Kvikmyndir

Buddy Goes West

Leikstjórn: Michele Lupo
Handrit: Sergio Donati og Gene Luotto
Leikarar: Bud Spencer, Amidou Ben Messaoud, Riccardo Pizzuti, Piero Trombetta, Carlo Reali, Sara Franchetti, Andrea Heuer, Joe Bugner og Tom Felleghy
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1981
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0082835

Ágrip af söguþræði:
Bófinn Brói er skapvondur, tillitslaus og skítugur máthákur, sem skýtur byssurnar úr höndum andstæðinga sinna án þess að særa þá og lemur þá síðan sundur og saman ýmist með berum hnefunum eða steikarpönnum. Engu að síður sannfærast bæjarbúarnir í Yucca um að hann sé velmenntaður læknir þegar þeir finna læknistösku í fórum hans, sem hann hafði rænt ásamt félaga sínum Indíánanum Cocoa í þeirri trú að hún væri peningataska. Þar sem launin freista Bróa, tekur hann boði bæjarbúanna um að gerast læknir þeirra, en lendir brátt upp á kannt við skúrkinn Colorado Slim og menn hans, sem trufla hann ítrekað við borðhaldið.

Almennt um myndina:
Þeir eru ekki margir spaghettí-vestrarnir, sem eru alveg lausir við manndráp, en hér koma hnefahöggin í staðinn og er enginn skortur á þeim. Gamansemin hittir þó sjaldnast í mark enda er hún að mestu sótt í barsmíðar með steikarpönnum og heitum straujárnum. Það eina jákvæða við þessi ósköp er kvikmyndatónlist Ennios Morricone, sem er í flestum tilfellum alveg viðunandi.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Helstu trúarstefin varða kraftaverk, en bæjarbúunum í Yucca verður tíðrætt um þau í tengslum við skottulækningar Bróa, sem læknar meðal annars háaldraðan rúmliggjandi mann með torkennilegri blöndu, sem hann mallaði í snarheitum úr fáránlegustu efnum á staðnum. Einnig er töluvert minnst á bænahald og fer einn bóndinn t.d. með upphafsorð Faðirvorsins (Mt 6:9) þegar hann beinir riffli að Bróa. Sömuleiðis líkir lögreglustjórinn sér við hirði, sem þurfi að gæta sauða sinna. (Sbr. t.d. Jh. 21:16.)

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 6:9
Hliðstæður við texta trúarrits: Jh 21:16
Persónur úr trúarritum: guðir
Guðfræðistef: náð Guðs, blessun Guðs, forsjón, kraftaverk
Siðfræðistef: ofbeldi
Trúarbrögð: Indíánatrúarbrögð
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, þakkarbæn, sálmasöngur