Kvikmyndir

Blackmail

Leikstjórn: Luigi Batzella [undir nafninu Paolo Solvay]
Handrit: Luigi Batzella
Leikarar: Brigitte Skay, Rosalba Neri, Benjamin Lev, Claudio Giorgi, Nuccia Cardinali, Luana Brown og Darla Abrem
Upprunaland: Ítalía og Þýzkaland
Ár: 1973
Lengd: 77mín.
Hlutföll: 1.85:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Auðmannsdóttirin Babel er frjálslynd, sjálfselsk, öllum óháð og skemmtanasjúk. Hún hatar föður sinn sem henni finnst ekki sýna sér næga athygli og ákveður að láta hann rækilega gjalda þess með aðstoð vina sinna. Þau láta líta svo út fyrir að henni hafi verið rænt og krefjast $250.000 í lausnargjald, sem faðirinn samþykkir þegar að greiða. Allt fer hins vegar úrskeiðis þegar stjúpa auðmannsdótturinnar stingur af með lausnargjaldið og vinirnir taka að týna tölunni í blóðugu uppgjöri sín á milli.

Almennt um myndina:
Sannkallað evrurusl frá Luigi Batzella sem ábyrgur er fyrir alræmdu rusli á borð við spaghettí-vestrann God is My Colt .45 (1972), hrollvekjuna Nude for Satan (1974) og stríðsmyndina The Beast in Heat (1977). Myndin er þó mun skemmtilegri en t.d. The Matrix (Andy Wachowski og Larry Wachowski: 1999) eða The Lord of the Rings þrennan (Peter Jackson: 2001-2003) og er því full ástæða til að mæla með henni. (Að sjálfsögðu eru The Matrix og The Lord of the Rings þó verulega betri kvikmyndir að flestu leyti.)

Þýzka gulmyndaleikkonan Brigitte Skay lifir sig inn í hlutverk auðmannsdótturinnar og klæðist sjaldnast neinu, en hún er sennilega þekktust fyrir hlutverk sitt í snilldarverkinu A Bay of Blood (Mario Bava: 1971). Ítalska leikkonan Rosalba Neri, sem leikur stjúpu hennar, er þó mun þekktari enda lék hún í u.þ.b. eitthundrað (misgóðum) evrópskum sérvitringamyndum á sjöunda og áttunda áratugnum.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það væri örugglega fulllangt gengið að bendla auðmannsdótturina Babel við Babelsturninn í Gamla testamentinu, jafnvel þótt hún sundri fjölskyldu sinni og vinum með eigingirni sinni og hroka þannig að ekki verður úr bætt. Hins vegar er það látið flakka hér svona til gamans.

Hitt er annað mál að ekki er hægt að ganga að öllu sem vísu sem kemur við sögu í myndinni, en svo ljóstrað sé upp um mjög svo óvæntan endi hennar þá kemur að lokum í ljós að flest allt sem gerst hafði var aðeins martröð eins af félögum auðmannsdótturinnar. Þar sem honum hafði dreymt fyrir um afdrifaríkar afleiðingar þess að sviðsetja mannrán með þessum hætti, hafnar hann umsvifalaust uppástungu auðmannsdótturinnar þegar hún loks kemur með hana og verður því aldrei af mannráninu. Þessi sýrðu málalok eru mjög í anda Luis Buñuel, sem jafnvel margendurtók þau í óskarsverðlaunamyndinni frábæru Le charme discret de la bourgeoisie (1972). Batzella jafnast samt engan veginn á við Buñuel og má ganga að því sem vísu að flestum myndi þykja útfærsla hans í lok myndarinnar fáránleg og jafnvel hallærisleg. Reyndir evruruslmyndaáhugamenn myndu hins vegar flestir hafa gaman af málalokunum.

Og til marks um á hvaða siðferðisstigi myndin er má geta eins fáránlegs atriðis sem kemur við sögu undir lok hennar. Auðmannsdóttirin og vinir hennar dvelja á heimili systur eins þeirra í þeirri trú að heimilisfólkið sé allt fjærverandi í löngu ferðalagi, en þegar það svo óvænt birtist neyðast þau til að halda því í gíslingu mest alla myndina. Seint og síðar meir knýr miðaldra blökkukona þó dyra til að þrífa íbúðina en auðmannsdóttirin tekur hana þá líka í gíslingu með skammbyssu á lofti. Hreingerningarkonan bregst hart við, ræðst á auðmannsdótturina og slæst við hana í góða stund á gólfinu. Kynóð auðmannsdóttirin reynir þá að nauðga hreingerningarkonunni og leiðir það til langdreginna (ljósblárra) kynmaka þeirra. Sem sagt hreinræktuð ruslmynd með fáránlegri atburðarrás og óskiljanlegri persónusköpun.

Persónur úr trúarritum: verndarengill
Siðfræðistef: sjálfselska, eigingirni, frjálsar ástir, samskiptavandamál foreldra og barna, nekt, blekking, mannrán, fjárkúgun, hneyksli, mannorð, ofbeldi, morð, nauðgun, samkynhneigð, græðgi, svik, framhjáhald
Trúarleg tákn: veggkross, talnaband, kross í hálsmeni
Trúarlegt atferli og siðir: taka leiðsögn
Trúarleg reynsla: draumur, fyrirboði