Leikstjórn: Umberto Lenzi
Handrit: Umberto Lenzi
Leikarar: Andy J. Forest, Carlo Mucari, Paki Valente, Francesca Ferre, Zdenko Jelcic, Jeff Connors, Vuk Mannic, Zlatko Martincevic og Drago Pavlic
Upprunaland: Ítalía og Júgóslavía
Ár: 1986
Lengd: 88mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var sennilega 1.66:1)
Einkunn: 1
Ágrip af söguþræði:
Árið 1944 neyðast þrír strokufangar úr þýzkum fangabúðum (bandarískur hermaður, Ítali og austurrískur liðhlaupi) til að ganga til liðs við skæruliða kommúnista í fjalllendi Bosníu-Herzegóvaníu í Júgóslavíu og sprengja þar mikilvæga brú. Þegar þeir síðan frétta af tólf gimsteinaprýddum altarisbikurum í nunnuklaustri, ákveða þeir að freista þess að ræna þeim og stinga af yfir á yfirráðasvæði bandamanna á Suður-Ítalíu.
Almennt um myndina:
Afar slök stríðsmynd eftir einn af verstu kvikmyndagerðarmönnum Ítala, Umberto Lenzi, sem meðal annars gerði kalkúnana Eaten Alive! (1980) og Nightmare City (1980).
Helstu átakaatriðin eru svo á skjön við allt annað í kvikmyndinni að allt eins má búast við því að Lenzi hafi hnupplað þeim úr einhverjum öðrum stríðsmyndum í sparnaðarskyni. Júgóslavneska stríðsmyndin Partizanska eskadrila (Hajrudin Krvavac: 1979) hefur t.d. verið nefnd í því sambandi. Lenzi hefur allavega gert annað eins áður en í mannætuhrollvekjunni Eaten Alive! mátti finna ofbeldisatriði úr að minnsta kosti þremur öðrum slíkum kvikmyndum.
Enda þótt söguhetjurnar séu allar enskumælandi, tala þýzku hermennirnir sem betur fer þýzku, jafnvel þótt orðaforði þeirra sé að mestu bundinn við orðið ‚Schnell!‘ sem jafnan er hrópað á hvern sem er af hvaða tilefni sem er.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ein af aðalsöguhetjunum er stúlka úr hópi júgóslavnesku skæruliðanna en hún er sögð hafa yfirgefið nunnuklaustur til að berjast með löndum sínum gegn innrásarher þýzkra nazista. Hún samþykkir að fara með strokufangana í klaustrið þar sem gimsteinaprýddu altarisbikararnir eru geymdir og taka nunnurnar þeim fagnandi. Virðast þær líta svo á að gestirnir hafi verið sendir af Guði til að bjarga helgigripunum þeirra undan Þjóðverjunum og ákveða því að treysta þeim fyrir þeim. Við það tækifæri spyr ein nunnan bandaríska hermanninn hvort það sé annars ekki rétt að allir Bandaríkjamenn séu djöfladýrkendur eins og Rússar, en því andmælir hann með þeim orðum að landar sínir séu allir fylgismenn Marteins Lúthers (sem eru að sjálfsögðu miklar ýkjur). Nunnan hristir þá bara höfuðið með glott á vör og segir Lúther verri en Stalín.
Persónur úr trúarritum: heilagur Basil, postuli, dýrlingur, Marteinn Lúther
Guðfræðistef: nærvera Guðs, guðlast
Siðfræðistef: hvít lygi, manndráp, njósnir, liðhlaup, aftaka
Trúarbrögð: kristindómur, rétttrúnaðarkirkjan (serbneska), djöfladýrkun
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: moska, kirkja, klaustur, kapella
Trúarleg tákn: kirkjukross, kross á hálsmeni, veggkross, kirkjuklukka, altari, altarisbikar, íkon, altarismynd, maríumynd
Trúarleg embætti: prestur, nunna
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, signun, kirkjuklukknahringing, messa, fyrirbæn, þakkargjörð