Kvikmyndir

Breaking the Waves

Leikstjórn: Lars von Trier
Handrit: Lars von Trier
Leikarar: Emily Watson, Stellan Skarsgård, Katrin Cartlidge, Jean-Marc Barr, Adrian Rawls, Jonatan Hackett, Sandra Voe, Udo Kier, Mikkel Gaup, Roef Ragas, Phil McCall, Robert Robertsson, Desmons Reilly, Sara Gudgeon, Finlay Welsh
Upprunaland: Danmörk, Svíþjóð, Frakkland, Holland, Noregur
Ár: 1996
Lengd: 159mín.
Hlutföll: http://us.imdb.com/Title?0115751
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Sögusvið Breaking the Waves er lítið, einangrað skoskt sjávarþorp á áttunda áratugnum þar sem strangtrúuð kalvínsk kirkja er ráðandi afl. Karlarnir í öldungaráðinu fara með völdin og lögmálshyggja þeirra er jafn óhagganleg og sannfæring þeirra um að allt sem komi utanfrá hafi vandamál í för með sér. Aðalpersóna myndarinnar er ung og saklaus stúlka, Bess McNeil að nafni, sem Emily Watson leikur af hreinni snilld og var hún tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Þrátt fyrir aðvaranir öldungaráðsins giftist hún Jan, verkamanni á olíuborpalli, sem Stellan Skarsgård leikur. Eftir brúðkaupið eiga þau saman hamingjuríkar stundir en að lokum kemur að því að Jan þarf að halda á ný til starfa á olíuborpallinum.

Bess á erfitt með að sjá á eftir Jan út á borpallinn. Söknuður hennar verður óbærilegur þrátt fyrir að eiginkonurnar í sjávarþorpinu hafi lært að sætta sig við hlutskipti sitt. En Bess er ekki ein. Hún fer í kirkjuna til að þrífa og tala við Guð og Guð talar við hana með sömu ströngu röddinni og presturinn. Endurspeglast þar hið strangkalvínska uppeldi. Að lokum þolir hún ekki biðina og biður Guð að senda Jan heim. Henni verður að ósk sinni þegar Jan kemur heim lamaður eftir alvarlegt slys.

Bess lítur á þetta sem bænasvar og sönnun þess að hún geti haft áhrif á Guð en jafnframt að Guð krefjist mikilla fórna til að uppfylla bænir hennar. Hún kennir sér einnig um slysið. Viðbrögð hennar eru þau að ef hún reyni að vera góð muni Guð bjarga hennar heitt elskaða. Ef hún hiki ekki við að gera jafnvel það hræðilegasta sem hún getur hugsað sér til að sýna kærleika sinn muni Jan batna.

Jan hefur litla von um að hann komist á fætur á ný og vill að Bess haldi lífi sínu áfram. Hann telur henni því trú um að hún geti haldið honum á lífi með því að eiga í ástarsamböndum við aðra menn sem hún lýsi síðan fyrir honum. Í fyrstu er þetta henni skelfileg tilhugsun en smám saman fer hún að trúa því að þetta muni lækna Jan. Þar með eru örlög hennar ráðin og hún fórnar sér þannig fyrir ástvin sinn, þrátt fyrir að bæði Dodo, mágkona hennar, og Richardson, læknir Jans, reyni að fá hana ofan af því. Jafnvel útskúfun öldunganna í kirkjunni dugir ekki til að hún sjái að sér. Að lokum fórnar Bess lífi sínu og fer um borð í skip sem var talið hættulegt vegna ofbeldis og ruddamennsku skipverja og deyr af sárum sem „viðskiptavinirnir“ veita henni. Eftir dauða hennar kemst Jan hins vegar á fætur og þegar hann kveður hana í vota gröf á hafi úti hverfur líkið á dularfullan hátt og kirkjuklukkur hringja á himni.

Almennt um myndina:
Kvikmynd Lars von Trier vakti starx mikla athygli. Hún hefur fengið fjölda tilnefninga og viðurkenninga af ýmsu tagi. Eins og áður hefur komið fram var Emily Watson tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 1997 fyrir leik sinn og samtals hefur myndin hlotið vel á þriðja tug tilnefninga og viðurkenninga á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum, m.a. í Cannes. Þá hefur hún víða fengið jákvæðar umsagnir gagnrýnenda. Þrátt fyrir það hefur myndin verið umdeild og verið gagnrýnd harkalega, m.a. af femínistum.

