Leikstjórn: Mel Gibson
Handrit: Mel Gibson
Leikarar: Mel Gibson, James Robinson, Sean Lawlor, Sandy Nelson, James Cosmo, Sean McGinley, Alan Tall, Andrew Weir
Upprunaland: England og Frakkland
Ár: 1995
Lengd: 177mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0112573
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Braveheart greinir frá skosku frelsishetjunni Vilhjálmi Wallace. Sagan gerist kringum aldamótin 1300 þegar Vilhjálmur leiddi uppreisn Skota gegn Játvarði I Englandskonungi, en hún markaði upphaf langrar frelsisbaráttu sem að lokum skilaði árangri.
Fjöldi sagna er til um Vilhjálm og eiga margrar þeirra rætur að rekja til sagnaljóðs frá því á 15. öld. Vinsælustu sögurnar eru ekki studdar rituðum heimildum, enda eru þær af skornum skammti, en þær sýna þau áhrif sem Vilhjálmur hefur haft á skoska þjóðarsál og enn syngja menn ljóðið um hann.
Handrit kvikmyndarinnar Braveheart er skrifað af Randall Wallace og mun m.a. vera byggt á sagnaljóðinu frá 15. öld auk hæfilegrar blöndu af ást og þjóðernisrómantík.
Myndin hefst þegar Vilhjálmur Wallace er barn að aldri. Faðir hans fellur í bardaga við enska herinn. Föðurbróðir hans tekur hann að sér og sér til þess að hinn ungi Vilhjálmur kemst út í hinn stóra heim og menntast. Hann snýr svo til baka til heimabyggðar sinnar og kvænist þar æskuást sinni á laun. Ekki líður á löngu þar til hún er drepin af enskum hermönnum þegar hún veitir mótspyrnu við nauðgunartilraun. Sá atburður veldur þáttaskilum í lífi Vilhjálms. Hann safnar að sér her alþýðumanna og leiðir blóðuga frelsisbaráttu gegn Játvarði I Englandskonungi. Hver sigurinn vinnst af öðrum og hann kemst í kynni við franskættaða prinsessuna af Wales, svo náin að hún ber barn hans undir belti. Að lokum bíður hann ósigur fyrir Játvarði I við Falkirk þegar skoskir aðalsmenn svíkja hann og selja í hendur Englendinga.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin Braveheart er um margt heillandi þótt ýmislegt í sögu Vilhjálms sé skáldað og fært í stílinn. Stórbrotnar og vissulega blóðugar bardagasenur í myndinni hafa vakið mikla athygli og munu alls um 3000 leikarar hafa tekið þátt í því að festa orustuna við Stirling á filmu. Það sem vekur þó sérstaka athygli er hvernig Kristsmynd guðspjallanna setur sterkt mark á framsetninguna og áréttar það með einstökum hætti hve frelsið er dýru verði keypt.
Vilhjálmur er líklega 10 – 12 ára drengur þegar hann hverfur af sjónarsviðinu í myndinni en birtist svo aftur fullvaxta maður. Hér má sjá tengsl við upphaf Lúkasarguðspjalls sem segir í lok 2. kafla frá Jesú 12 ára í musterinu og síðan í 3. kafla þegar hann kemur fram fulltíða maður og hefur að starfa meðal fólksins. Vilhjálmur verður fljótlega frelsishetja eða „frelsari“ Skota og sífellt fleiri úr röðum alþýðumanna safnast um hann. Hann er því orðin veruleg ógn við veldi Játvarðs I suður í London. Sögurnar um hann taka að breiðast út og honum er líkt við Móse sem leiðir Ísrael úr ánauðinni í Egyptalandi í gegnum Rauðahafið. Í London leggja menn aftur á móti á ráðin um hvernig ráða megi Vilhjálm af dögum. Játvarður konungur talar um að her Vilhjálms sé aðeins sauðir og það þurfi einungis að slá hirðinn til að tvístra hjörð hans (sbr. Mt 26:31). Og Játvarði tekst að finna „Júdasa“ sem unnt er að kaupa til að svíkja hann. M.a.s. Robert Bruce („Pétur“), sem hrífst af eldmóði Vilhjálms og vill líkjast honum, afneitar honum en sér svo eftir öllu saman.
Frelsið kostar frelsishetjuna lífið. Vilhjálmur er svikin í hendur yfirvalda og háir sína „Getsemanebaráttu“ í fangelsisklefanum líkt og Jesús forðum í Getsemanegarðinu áður en hann var krossfestur (sbr. Mt 26:36-46). Loks er hann bundinn á láréttan kross, pyntaður og hálshöggvinn eftir síðasta hróp sitt: „Frelsi“. Fáeinir fylgismenn hans standa álengdar og fylgjast með. Hliðstæðan við píslarsöguna í guðspjöllunum er því augljós. Barn Vilhjálms lifir hins vegar í móðurkviði væntanlegrar drottningar Englands því Játvarður I deyr um svipað leyti og Vilhjálmur er hálshöggvinn. Eftir dauða Vilhjálms verður það síðan Robert Bruce („Pétur“) sem leiðir frelsisbaráttu Skota til enda og her hans gengur til baráttunnar fylltur baráttuanda og eldmóði Vilhjálms Wallace.
Saga Vilhjálms eins og hún er sögð í Braveheart felur því í sér sterka vísun til Krists og því tvímælalaust unnt að tala um hann sem kristsgerving. Jafnframt má segja að vísunin sé mun víðtækari og því má tala um að myndin vísi til guðspjallanna þar sem ýmsar aðrar persónur hennar eiga sér samsvörun í guðspjöllunum, t.d. Robert Bruce sem vísar til Péturs postula.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 2M 14-15, 3M 6:24-26, ýmsir textar guðspjallanna, einkum Mt 26:31, Mt 27:45-28:10, Mk 15:33-16:20, Lk 2:41-52, Lk 23:44-24:49 og Jh 19:28-20:23
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 5:38
Persónur úr trúarritum: Guð, Jesús Kristur, Júdas, Móse, Pétur, Þrenningin
Guðfræðistef: frelsi, friður, kristsgervingur
Siðfræðistef: morð, nauðgun, samkynhneigð, stríð, svik
Trúarbrögð: rómversk kaþólska kirkjan
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, gifting, jarðarför, signing
Trúarleg reynsla: draumur, sýn