Kvikmyndir

Blood and Guns

Leikstjórn: Giulio Petroni
Handrit: Franco Solinas og Ivan Della Mea
Leikarar: Tomas Milian, Orson Welles, John Steiner, José Torres, Annamaria Manca, Luciano Casamonica, Paloma Cela, George Wang og Mario Daddi
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1968
Lengd: 97mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0063679
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Þegar Madero forseti Mexíkó snýr baki við smábændunum, sem studdu hann til valda í blóðugri borgarastyrjöld skömmu fyrir fyrri heimsstyrjöldina, grípur skæruliðaforinginn Tepepa til vopna á nýjan leik. Þar sem enski læknirinn Henry Price grunar Tepepa um að hafa nauðgað og myrt unnustu sína í borgarastyrjöldinni, sver hann þess dýran eið að hefna hennar og leitar skæruliðaforingjann uppi þar sem hann á í átökum við landeigandann Cascorro ofursta.

Almennt um myndina:
Efnistökin í þessum pólitíska spaghettí-vestra eru að mörgu leyti áhugaverð en þar er enginn saklaus og hefndin gerir aðeins illt verra. Tomas Milian skilar sínu sem mexíkanski skæruliðaforinginn Tepepa og John Steiner er óvenju góður í hlutverki enska læknisins, en hann átti eftir að leika í aragrúa alveg ótrúlegra evrópskra ruslmynda.

Það sem skemmir hins vegar einna mest fyrir kvikmyndinni er gamli úrvalsleikarinn Orson Welles í hlutverki Cascorro ofursta, sem augljóslega drepleiðist allt umstangið og á í hinu mesta basli með að halda sér vakandi allan tímann. Kannski er það engin furða í ljósi þess að setningarnar, sem honum eru lagðar í munn, minna einna helst á illa skrifað útvarpsleikrit þar sem sögupersónurnar lýsa jafnan öllu því, sem er að gerast í kringum þær, en slíkt gengur náttúrulega ekki í kvikmynd þar sem áhorfandinn sér allt sögusviðið. Tónlist Ennios Morricone hefur auk þess verið eitt helsta aðalsmerki bestu spaghettí-vestranna en í þetta skiptið bregst honum algjörlega bogalistin, enda einhæft stefið endurtekið í tíma og ótíma í gegnum alla myndina.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í myndinni skýtur Tepepa einn nákominn félaga sinn þegar hann verður uppvís af svikum en fer svo í góða stund með faðirvorið yfir líki hans. Faðirvorið er sennilega þekktasta bæn kristinnar trúar og ættu allir Íslendingar að kannast við hana óháð trúaráhuga þeirra. Í íslensku myndbandsútgáfunni af kvikmyndinni virðist þýðandinn hins vegar ekki hafa treyst sér til að þýða bænina á íslensku, enda lætur hann sér nægja að skrifa „Megi Guð varðveita sál þína“ meðan hún er flutt í heild.

Þegar Tepepa reynir að útskýra gjörðir sínar fyrir enska lækninum undir lok myndarinnar, segir hann að allar konur séu eins enda hafi Guð skapað þær á sama hátt. Það réttlætir hins vegar ekki misgjörð hans og kemur hún honum í koll að lokum.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 1:27, Mt 6:9-13
Siðfræðistef: manndráp, hefnd, dauðarefsing, réttlæti, nauðgun
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: róðukross, heimilisaltari
Trúarlegt atferli og siðir: signing, bæn