Kvikmyndir

Cemetery Without Crosses

Leikstjórn: Robert Hossein
Handrit: Dario Argento, Claude Desailly og Robert Hossein
Leikarar: Robert Hossein, Michèle Mercier, Philippe Baronnet, Anne-Marie Balin, Sergio Leone, Serge Marquand, Charly Bravo, Guido Lollobrigida (undir nafninu Lee Burton), Michel Lemoine, Ivano Staccioli, Benito Stefanelli, Cris Huerta, Ángel Álvarez, Daniele Vargas og Pierre Collet
Upprunaland: Ítalía og Frakkland
Ár: 1968
Lengd: 87mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0063740
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Rogers-fjölskyldan svífst einskis til að ná undir sig lendum nágranna sinna, en hús þeirra eru brennd til að hrekkja þá á brott og þeir hengdir sem malda í móinn. Ekkja eins fórnalambsins ræður einsetumann í yfirgefnum smábæ til að ræna dóttur ættföðurins svo að hún geti neytt hann til að veita eiginmanni sínum kristilega greftrun fyrir allra augum í vígðum kirkjugarði.

Almennt um myndina:
Að mörgu leyti fínn spaghettí-vestri enda þótt hann verði eilítið langdreginn á köflum. Innblásturinn er augljóslega sóttur í bandaríska vestrann Johnny Guitar frá árinu 1954 en úrvinnslan er engu að síður nokkuð flott. Samtölunum er stillt í hóf en tónlistin í anda Rodrigos er þeim mun fyrirferðarmeiri. Sviðsmyndin er ennfremur drungaleg, ekki síst draugabær einsetumannsins þar sem allt er í niðurníðslu, og litirnir eru daufir og grámyglulegir en þó með örlitlum rauðleitum blæ.

Franski kvikmyndagerðarmaðurinn Robert Hossein leikstýrir ekki aðeins myndinni heldur er hann sömuleiðis einn af handritshöfundunum auk þess að leika sjálfur aðalhlutverkið, en hann leikur einsetumanninn og stórskyttuna Manuel með raunarsvip þess manns, sem fyrir löngu er búinn að fá nóg af vonsku heimsins.

Athygli vekur að annar af meðhöfundum Hosseins að handritinu er Dario Argento, sem skömmu síðar slóg í gegn með gulmyndahrollvekjunni The Birds with the Crystal Plumage, en hann byrjaði feril sinn sem handritshöfundur að ýmsum spaghettí-vestrum og stríðsmyndum. Argento er sennilega einn af vinsælustu kvikmyndagerðarmönnum Ítalíu og er einn af fáum, sem enn senda reglulega frá sér gular kvikmyndir.

Sömuleiðis er þáttur Sergios Leone, konungs spaghettí-vestranna, áhugaverður, en hann leikur hóteleiganda, sem er áhugasamari um dagblöðin sín en viðskiptavinina. Þær eru sárafáar kvikmyndirnar, sem Leone lék í, og var hann ávallt í smáum aukahlutverkum. Sagt er að eina ástæðan fyrir hlut Leones í myndinni hafi verið vinargreiði við Hossein, sem honum var mjög annt um. Leone var hins vegar svo brugðið yfir frammistöðu sinni þegar hann sá loks myndina að hann hét því að leika aldrei framar í kvikmynd, enda hefðu hrossin staðið sig betur en hann. Við það stóð hann líka að því undanskildu að hann lék miðasala í einni af sínum eigin myndum mörgum árum síðar, Once Upon a Time in America árið 1983.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eins og í svo mörgum spaghettí-vestrum er hefndin aðalþema kvikmyndarinnar. Í flestum þeirra er byssukúlan látin leysa vandann en í þessu tilfelli gerir hefndin aðeins illt verra enda fer allt á versta veg fyrir sögupersónunum. Sá sem hefnir sín með ofbeldi á það nefnilega alltaf á hættu að gera um leið á hlut einhverra saklausra, sem fyrir vikið grípa einnig til vopna. Að því leyti er þessi spaghettí-vestri í anda Íslendingasagnanna.

Þegar ekkjan leitar fyrst eftir aðstoð frá einsetumanninum, sem löngu áður hafði verið unnusti hennar, segir hann henni, að hefndin muni ekki leysa neinn vanda. Hún fær hann samt á sitt band með því að óska eftir því að Rogers-fjölskyldan verði neydd til að veita eiginmanninum kristilega greftrun fyrir allra augum í vígðum kirkjugarði, en líki hans hafði verið komið fyrir í ómerktum grafreit fjarri alfaraleið. Það er grafreiturinn, sem titill myndarinnar, Cemetery Without Crosses, vísar til. Titillinn á íslensku myndbandsútgáfunni, Legsteinn án kross, er sennilega tilkominn vegna danska káputitilsins Gravsten uden kors, en hann er að sjálfsögðu rangur.

Um miðbik myndarinnar nær ekkjan sínu fram þegar Rogers-fjölskyldan samþykkir að sjá um greftrun eiginmannsins gegn því að fá dótturina aftur heila heim. Við gröfina flytur prestur síðan útfararræðu þar sem hann vitnar fram og aftur í Biblíuna. Orðalagið í íslenska textanum ber þess merki að þýðandinn hefur ekki haft fyrir því að fletta upp í íslensku biblíuþýðingunni, en textinn frá myndbandsútgáfunni fylgir hér á eftir með þá ritningartexta innan sviga, sem vísað er í: „Allt hold er gras (Jes 40:6) og allir menn munu deyja. Lít í náð til oss og ger þjóð þína að lífsins börnum. Þvo burt syndir vorar. (Sbr. Sl 51:4.) Óvinir þínir munu falla fyrir framan opna arma Herrans. Allir sem þig hata munu að engu verða. Jörðin mun gleypa þá og eldurinn eyða þeim. (4M 26:10.) Líkami minn hrópar: Hreinsa oss af syndum vorum. Hjarta mitt opnar sig. Hlustaðu og færðu mér sálarbót. Frelsaðu mig. Lát sál mína fljúga til þín og finna eilífan frið. Því ritað stendur: Allt hefur sína stund og sinn tíma. Tíma til að fæðast og tíma til að deyja. (Pd 3:1-2.) Lát svo vera. Hégómi, segir predikarinn, allt er hégómi. (Pd 12:8.)“

Er hefndin nokkuð annað en hégómi?

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 4M 26:10, Pd 3:1-2, Pd 12:8, Jes 40:6
Hliðstæður við texta trúarrits: Sl 51:4
Siðfræðistef: hefnd, aftaka, manndráp, nauðgun
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross á leiði, kross á kirkjuturni
Trúarlegt atferli og siðir: signing, kirkjuklukknahringing, borðbæn, fyrirbæn fyrir sálum látinna, biblíulestur, predikun, greftrun, útför