa lífinu eins og allir dagar séu þeir síðustu og spyr Celine hvað hún myndi tala um ef þetta væri síðasti dagur lífs þeirra? Spurningin er mjög áhugaverð. Hvað skiptir í raun máli og hverju myndi maður sleppa?

Jesse hafði meira að segja farið í kristið klaustur og dvalið á meðal munka og nunna. Hann var heillaður af því hvað þau lifðu í mikilli einingu við Guð, án kröfu eða græðgi. Hins vegar hafi hann verið gráðugur í andlega upplifun þegar hann var þar.

Svar Celine er dæmigert fyrir afstöðu hennar til trúarbragða. Hún segir honum sögu af manni sem fór til Asíu í leit að andlegleika Þegar hann kom í búddaklaustrin buðu munkarnir honum bara munnmök. Hún trúir ekki á neitt, hvorki drauga, Guð, endurholdgun eða stjörnuspeki, nokkuð sem hún gerði í fyrri myndinni en hann hins vegar ekki. Það er merkilegt að þótt hún segist trúlaus telur hún að líf fólks sé forákvarðað. Hann megi því ekki velta fyrir sér hvað hefði gerst ef þau hefðu hist aftur sex mánuðum síðar eins og þau höfðu heitið hvort öðru fyrir níu árum.

Þessi ólíku viðhorf til trúarinnar endurspeglast einnig í afstöðu þeirra til heimsmálanna. Celine telur heiminn fara versnandi. Nú séu stórfyrirtæki að færa verksmiðjur sínar til þriðja heimsins og mengi því meira en nokkrum sinnum fyrr. Vopnaframleiðsla sé í örum vexti og svo mætti lengi telja. Jesse telur hins vegar heiminn fara batnandi. Þökk sé fólki eins og Celine sem berjast gegn mengun og fátækt hafi orðið vitundarvakning hjá almenningi og þróun mála sé á réttri leið.

Celine bendir á að maður breyti í raun ekki heiminum með stórum gjörðum heldur með helling af litlum hlutum, eins og að pakka blýöntum í kassa og senda til skóla í fátækum löndum. Það eru einmitt þessir litlu hlutir sem skipta mestu máli. Hin sanna hetja er því ekki sú sem vinnur fyrir frægð og frama heldur sú sem aldrei er minnst á í fjölmiðlum.

Jesse telur fólk í raun ekkert breytast, sama hvað komi fyrir það. Sá sem er jákvæður að eðlisfari verði það ávallt. Ef hann lamast t.d. verði hann bara bjartsýnn og jákvæður einstaklingur í hjólastól. Sá sem er neikvæður að eðlisfari og vinni milljarð verði bara fúll milli þegar gleðivíman hefur runnið af honum. Sjálfur sé hann hannaður til að vera alltaf smá ósáttur. Þetta sjáist best á hjónabandi hans. Honum finnst hjónabandið eins og hann sé að reka dagvistarheimili fyrir börn með einhverjum sem hann fór einu sinni á stefnumót með. Sambandið hafi í raun fjarað út enda hafi hann ekki farið í það af ást heldur skynsemi og skyldu. Hann hafði talið að þetta myndi allt rætast.

Komið er inn á ofbeldi í Bandaríkjunum í myndinni en Celine hafði flutt aftur til Frakklands vegna þess að hún þoldi ekki ofbeldið þar. Hún var orðin svo móðursjúk að hún var alvarlega farin að íhuga að kaupa sér vopn til að verja sig.

Að lokum er heilmikið fjallað um minningar í Before Sunset. Celine segir að menningar séu góðar svo fremur sem maður þurfi ekki að kljást við fortíðina og Jesse segir að minningin sé aldrei fullmótuð, svo lengi sem maður lifi.

Trúarstef

Persónur úr trúarritum: Guð, draugur, andi
Guðfræðistef: endurholdgun, heimsslit, forákvörðun, mannseðlið
Siðfræðistef: umhverfisvernd, ástin, hjónaband, ofbeldi, sjálfsvíg
Trúarbrögð: gyðingdómur, búddismi, kristin trú, stjörnuspeki
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: grafreitur, kirkja, dómkirkja, klaustur, Notre dam
Trúarleg embætti: munkur, nunna
Trúarlegt atferli og siðir: gifting

Vefur myndarinnar wip.warnerbros.com/beforesunset
IMDb www.imdb.com/title/tt0381681/combined