Kvikmyndir

Bless The Child

Leikstjórn: Chuck Russell
Handrit: Thomas Rickman,Clifford Green og Ellen Green. Handritið er byggtá skáldsögu Cathy Cash Spellman
Leikarar: Kim Basinger, Jimmy Smits, Holliston Coleman, Rufus Sewell og Angela Bettis
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2000
Lengd: 107mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0163983#writers
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Cody er ekkert venjulegt barn. Daginn sem hún fæddist (rétt fyrir jólin) skein stjarna yfir fæðingarstað hennar, rétt eins og yfir Kristi forðum. Hún getur einnig veitt dauðum líf og læknað sjúka. En þessi einstaka stúlka er ekki óhult því hópur djöfladýrkanda leitar hins fyrirheitna barns, þ.e. endurkomu Krists. Markmið þeirra er að fá hana til að ganga til liðs við djöfulinn ella muni þeir drepa hana.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Bless The Child er með merkari heimsslitamyndum síðari tíma. Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar vegna þess að í myndinni er máttur Guðs raunverulegur og til staðar. Í flestum heimsslitamyndum þarf mannkynið nefnilega að berjast við Satan eitt síns liðs á meðan Guð er víðsfjarri. Í raun má segja að í flestum heimsslitamyndum sé Satan nær almáttugur en Guð vanmáttugur, eða að minnsta kosti fjarlægur. Í Bless The Child er hinn andlegi eða trúarlegi veruleiki jafn raunverulegur og sá efnislegi. Rétt eins og byssukúlur geta haft raunveruleg áhrif (á líkamann og hið efnislega) geta bænir haft raunveruleg áhrif (á hinn andlega veruleika). Þrisvar sinnum er persónum myndarinnar t.d. bjargað af fólki (englum) sem hverfur svo af vettvangi. Svartur ræstitæknir birtist eftir að rannsóknarlögreglumaður fer með bæn og segir honum að hann sé ekki einn. Hann lífgar einnig við plöntu rétt áður en hann ‘gufar upp’. Fósturmóður Cody er bjargað úr bíl sínum en svo virðist sem enginn annar hafi séð björgunina, né manninn sem kom henni til hjálpar þótt fjölmargir hafi verið á staðnum. Þá er Cody og fósturmóður hennar bjargað á lestarstöð af konu með regnhlíf, en hún ‘gufar einnig upp’ á staðnum að björgun lokinni. Þá hafa bænir nunna einnig mikið að segja fyrir lokaatriði myndarinnar. Það er í raun mjög sjaldgæft í kvikmyndum að gengið sé út frá trúnni sem raunveruleika, en slíkt er einna helst að finna í myndum sem gerðar eru út af sögum Biblíunnar. Bless The Child er því óneitanlega dæmi um góða tilbreytingu.

Hins vegar er myndin mjög áhugaverð vegna þess að Kristur kemur ekki aftur sem karmaður heldur sem kvenmaður. Það er gefið til kynna þegar í upphafi myndarinnar að Cody sé Kristur endurkominn. Á fæðingardegi hennar (sem er rétt fyrir jólin) birtist Betlehemstjarnan á himnum. Við þetta bætast margar aðrar tilvísanir: Barnamorðin sem minna mjög á morð Heródesar; freistingsena á þaki, sem er nær orðrétt tekin upp úr lýsingunni á freistingu Krists í guðspjöllunum. Loks minnir lækningarmáttur Cody á lækningarmátt Krists, en hún getur meira að segja gefið dauðum líf. Það að láta Krist koma aftur sem kvenmann er nokkuð sterkur leikur því myndin sýnir mjög vel að kyn skiptir engu máli þegar kemur að frelsunarhlutverki Krists. Hjálpræðið er jafn raunverulegt hvert sem kynið er.

Þótt Bless The Child sé heimsslitamynd þá fjallar myndin í raun ekki um heimsslitin, heldur aðdraganda þeirra. Myndin er nokkurs konar útlegging á freistingu Krists, þ.e. sögunni af því þegar Jesús Kristur fór út í eyðimörkina, þar sem djöfullinn freistaði hans. Markmið djöfladýrkendanna er einmitt að vinna Cody yfir á sitt band. Freisting Cody er sú að hún þarf að velja á milli þess að vera drepin eða ganga djöflinum á hönd (og hér ættu þeir að hætta að lesa sem ekki vilja vita hvernig myndin endar). Myndin endar meira að segja eins og sagan um freistingu Krists en þar segir að eftir að Jesús stóðst freistinguna hafi englar komið og þjónað honum. Eftir að Cody stenst freistingu sína og bíður dauða síns koma englar af himnum ofan og þjóna henni. Því má því í raun segja að Bless sé Child sé ítarleg útlegging á sögunni af freistingu Krists.

Þótt myndin fjalli ekki beint um heimsslitin sjálf, þá eru engu að síður nokkur hefðbundin stef í myndinni. Eitt þeirra er vonda barnfóstran, en í flestum heimsslitamyndum eru barnfóstrur eða aðstandendur djöfladýrkendur (sbr. t.d. End of Days, Omen seríuna, Lost Souls og Rosmery’s Baby).