Eins og kunnugt er er Lars von Trier einn þeirra sem stóðu að samþykktinni um gerð svokallaðra dogma-mynda (Dogma 95) og hann gerði myndina Idioterne samkvæmt henni árið 1998. Það voru kvikmyndaleikstjórarnir Thomas Vinterberg, Søren Kragh-Jacobsen og Kristian Levring sem stóðu að samþykktinni ásamt Lars von Trier og var hún m.a. hugsuð sem andóf gegn ofurtæknivæddri kvikmyndagerð samtímans. Breaking the Waves var gerð um það leyti sem sú samþykkt kom til sögunnar og því ekki gerð samkvæmt henni en í myndinni má þó sjá vinnubrögð sem síðan urðu hluti af dogma-hefðinni. Sem dæmi má nefna að tökumaður heldur alltaf á vélinni þannig að myndatakan er jafnan á hreyfingu.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Breaking the Waves hefur vakið margvísleg og snörp viðbrögð. Það er eðlilegt þar sem sagan sem hún segir er ögrandi. Strangtrúar- og feðraveldissamfélagið sem myndin lýsir og meðferð þess á Bess vekur andúð áhorfandans. Hvert er Lars von Trier (sem snerist til rómversk-kaþólskrar kristni á sínum tíma) að fara með mynd sinni? Er hún fyrst og fremst gagnrýni á öfgafullt strangtrúarsamfélag sem fer illa með saklausa stúlku og bregst henni þegar á reynir? Er myndin gagnrýni á mótmælendakristni almennt eða jafnvel á kjarna kristindómsins sem geti leitt af sér samfélag og fórnarlund eins og myndin lýsir?

Saga Bess vekur jafnframt ótal spurningar. Er það sem Bess gerir til að bjarga sínum heitt elskaða rétt eða rangt, sjúkt eða heilbrigt, vont eða gott? Er hún veik á geði og haldin sjúklegri sektarkennd eða bara saklaus og góð og sem slík leiksoppur miskunnarlauss feðraveldis? Myndin fylgir spurningunum vel eftir en gefur þó ekkert endanlegt svar. Þetta kemur m.a. fram í kvikmyndatökunni. Allan tímann er haldið á tökuvélinni og persónunum fylgt eftir. Myndin er því stöðugt á hreyfingu og áhorfandinn verður nánast eins og þátttakandi. Í einu vetfangi er myndatakan nálæg og ágeng. Þannig afhjúpar hún tilfinningar Bess, sakleysi hennar, gleði og sorg, sársauka og örvæntingu. Í næstu andrá er myndatakan fjarlæg og snýst að einhverju öðru. Myndin er þannig nærgöngul við aðalpersónurnar en um leið gengur hún einnig mjög nærri áhorfandanum.

Mynd sem gerist í strangtrúarsamfélagi sem stjórnað er af öldungaráði kirkjunnar felur óhjákvæmilega í sér mörg trúarstef. Breaking the Waves er saga einlægrar en kúgaðrar konu, sem jafnvel er álitin dálítið einföld og tæp á geðsmunum. Sem slík endurspeglar myndin fjölmarga þætti mannlegrar tilveru og tilfinninga en segja má að hún fjalli þó fyrst og fremst um trú, von og kærleika. Hún fjallar um mátt trúarinnar til að frelsa og kúga, um vonina um kraftaverkið ef öllu er fórnað, hversu fráleit sem fórnin er, og um takmarkalausan kærleika og endimörk hans og hvernig misnota má slíkan kærleika gjörsamlega. Bess er fordæmd og henni útskúfað en hún trúir því statt og stöðugt að kærleikurinn og fórnarlundin geti gert hið ómögulega mögulegt. Orð prestsins við giftingu hennar og Jans eru eins og yfirskrift lífs hennar: „Kristur elskaði kirkjuna og fórnaði lífi sínu fyrir hana. Okkur ber að fórna okkur fyrir hann.“ Þegar læknirinn er yfirheyrður vegna dauða hennar segir hann að hún hafi hvorki verið geðveik né hugsjúk heldur góð og hreinlega dáið vegna góðmennsku sinnar. Í myndinni takast þannig á einlægur kærleikur og lögmálsbundin kúgun eða takmarkalaus fórnalund og misbeiting valds, hvort tveggja í nafni trúar.

