Kvikmyndir

Body Puzzle

Leikstjórn: Lamberto Bava
Handrit: Teodoro Agrimi, Lamberto Bava og Bruce Martin
Leikarar: Joanna Pacula, Tomas Arana, François Montagut, Gianni Garko, Erika Blanc, Matteo Gazzolo, Susanna Javicoli, Bruno Corazzari, Ursula von Baechler, Sebastiano Lo Monaco, Giovanni Lombardo Radice og Paolo Baroni
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1991
Lengd: 94mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Ekki byrjar dagurinn vel hjá ekkjunni Tracy Grant. Þegar hún vitjar grafreits eiginmanns síns í kirkjugarðinum, kemur í ljós að einhver hefur grafið upp lík hans og stolið því. Og þegar hún kemur heim finnur hún mannseyra í ísskápnum. Upp frá því leggur kolruglaður raðmorðingi ekkjuna í einelti og kemur hinum og þessum líkamspörtum fyrir hvar sem hún dvelur, en hann stelur jafnan ýmsum innyflum fórnarlamba sinna þegar hann myrðir þau.

Almennt um myndina:
Ótrúlega heimsk ítölsk gulmynd eftir Lamberto Bava sem virðist algjörlega skorta hæfileika föður síns, snillingsins Mario Bava sem var einn af hæfileikaríkustu kvikmyndagerðarmönnum síns tíma. Þótt ekki fari milli mála hver sé morðinginn (enda andlit hans sýnt strax í myndarbyrjun), telst kvikmyndin engu að síður morðgáta (og þar af leiðandi gul þar sem hún er ítölsk) enda kemur ekki í ljós fyrr en undir lokin hvað hann heitir og hvað fyrir honum vakir, en endirinn er að sjálfsögðu óvæntur. Þannig er myndin t.d. talin upp í gulmyndarhandbókinni Blood and Black Lace: The Definitive Guide to Italian Sex and Horror Movies eftir Adrian Luther Smith (The Dark Side, Liskeard, 1999).

Það besta við myndina eru leikararnir Gianni Garko og Erika Blanc sem eru aldraðar stjörnur úr fjölmörgum gömlum spaghettí-vestrum, gulmyndum og ýmsum öðrum ítölskum sérvitringamyndum. Pólska leikkonan gullfallega Joanna Pacula verður auk þess að teljast stórlega vanmetin en hún hefur sést í alltof fáum góðum kvikmyndum. En þótt gaman sé að sjá í myndinni ýmsa góða leikara, sem ekkert hefur sést til lengi, þýðir það ekki að hún sé eitthvað betri fyrir vikið. Handritið er ótrúlega illa skrifað og með svo heimskulegum samtölum að maður dauðvorkennir aumingja leikurunum fyrir þátttöku þeirra.

Svo ljóstrað sé upp um hið mjög svo heimska en óvænta plott myndarinnar þá reynist morðinginn vera tvíkynhneigður eiginmaður Tracyjar, sem allir héldu að hefði látist í mótorhjólaslysi. Sá sem raunverulega lést í mótorhjólaslysinu var hins vegar ástmaður eiginmannsins, en honum varð svo brugðið við tíðindin af hjónabandinu að hann rauk í burt án þess að gæta að sjálfum sér. Þar sem eiginmaðurinn sá strax hvað gerst hafði, gat hann komið því til leiðar að allir héldu að það hefði verið hann sjálfur sem hafði látist en ekki ástmaðurinn. Eiginmaðurinn fer síðan huldu höfði í kjallara heimilis síns og samsamar sig þar smám saman hinum látna og missir þannig endanlega glóruna. Þegar í ljós kemur að Tracy hafði leyft strax eftir slysið að líffæri hins látna væru gefin, leitar eiginmaðurinn líffæraþegana uppi einn af öðrum, ristir þá á hol og tekur líffærin til baka, en í hefndarskyni kemur hann ýmsum öðrum líkamspörtum fyrir heima hjá ekkjunni. Lík ástmannsins, sem hann gróf upp úr kirkjugarðinum, geymir hann hins vegar í frystikistunni í kjallara sínum og skilar líffærunum þangað.

Í einu af heimskulegustu atriðum myndarinnar opnar lögreglumaður frystikistuna og sér þar í fyrstu ekkert nema frosin pakkamat. En þegar hann fer að gramsa í frystikistunni finnur hann strax líkið harðfrosið og ­- viti menn ­- undir líkinu leynist morðinginn með barefli sem hann að sjálfsögðu slær beint í haus lögreglumannsins. Atriðið vekur í raun ótal spurningar: Hvernig í ósköpunum tókst morðingjanum að raða öllum pakkamatnum ofan á líkið meðan hann lá undir því? Hvað var hann búinn að liggja lengi í frystikistunni ófrosinn áður en lögreglumaðurinn kom? Og hvernig vissi hann að lögreglumaðurinn myndi líta ofan í frystikistuna?

Í rauninni er með ólíkindum hvað morðinginn býr yfir nákvæmum upplýsingum um líffæraþegana og virðist hann geta komist hvert sem er þrátt fyrir að vera augljóslega kolbrjálaður og lögreglumenn séu á hverju strái að leita hans. Þannig tekst honum t.d. að skera sundlaugarvörð á hol í miðri almenningssundlaug og stela úr honum lifrinni án þess að nokkur taki eftir því eða nokkurt blóð sjáist.

Það þarf því mikið umburðarlyndi til þess að geta horft á myndina með tiltölulega jákvæðu hugarfari.

Myndgæðin á DVD diskinum frá Madacy eru fín og er myndin í breiðtjaldshlutföllunum 1.66:1 þrátt fyrir að hún sé sögð „Full Screen“ á bakkápunni. Í upprunalegu útgáfu myndarinnar var morðstefið þekkt tónverk eftir Carl Orff en þar sem ágreiningur kom upp um höfundarréttinn var annað sígilt tónverk eftir Modeste Moussorgsky notað í staðinn og er það í þessari útgáfu myndarinnar. Þótt tónlist Moussorgskys sé flott, passar hún illa vð myndina, en sagt er að tónlist Orffs hafi komið mun betur út. Að öðru leyti er frumsamin tónlist myndarinnar ósköp svæfandi.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Athygli vekur að morðinginn skuli vera tvíkynhneigður en mjög neikvæð mynd er dregin upp af öllum samkynhneigðum í myndinni. Þeir eru furðulegir, óheiðarlegir og andlega sjúkir og reynist einn þeirra jafnvel kolruglaðir raðmorðingi. Ekkert er þó minnst á trúmál í myndinni að öðru leyti en því að páfinn er þar nefndur á nafn og upp á vegg í kennslustofu má sjá málverk af síðustu kvöldmáltíðinni.

Siðfræðistef: morð, tvíkynhneigð, samkynhneigð, hatur, samviskubit
Trúarleg tákn: málverk af síðustu kvöldmáltíðinni
Trúarleg embætti: páfi