Leikstjórn: Giuseppe Colizzi
Handrit: Giuseppe Colizzi
Leikarar: Terence Hill, Bud Spencer, Woody Strode, Lionel Stander, George Eastman, Victor Buono, Eduardo Ciannelli, Glauco Onorato, Alberto Dell’Acqua, Enzo Fiermonte og Antonio De Martino
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1969
Lengd: 91mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Í smábænum Libertyville í suðvestur Bandaríkjunum hefur illa þokkað námufélag ráð flestra gullgrafaranna á svæðinu í hendi sér og er hver sá drepinn sem vogar sér að gagnrýna það. Þegar lítill sirkus setur upp sýningu í bænum, leitar þar skjóls særður maður á flótta undan útsendurum stjórnanda námufélagsins. Starfsmenn sirkusins hjálpa honum að komast undan en leita aftur til hans eftir aðstoð þegar útsendararnir myrða einn af loftfimleikamönnunum þeirra í miðri sýningu. Liði er síðan safnað til að leggja bófana, sem standa að baki námufélagsins, að velli fyrir fullt og allt.
Almennt um myndina:
Þetta er þriðji og síðasti spaghettí-vestrinn sem Giuseppe Colizzi gerði með þeim félögum Terence Hill og Bud Spencer en ári síðar áttu þeir báðir eftir að slá í gegn í skopstælingunni They Call Me Trinity (Enzo Barboni: 1970). Ólíkt Trinity myndunum eru flestir spaghettí-vestrar Colizzis grafalvarlegir og stekkur þeim Hill og Spencer vart bros á vör í allri myndinni sem er hér til umfjöllunar.
Kvikmyndin er sem betur fer í réttum breiðtjaldshlutföllum á DVD diskinum frá Wild East í Bandaríkjunum en litirnir eru þó daufir og myndgæðin frekar gróf. Því miður er myndin einnig fáanleg í slæmri ‚pan and scan‘ DVD útgáfu þar í landi, en sú er enn til sölu hjá Amazon.com.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Sirkusstjórinn starfar einnig við spálestur enda getur hann séð inn í framtíðina með hjálp kristalskúlu, þ.e.a.s. um leið og hann hefur fengið borgað fyrir það. Þegar hann svo fær til sín viðskiptavin frá Libertyville, virðist hann samt aðeins sjá fyrir eigin vandræði, enda segir hann kúnanum að lokum að hafa ekki áhyggjur því að vandamálin varði aðeins sig en ekki hann.
Guðfræðistef: helvíti, tilvist Guðs
Siðfræðistef: manndráp, kúgun, fjárhættuspil, vændi, sverja
Trúarleg tákn: kristalskúla
Trúarleg embætti: spálesari
Trúarlegt atferli og siðir: spálestur