Kvikmyndir

Ben Hur

Leikstjórn: William Wyler
Handrit: Karl Tunberg
Leikarar: Charlton Heston, Jack Hawkins, Haya Harareet, Stephen Boyd, Hugh Griffith, Martha Scott, Cathy O’Donnell, Sam Jaffe
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1959
Lengd: 212mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0052618
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin Ben Hur segir í raun tvær sögur. Annars vegar er greint frá örlögum Judah Ben Hur og ástvina hans og hins vegar frá starfi Jesú Krists, allt frá fæðingu til krossfestingar. Þessar tvær sögur eru síðan samofnar. Jesús Kristur gefur Ben Hur að drekka og Ben Hur launar honum greiðan þegar Kristur ber krossinn upp á Golgata. Starf og fórn Krists leiðir síðan til blessunnar fyrir Ben Hur.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ben Hur er ein af stórmyndum kvikmyndasögunnar. Hún hlaut ellefu óskarsverðlaun á sínum tíma, þ.m.t. sem besta mynd ársins. Þótt myndin fjalli að stórum hluta um örlög Ben Hur má í raun segja að söguþráður hennar sé fyrst og fremst eðli hjálpræðis Krists. Myndin byrjar á fæðingu Jesú en eftir það kemur Jesús oft fyrir, ýmist í eigin persónu eða í samtali manna. Við fáum þó aldrei að sjá framan í frelsarann, heldur aðeins viðbrögð þeirra sem líta ásjónu hans. Það er ekkert mennskt við þennan Jesú. Hann hræðist ekkert, þjáist ekki og virðist alltaf í fullkominni stjórn. Yfir honum hvílir alltaf ró og friður, og það jafnvel á krossinum. Vatn er gegnum gangandi stef í myndinni. Jesús gefur Ben Hur að drekka og hann launar síðar greiðann. Ben Hur talar einnig oft um gjöf Jesú. En vandi Ben Hur er að hann hefur aðeins smakkað jarðneskt vatn og á eftir að bragða á lífsins vatni. Hann er fullur heiftar og reiði og finnur enga sálarró fyrir vikið (og nú mun ég ljóstra upp um endi myndarinnar). Það er ekki fyrr en í lok myndarinnar þegar Ben Hur sér krossdauða Jesú að Ben Hur bragðar á lífsins vatni og um leið hverfur hatur hans og reiði og í staðin hefur hann fyllst kærleika til allra manna. Bóð Krists og vatnið rennur saman í myndinni en það fer að rigna eftir að Jesús gefur upp anda sinn og á sama tíma blandast regnvatnið blóði frelsarans. Á sama tíma læknast systir og móðir Ben Hur af holdsveiki. Í þessari senu sést kristshugmynd myndarinnar vel. Jesús kom í heiminn, fyrst og fremst til að deyja fyrir syndir okkar, en hver sá sem drekkur blóð hans hefur drukkið af lífsins vatni.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 2-3, Mt 2:1-12, Mt 5:1-7:29, Mt 27:32-56, Mk 15:21-41, Lk 2:1-20, Lk 2:29, Lk 6:17-49, Lk 23:26-49, Jh19:16-30
Hliðstæður við texta trúarrits: Jh 3:13, Jh 4:14, 1Kor 15:3, Gal 1:4, 1Pt 2:24, 1Jh 3:5 Opb 21:6, Opb 22:17
Persónur úr trúarritum: Guð, Jesús Kristur, Jóhannes skírari, Jósef, Júpiter, keisari Rómaveldis María Mey, Mars, Messías, Pontíus Pílatus, Salómon, spámenn Gamla testamentisins, vitringarnir,
Guðfræðistef: blessun, bóð Krists, dauði, dómur Guðs, eilíft líf, fórnardauði Krists, hjálp Guðs, kraftaverk, krossfesting, miskunn Guðs, synd, vatn lífsins,
Siðfræðistef: ást, frelsi, friður, fyrirgefning, hatur, hefnd, lygi, ofbeldi, óheiðarleiki, óréttlæti, valdagræðgi, veðmál, þrælahald,
Trúarbrögð: átrúnaður rómverja, gyðingdómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Betlehem, Musterið á Síon, Nasaret, Róm
Trúarleg tákn: davíðstjarna, kross, mesúsa
Trúarlegt atferli og siðir: bæn
Trúarleg reynsla: trúartraust