Í þessu sambandi er áhugavert að skoða þá guðsmynd sem birtist í Breaking the Waves. Þegar Bess fer í kirkjuna og biðst fyrir svarar Guð henni þannig að hún talar fyrir munn hans. Athyglisvert er að rödd hennar breytist og minnir á stranga rödd prestsins. Guðsmyndin í bænum Bess er þannig í samræmi við þá guðsmynd sem presturinn og öldungaráðið í kirkjunni boða. Hann er hinn strangi Guð sem vekur ótta og sektarkennd. Bess stjórnast af þessari afbökuðu guðsmynd og reynir að vera „góð og hlýðin“ til að Guð svari bænum hennar.

Hér er einnig áhugavert að skoða þá sérkennilegu hugmynd um bæn og bænasvör sem birtist í myndinni. Bess trúir því að hún hafi með bænum sínum valdið því að Jan kom heim lamaður eftir slys og það veldur henni sektarkennd. Hún trúir því einnig að ef hún reynist góð og hlýðin og fórni sér fyrir Jan muni Guð bænheyra hana aftur. Bænasvarið verður þá nokkurs konar umbun fyrir hlýðni. Þessi skilningur verður síðan til þess að Bess leiðist út í þann hrylling sem að lokum leiðir hana til dauða því hún tengir ósk Jans um að hún leggist með öðrum mönnum við von sína um guðlegt kraftaverk.

Eitt af því sem hefur vakið umræður um Breaking the Waves er sú staðreynd að í henni er um sérstæða vísun til Krists að ræða. Mörgum kann að virðast það sérkennileg túlkun vegna þess hvert ást Bess á Jan leiðir hana, en myndin segir engu að síður sérstæða píslarsögu sem hefur áhorfandann algjörlega á valdi sínu og skilur hann eftir með margar óþægilegar spurningar og hugsanir. Óhætt er að segja að í píslarsögu Bess sé að finna vísun til píslarsögu Krists. Um leið vísar saga Bess einnig til sögunnar um hórseku konuna í Jh 8 og er þverstæða hennar e.t.v. fólgin í því. Bess, hin saklausa og góða, gefur sig viðbjóði á vald og færir þá mestu fórn sem unnt er að færa til að sá sem hún elskar fái lifað. Í lok myndarinnar er upprisa hennar jafnvel gefin í skyn því lík hennar virðist horfið og kirkjuklukkur hringja á himni. Vissulega er Bess kúguð og deyr að lokum af þeim ástæðum. En „upprisu“ hennar má þá líka túlka sem upprisu hinnar kúguðu sem hlýtur þá einnig að tákna sigur yfir kúgunaröflunum. Kirkjuklukkurnar á himni árétta þann sigur því öldungar kirkjunnar í þorpinu töldu enga þörf fyrir kirkjuklukkur. Hliðstæðan við Jesú Krist í sögu Bess er sú að hann gekk af takmarkalausum kærleika sínum inn í kjör syndugra og ánauðugra manna og gaf sjálfan sig til að frelsa þá. Upprisa hans er staðfesting á sigri hans yfir illsku og synd. Hliðstæðan er því nokkuð augljós og meðvituð af hálfu höfundar myndarinnar. Hitt er aftur á móti ljóst að það er umdeilanlegt hvernig Lars von Trier notar vísunina til Krists og hún hlýtur því að vekja margar spurningar og jafnvel andúð vegna þeirrar ögrunar og andhverfu við margt í boðskap Jesú Krists sem fólgin er í sögu Bess.

Hliðstæður við texta trúarrits: Píslarsagan í guðspjöllunum og sagan af hórseku konunni í Jh 8:1-11
Persónur úr trúarritum: Drottinn, Guð, Jesús Kristur, María Magdalena
Guðfræðistef: dauði, blessun, fórn, fyrirgefning, helvíti, himinninn, iðrun, kraftaverk, kærleikur, lögmál, miskunn, orð Guðs, synd, syndari, trú, upprisa, von
Siðfræðistef: boðorð, eigingirni, góðmennska, hórdómur, kúgun, lygi, misnotkun, samviskubit, útskúfun, örlæti
Trúarbrögð: kristni, kalvínstrúarmenn
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kirkjuklukkur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, guðsþjónusta, heilög kvöldmáltíð, jarðarför,sálmasöngur
Trúarleg reynsla: bænasvar, lækning