Vanalega gætir vonda barnfóstran (eða aðrir aðstandendur) andkrists en það er einsdæmi fyrir þessa mynd að vonda barnfóstran skuli vera fengin til að ‘gæta’ frelsarans. Önnur algeng stef í myndinni eru t.d. máttur talnabandsins, útskúfaður prestur sem veit meira en aðrir, dúfur, grátandi María mey og New York sem sögusvið.

Bless The Child fékk fyrst vægast sagt slæmar viðtökur og var rökkuð niður af mörgum. Heldur hefur dregið úr gagnrýninni upp á síðkastið en hún fólst aðallega í eftirfarandi þáttum:

1) Of einföld útlegging á baráttu góðs og ills.
2) Of mikið af gyðing-kristnum klisjum í myndinni
3) Myndin er of kaþólsk/kristin. Trúlausir geta því ekki notið þessarar myndar.
4) Bænir nunnanna leiða til þess að englar birtast.

Þeir sem gagnrýna myndina vegna þessara þátta hafa greinilega ekki séð mikið af heimsslitamyndum. Gagnrýnin er eins fáranleg og það að gagnrýna bardagamynd fyrir það að sýna slagsmál. Og hvað er að því að gera mynd á trúarlegum forsendum? Fólk virðist ekki eiga í neinum vandamálum með að sætta sig við að heimurinn sé tölvu-forrit (sbr. The Matrix) eða að fólk geti flogið (sbr. Crouching Tiger, Hidden Dragon) en þegar kemur að því að ímynda sér að fólk sé bænheyrt þá er allt í einu gengið fram af fólki. Gagnrýni af þessum toga ber annað hvort vott um mikla fordóma í garð trúarbragða eða alvarlegan skort á ímyndunarafli.

Myndin hefur einnig verið gagnrýnd fyrir að líkjast of mikið öðrum yfirnáttúrulegum spennumyndum, eins og The End of Days og The Exorcist. Hún sé aðeins eftiröpun og hafi ekkert nýtt fram að færa. En hverju býst fólk eiginlega við? Auðvitað svipar myndinni til annarra mynda í sama flokki. Hins vegar er ég algjörlega ósammála því að myndin sé eftiröpun á End of Days og The Exorcist. Eins og ég hef rætt hér að framan er það engan veginn rétt að það sé ekkert nýtt í þessari mynd.

Oftast var myndin þó gagnrýnd fyrir það að Christina Ricci fékk ekki nógu stórt hlutverk. Einnig skildu margir ekki hlutverk Cody en aðrir kvörtuðu yfir því að trúarbrögðin sem leiðtogi djöfladýrkenda boðar minni of mikið á vísindaspekikirkjuna. Hvað Christinu Ricci varðar (en hún lék eiturlyfjafíkilinn sem kjaftaði frá) þá er sú gagnrýni ekki svaraverð. Sjálfum fannst mér hlutverk Cody augljóst og persónulega fagna ég föstum skotum á vísindaspekikirkjuna, enda er þar stórhættuleg mafía á ferð.

Að mínu mati er eina haldbæra gagnrýnin á myndina sú að handritið er oft á tíðum gloppótt. Maður fær það á tilfinninguna að mikilvægur hálftími hafi lent á gólfi klipparans. Gott dæmi um þetta er þegar fósturmóðirin hringir í rannsóknarlögregluna og segir henni að djöfladýrkendurnir hafi náð Cody á sitt vald. Í þessu atriði er gengið út frá því sem vísu að lögreglan hafi vitað að fósturmóðirin hafi náð Cody í millitíðinni, en samkvæmt myndinni komust þær upplýsingar aldrei til skila. Mistök sem þessi eru þó ekki nein einsdæmi í kvikmyndum. Blade Runner er t.d. gott dæmi en í þeirri frábæru mynd eru nokkur vandræðanleg mistök.

Hvað boðskap myndarinnar varðar þá mætti draga hann saman í eftirfarandi setningu úr myndinni sjálfri: ‘Öll erum við útvalin af Guði og öll höfum við mátt til að berjast við myrkrið með mætti ljóssins.’

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 2M 20:13, 5M 5:17, Sl 8:3, Mt 2:1-18, Mt 4:1-11, Mt26:26-30, Mk 1:12-13, Mk 14:22-26, Lk 4:1-13, Lk 15:32, LkLk22:15-20
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 4:1-11, Mt 9:18-26, Mk 1:12-13, Lk 4:1-13, Lk 7:11-17, Jh11:1-44
Persónur úr trúarritum: engill, Guð, illur andi, Jesús Kristur, María mey,Satan
Guðfræðistef: dauði, endurkoma Krists, hatur, heimsslit, tilvist Guðs,
Siðfræðistef: eiturlyfjaneysla, hræsni, lygi, morð
Trúarbrögð: djöfladýrkun, drúidar, rómversk kaþólska kirkjan, vísindaspekikirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Betlehem, kirkja, klaustur, vatikanið
Trúarleg tákn: dúfa, kerti, kross, talnaband
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, djöflamessa, fórn, galdur
Trúarleg reynsla: bænasvar, kraftaverk, sýn