Leikstjórn: Tinto Brass
Handrit: Gore Vidal
Leikarar: Malcolm McDowell, Teresa Ann Savoy, Helen Mirren, Peter O’Toole, John Steiner, John Gielgud, Guido Mannari, Leopoldo Trieste, Paolo Bonacelli, Mirella D’Angelo, Anneka Di Lorenzo, Giancarlo Badessi, Lori Wagner og Patrick Allen
Upprunaland: Ítalía og Bandaríkin
Ár: 1979
Lengd: 156mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 1
Ágrip af söguþræði:
Eftir að Tíberíus keisari Rómarveldis missir vitið er hann myrtur í hvílu sinni árið 37 e.Kr. Við tekur Calígúla sem reynist jafnvel enn grimmari og brjálaðri en forveri hans.
Almennt um myndina:
Þetta er sennilega ein af alræmdustu kvikmyndum sögunnar enda var hún bönnuð víða um heim, m.a. hér á landi með tilkomu myndbandsins snemma á níunda áratugnum. Á mörgu gekk við gerð myndarinnar og vildu sumir aðstandendur hennar að lokum ekki kannast við hana og sumir aðalleikaranna héldu því fram að þeir hefðu verið plataðir til þátttöku. Leikstjórinn Tinto Brass neitaði að samþykkja nokkur gróf subbuatriði sem framleiðandinn, útgefandi karlatímaritsins Penthouse, vildi endilega bæta við myndina og lét því ekki skrá sig fyrir lengstu útgáfu hennar.
Til eru ótal útgáfur af myndinni en það sem hér er til umfjöllunar mun vera lengsta fáanlega útgáfa hennar á DVD og er hún oftast sögð sú óstytta. Mun lengri útgáfa mun þó hafa verið frumsýnd í Cannes á sínum tíma, sem Internet Movie Data Base segir vera 210 mín. að lengd.
Leonard Maltin segir myndina ekki alvonda, í henni séu að finna sex mínútur af góðu efni, og gefur henni *½ fyrir vikið. Myndin er vissulega ekki alvond en það góða við hana varir lengur en í sex mínútur.
Malcolm McDowell sem sérhæft hefur sig í hlutverkum alls kyns brjálæðinga er fullkominn sem Calígúla og er raunar erfitt að ímynda sér manninn öðru vísi. Helen Mirren, John Gielgud og Leopoldo Trieste eru allt eðalleikarar sem gera sitt til að bæta myndina. Sama gildir um Peter O’Toole þrátt fyrir að hann virki allan tímann drukkinn í hlutverki hins brjálaða Tíberíusar keisara, en hann átti við alvarlegan áfengisvanda að stríða á þessum árum. Teresa Ann Savoy er sömuleiðis góð sem systir og ástkona Calígúla en John Steiner er algjörlega sér á plani sem rómverskur æðsti prestur eða eitthvað svoleiðis. Þau Savoy og Steinir léku einnig í stríðsmyndinni Salon Kitty, sem Tinto Brass gerði þrem árum áður.
Ýmislegt í kvikmyndatökunni er flott svo og notkun tónlistarinnar sem sótt er í heimsþekkt tónverk eftir Aram Khachaturyan og Sergei Prokofiev.
Gallar myndarinnar eru þó margir og slæmir. Mikil áhersla er lögð á hversu siðspillt hin heiðna Rómarborg var á valdatíma Calígúla á árunum 37-41 e.Kr. og er sýnt frá hverri svallveislunni á fætur annarri. Sviðsetningin er þó bæði tilgerðarleg og ósannfærandi og þáttur flestra aukaleikaranna slæmur. Það er eins og reynt sé að tilgreina hvaða afbrigðileika sem er og er fólk jafnvel sýnt gera þarfir sínar hvert á annað. Flest af þessum atriðum, sem allavega í sumum tilfellum eru ekkert annað en klám, eru verulega slæm og hefði myndin hreinlega skánað ef þeim hefði verið sleppt. Þannig komst myndin nokkrum sinnum niður í núllið en Malcolm McDowell og helstu samstarfsleikurum hans tókst samt ávallt að hækka hana á ný í eina stjörnu með frammistöðu sinni.
Ljóst er að myndin er ekki við allra hæfi og síst af öllu við hæfi barna. Hvort ástæða hafi verið til að banna hana með öllu í þessari útgáfu eins og íslenska kvikmyndaeftirlitið gerði er hins vegar umdeilanlegt. Í Danmörku er myndin aðeins bönnuð innan 15 ára, en þaðan er DVD diskurinn fenginn sem hér er til umfjöllunar. Sömu útgáfu myndarinnar er einnig að finna í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin byrjar á tilvitnun í orð Jesú Krists, sem verða að teljast viðeigandi fyrir Calígúla, en þeir voru nokkurn veginn samtíðarmenn: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en fyrirgjöra sálu sinni?“ (Mk 8:36.)
Sagnfræðingurinn Will Durant lýsir því í bókinni Rómarveldi: Fyrra bindi (Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík, 1963) hversu vitskertur Calígúla reyndist á valdastóli og segir: „… enginn dauðlegur maður getur verið í senn almáttugur og heill á geði.“ (Bls. 307.) Hann krafðist skilyrðislausrar undirgefni ráðsöldunganna og neyddi þá jafnvel til að þakka fyrir þá náð að fá að kyssa fætur hans. Hann lét bæta egypsku Ísístrúnni við opinber trúarbrögð Rómverja og krafðist þess að vera tilbeðinn sem guð að hætti Faraóanna, en hann sagði sig vera jafntignan Júpíter sjálfum. Strax í upphafi myndarinnar lýsir Calígúla því yfir að hann sé Guð og hefur stór orð um almætti sitt og óskeikulleika. Grimmd hans er hins vegar taumlaus og lætur hann jafnvel limlesta og drepa nánustu stuðningsmenn sína og vini sér til einskærrar skemmtunar. Aðeins Júlíu Drussillu systur sína virðist hann elska en hjá henni sefur hann reglulega.
Calígúla var þó ekki orðinn þrítugur þegar hermenn úr varliði hans drápu hann, konu hans og unga dóttur. „Segir Díó að þann dag hafi Calígúla mátt reyna að hann var ekki guð,“ segir í bók Durants. (Bls. 309.)
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mk 8:36
Persónur úr trúarritum: guðir, Ísis, Venus, Júpíter
Sögulegar persónur: Caligula
Guðfræðistef: eilíft líf, almætti, guðdómur, dauðinn, handanveruleikinn, réttlæti, fórnarlamb, fyrirboði
Siðfræðistef: ofsóknarbrjálæði, manndráp, girnd, klám, kynlíf, samkynhneigð, nauðgun, sjálfsvíg, pyntingar, svik, siðblinda, grimmd, svall, dauðarefsing, aftaka, sifjaspell, samsæri
Trúarleg tákn: snákur, altari, líkneski
Trúarleg embætti: æðsti prestur
Trúarlegt atferli og siðir: bölbæn, útför, bænheyrsla, fórn