4. árgangur 2004, Innlýsing, Vefrit

Blóðhlaupin augu og Jesús Kristur

Voru hýðingar, pústrar og blóðsúthellingar, sem Jesús Kristur leið á förinni til Golgata, nauðsynlegur þáttur frelsunarinnar? Ef Jesús hefði sloppið við líkamlega þjáningu fram að sjálfri krossfestingunni, hefði hjálpræðisverkinu þar með verið klúðrað? Er þjáning Jesú meginatriði trúarinnar? Eða er það líf Jesú, dauðinn eða eitthvað annað? Hvert var og er hlutverk Jesú og hver er þinn Jesús Kristur?

Mögnuð píslarsaga

Kristur píndur í Píslarsögu KristsPíslarsaga Mel Gibson er rosaleg saga. Blóð Jesú Krists slettist á stéttar og torg. Hægra auga Jesú bólgnar sem næst úr augntóttinni. Vargfugl goggar í augu ræningjans á krossinum. Friðlaus andi Júdasar veinar. Hermenn píska Jesú látlaust alla leið frá Getsemanegarði, um hallir trúarleiðtoga og veraldlegra valdsmanna og til aftökustaðar. Jesús er hæddur og lítillækkaður og á hann er lagt þyngra tréfarg en á ræningjana. Kona, sem ætlar að líkna bandingjanum, er hrakin á brott. Þyrnikórónónu er ekki tyllt á höfuð Jesú heldur lamin inn í höfuleður hans. Hermenn ganga í skrokk bandingjans langt umfram heimild. Gripgaddar svipanna slíta húð og kjötstykki í barsmíðinni. Öllum, nema andlega þykkskrápuðum, líður illa í þessum langdregnu píslarsenum. Blóðið frussast yfir böðlana og hleypur í augu okkar.

Hvert er hlutverk trúarlegrar ofbeldismyndar?

Eru svona pyntingar nauðsynlegur til að gleðiboðskapurinn skiljist? Er þessi aðferð blóðbaðsins sú skásta til boða myndfíknu nútímafólki frelsisverk Jesú Krists? Þarf að toppa ofbeldismyndir til að boða Lausnarann? Þarf að lengja hinar líkamlegu senur svo mjög að okkur sé hætt við uppsölu vegna þess sem dregið er upp á tjaldið? Hvert er hlutverk svona myndar?

Píslarsaga Gibson á örugglega eftir að vera mörgum manninum til íhugunar, vekja einhverja af trúarblundi og verða einhverjum hvatning til trúarlegrar íhugunar og Biblíulestrar. Hún hentar örugglega til sýningar meðal ungmenna, sem eru uppalin í ofbeldiskúltúr unglingamyndanna. Hún er ljómandi tilefni til umræðu um ýmsa Jesúþætti, tækifæri til samræðu um hlutverk og eðli Jesú. Hún beinir vel sjónum að mennsku Jesú. En hún er ekki góð guðfræði þar með vegna þess að frelsisverk Jesú Krists er ekki fólgið í hversu hann leið líkamlega.

Í því er einn vandi þessar myndar, hún hleypir blóðinu í augu okkar og við sjáum því ekki líf og dauða Jesú nægilega vel, sjáum ekki stórvirki Guðs. Fókus myndarinnar er písl en ekki líf. Við þurfum að þurrka blóðið úr augum og skoða hver Jesús var og er, því við sjáum aðeins brot af sögu hans í Gibsonpassíunni. Hvað var það sem Jesús bað að við gerðum í hans minningu? Örugglega ekki að fara í bíó, en kannski getur þessi mynd dýpkað veruleika Jesú í lífi okkar og við séð hann betur.

Innlýsing á forsýningu The Passion of the Christ, Smárabíói, 12/3/2003.