Kvikmyndir

Beyond the Law

Leikstjórn: Giorgio Stegani
Handrit: Fernando Di Leo, Mino Roli, Lorenzo Sabatini [undir nafninu Warren Kiefer] og Giorgio Stegani
Leikarar: Lee Van Cleef, Antonio Sabato, Gordon Mitchell, Lionel Stander, Bud Spencer, Graziella Granata, Herbert Fux, Carlo Gaddi, Valentina Arrigoni, Enzo Fiermonte, Nino Nini og Günther Stoll
Upprunaland: Ítalía og Þýzkaland
Ár: 1967
Lengd: 111mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Bófinn Billy Joe Cudlip gerist lögreglustjóri í villta vestrinu í von um að geta rænt silfurfarmi en heillast svo mjög af nýja starfinu að hann fær félaga sína brátt upp á móti sér.

Almennt um myndina:
Slakur spaghettí-vestri með málglöðum persónum og skelfilegri banjótónlist eftir Riz Ortolani. Stefið sem fylgir aðalskúrkinum er samt sem áður nokkuð gott.

Lee Van Cleef veldur hér vonbrigðum í hlutverki lögreglustjórans með bjánalegum ofleik og Lionel Stander er illþolanlegur sem þvoglumæltur predikari. Bud Spencer, sem aldrei þessu vant er skegglaus, stendur sig hins vegar með prýði þá sjaldan sem hann sést.

Myndgæðin á DVD disknum frá Direct Source Special Products eru hörmuleg enda kvikmyndin augljóslega komin af slitinni NTSC spólu, auk þess sem ‚pan and scan‘ útgáfan gerir það að verkum að það vantar u.þ.b. helminginn af upphaflega myndrammanum. Svo virðist ekki gert ráð fyrir því að áhorfendur séu læsir, enda útskýrir þulur vandlega hvað gera skuli í hvert sinn sem skjámyndin birtist þar sem velja þarf á milli kvikmyndarinnar og aukaefnisins á diskinum.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Einn af félögum lögreglustjórans er vafasamur predikari, sem veifar Biblíunni í tíma og ótíma og vitnar oftsinnis í hana. Sökum þess hversu þvoglumæltur hann er getur stundum reynst ansi erfitt að heyra hvað hann segir, auk þess sem honum hættir til að færa í stílinn. Engu að síður eru ritningartextarnir allmargir sem komist hafa til skila.

Í upphafi myndarinnar segir predikarinn ferðafélögum sínum frá því með dramatískum hætti hvernig Guð gaf lýð sínum lögmálið með „reiðarþrumum og eldingum“ á Sínaífjalli. (2M 20:18.) Síðar heyrir hann hvar kennslukona er að segja börnum söguna af því þegar Jesús Kristur mettaði fimmþúsund karlmenn með fimm brauðum og tveim fiskum en það grípur hann þegar á lofti og endursegir alla söguna með sínum sérstæða hætti. (Mt 14:13-21, Mk 6:35-44, Lk 9:12-17.) Við annað tækifæri segir hann svo söguna af því þegar Samson felldi miðsúlurnar sem musteri Filistana hvíldi á með þeim afleiðingum að húsið hrundi yfir þá sem þar voru og drap þá alla. (Dm 16:29-30.)

Sömuleiðis vitnar predikarinn oftsinnis til ýmissa orða Jesú Krists (Mt 8:22, Lk 9:60, Lk 19:22), sem oftar en ekki dæma hann sjálfan öðrum fremur enda ótýndur þjófur þegar allt kemur til alls. Þannig vitnar hann til þess sem Jesús Kristur sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (P 20:35.) Og í ofan á lag hefur hann eftir orð Páls postula með bros á vör: „Fégirndin er rót alls þess, sem illt er.“ (1Tm 6:10.) Þá segir hann Biblíuna einnig halda því fram, að silfrið geri manninn stoltan og auðlegðin afvegaleiði sálirnar, en ekki er alveg ljóst hvaðan sá texti er fenginn, hafi verið um beina tilvitnun að ræða.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían 2M 19:16, 2M 20:18, Dm 16:29-30, Mt 8:22, Mt 14:13-21, Mk 6:35-44, Lk 9:12-17, Lk 9:60, Lk 19:22, P 20:35, 1Tm 6:10
Guðfræðistef: lögmálið, synd, fyrirheitna landið
Siðfræðistef: manndráp, kynþáttamisrétti, græðgi, rán, gestrisni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: biblíulestur, kirkjusókn, predikun, sálmasöngur