10. árgangur 2010, Pistill, Vefrit

Bræður munu bregðast

Úr kvikmyndinni Submarino

Í dönsku kvikmyndinni Submarino, sem er sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, kynnumst við sögu Nick Torp og litla bróður hans. Sá yngri er reyndar aldrei nefndur á nafn í myndinni, við þekkjum hans aðeins sem föður Martins. Bræðurnir alast upp á brotnu heimili og sú reynsla markar líf beggja.

Við kynnumst þeim sem börnum í upphafi myndarinnar, fáum innsýn í erfiðar aðstæður á heimilinu, sjáum þá reyna sig í hlutverkum sem tilheyra fremur fullorðnum en börnum, sjáum hvernig þeir ráða ekki við þetta líf.

Við kynnumst þeim sem börnum í upphafi myndarinnar, fáum innsýn í erfiðar aðstæður á heimilinu, sjáum þá reyna sig í hlutverkum sem tilheyra fremur fullorðnum en börnum, sjáum hvernig þeir ráða ekki við þetta líf.

Svo víkur sögunni að bræðrunum sem fullorðnum mönnum. Í fyrri hluta myndarinnar segir frá Nick, í síðari hluta myndarinnar bróður hans. Nick notar áfengi til að deyfa sársaukann sem hann býr við, bróðir hans er fíkill. Fortíðin fjötrar báða. Nick býr einn í félagslegri íbúð. Hann hittir Sofie nágrannakonu sína stöku sinnum, þau hafa félagsskap af hvort öðru og af víninu, en ekki mikið meira. Bróðirinn býr einn með syni sínum Martin. Hann segist lifa fyrir soninn, en fíknin er sterkari.

Uppgjör og endurlausn

Þetta er mögnuð mynd um uppgjör og endurlausn.

Í umræðum að lokinni sýningu Submarino á RIFF sagði Jakob Cedergren (sem leikur Nick í myndinni) að þetta væri saga af ástinni milli bræðranna tveggja. Um leið væri þetta eins konar frumsaga í anda sögunnar af Kain og Abel. Submarino fjallar að vísu ekki um bræðravíg eins og sú saga, en hún fjallar um brostin sambönd, brostnar vonir og brostna bræður. Í myndinni sjáum við Nick og bróður hans sökkva niður á botn. Annar verður eftir. Hinn fær tækifæri til að stíga upp.

Ps. Heiti myndarinnar er sótt í nafn á pyntingaraðferð. Myndin fjallar ekki um pyntingar, en kannski er hliðstæðan fólgin í því að myndin fjallar langtímaáhrif þess að ganga nærri börnum og virða ekki mörk.