Kvikmyndir

Bridget Jones Diary

Bridget Jones Diary

Leikstjórn: Sharon Maguire
Handrit: Helen Fielding
Leikarar: Renée Zellweger, Colin Firth, Hugh Grant
Upprunaland: Bretland
Ár: 2001
Lengd: 97mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0243155
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Bridget Jones er ung kona, þrjátíu og þriggja ára gömul, einhleyp. Eftir erfið jól og áramót byrjar hún að halda dagbók samfara því sem hún reynir að umbylta lífi sínu. Myndin greinir frá rúmu ári í lífi hennar, frá því hvernig henni gengur að halda nýársheitin, frá körlunum í lífi hennar o.s.frv.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Bridget Jones’s Diary fjallar einkum um tvennt: Samskipti kynjanna og sjálfsmynd kvenna á þrítugsaldri. Myndin er byggð á samnefndri metsölubók Helen Fielding.

Það er margt athyglisvert í þessari mynd. Þegar horft er á hana með trúarstef í huga er eitt sem sérstaklega er vert að staldra við. Í gegnum myndina alla er Bridget að glíma við eigin sjálfsmynd. Hún notar dagbókina sem hún heldur sem einhvers konar spegil, þar sem allt það markverðasta er skrifað niður. Í hennar tilfelli rata inn í bókina ákveðnir ytri þættir (þ.e.a.s. þyngd, tóbaksneysla, áfengisneysla) ásamt upplýsingum um samskipti hennar við mennina í lífi sínu. Í gegnum þetta geta lesandi bókarinnar og áhorfandi myndarinnar fylgst með lífi Bridgetar. Þetta segir okkur ýmislegt um hvað það er sem skiptir hana mestu máli.

Eitt sem er athyglisvert í þessu sambandi er tilbrigði við ástarjátningu, sem kemur fyrst frá Darcy og síðar frá Bridget – með svipuðu orðalagi og alveg sama inntaki. Eftir að Bridget hefur, einu sinni enn, hálfpartinn orðið sér til skammar í fjölskylduboði kemur Darcy til hennar við útidyrnar. Hann telur upp galla hennar frá sínu sjónarhorni og bætir svo við eitthvað á þessa leið: „En það skiptir engu máli, mér líkar vel við þig eins og þú ert.“ Hér eru lykilorðin: Eins og þú ert. Nokkurn veginn það sama segir Bridget nokkru síðar: Mér líkar við þig eins og þú ert. Þessi orð, sem þau segja hvort við annað, eru nokkurs konar ástarjátningar þótt þau fái ekki þann búning í mynd eða bók. Og þau marka jafnframt ákveðin skil í samskiptum þeirra hvort við annað. Það sem er athyglisvert við þetta er hvernig þessi orð endurspegla í raun hina kristnu hugmynd um kærleikann, t.d. eins og hún er útlögð í hinni lúthersku kenningu um réttlætingu af trú.

Einn þáttur í þeirri kenningu er sú hugmynd að Guð elski manninn (karla jafnt sem konur) eins og hann er. Maðurinn tekur við þessum kærleika Guðs í trú. Ást Guðs tekur sér bólfestu í manninum og ber síðan ávöxt í lífi hans með því að gera honum kleift að elska aðra menn eins og þeir eru, með öllum þeirra kostum og göllum. Þegar þetta er haft í huga þá má líta á myndina sem einhvers konar hliðstæðu (analogíu) við hugmyndina um kærleika Guðs til mannanna og kærleikann manna á milli. Og hún getur hjálpað við skilning á því hvernig þessi kærleikur getur haft áhrif á samskipti manna. Út frá þessu sjónarhorni má skoða þessa dagbókarmynd sem hugleiðingu um það hvaða áhrif skilyrðislaus kærleikur og virðing getur haft á samskipti fólks.

Það rétt að taka fram að það er ekki skoðun þess sem þetta ritar að það hafi verið ætlun höfundar myndarinnar að endursegja þessa kristnu hugmynd. Hann hefur satt best að segja ekki forsendur til að leggja á það mat. Engu að síður er hér um athyglisverða tilviljun að ræða, sem kann að endurspegla bakgrunn þess menningarsamfélags sem við lifum í.

En þar fyrir utan er myndin afar skemmtileg hugleiðing um samskipti kynjanna og e.t.v. dæmisaga um það hvernig stundum er betra að lifa bara lífinu eins og maður er, sáttur og sæll við allt og alla.

Sögulegar persónur: hórur
Guðfræðistef: kærleikur, réttlæting af trú
Siðfræðistef: samskipti kynjanna, framhjáhald, lygi, svik