Kvikmyndir

Chino

Leikstjórn: John Sturges
Handrit: Massimo De Rita, Clair Huffaker, Arduino Maiuri og Rafael J. Salvia, byggt á skáldsögunni The Valdez Horses eftir Lee Hoffman
Leikarar: Charles Bronson, Jill Ireland, Marcel Bozzuffi, Vincent Van Patten, Fausto Tozzi, Ettore Manni, Corrado Gaipa, José Nieto, Diana Lorys og Conchita Muñoz
Upprunaland: Ítalía, Spánn og Frakkland
Ár: 1973
Lengd: 96mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var sennilega 1.85:1)
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Illa þokkaður en góðhjartaður hrossabóndi af mexíkönskum indíánaættum skýtur skjólshúsi yfir flökkupilt og kennir honum hestamennsku. Þegar hrossabóndinn vill svo kvænast systur nágranna síns, fær hann sveitungana upp á móti sér og reynir bróðirinn hvað sem er til að hrekja hann á brott.

Almennt um myndina:
Langdreginn og frekar leiðinlegur spaghettí-vestri en mestum sýningartímanum er varið í hross úti í óbyggðum. Myndin er samt nokkuð vel leikin og er Charles Bronson viðkunnanlegur sem fámáli hrossabóndinn sem verður ástfanginn af ríkri systur nágranna síns, en hún er leikin af eiginkonu hans, Jill Ireland. Sagt er að þau eigi hjónametið í fjölda þeirra kvikmynda, sem þau léku saman í, en þær urðu alls 16.

Leikstjórnin er í höndunum á virtum bandarískum kvikmyndagerðarmanni, John Sturges, sem gerði meðal annars vestrann The Magnificent Seven (1960) og stríðsmyndirnar The Great Escape (1963) og The Eagle Has Landed (1976). Ekki er þó hægt að segja að spaghettí-vestrinn Chino eigi mikið sameiginlegt með þessum stórmyndum, enda ódýr, með löturhægri atburðarrás og algjörlega laus við allan hetjuskap. Svo upplýst sé um hvernig myndin endar, þá gefst hrossabóndinn upp fyrir ofurefli skúrkanna og sættir sig við að fá ekki stúlkuna sem hann elskar. Hann sendir flökkupiltinn burt, hrekur hrossinn út í óbyggðir, brennir kofann sinn og forðar sér síðan á brott, en eftir standa skúrkarnir sigri hrósandi. Satt að segja eru þessi frumlegu málalok eitt það besta við myndina og er nokkuð skondið að sjá gamla harðhausaleikarann Charles Bronson í hlutverki aðalsöguhetju sem gefst með öllu upp.

Eitt það versta við myndina er væmin amerísk sveitartónlist De Angelis bræðranna Guidos og Maurizios sem ábyrgir eru fyrir mörgum af verstu ballöðum ítalskra kvikmyndasögu, en þeir sömdu einnig tónlistina við spaghettí-vestrann Keoma … The Violent Breed (Enzo G. Castellari: 1976).

Myndgæðin á DVD diskinum frá Moon Stone í Bretlandi eru slæm. Öðru hverju birtist nafnið Delta niðri í hægra horninu á skjánum, sem gæti þýtt að eintakið af myndinni sé fengið frá sjónvarpsstöð.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin gerist að hluta til yfir jólin og taka hrossabóndinn og flökkupilturinn þátt í hátíðarhaldinu. Þegar í ljós kemur að flökkupilturinn hefur ekki hugmynd um um hvað jólin snúast, segir hrossabóndinn honum frá Maríu mey, Jósef og Jesúbarninu.

Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 1:18-25, Lk 2:1-7
Persónur úr trúarritum: María mey, Jósef, Jesús Kristur
Guðfræðistef: kærleikur, hjónaband
Siðfræðistef: gestrisni, ofbeldi, pyntingar, manndráp, undirgefni, uppgjöf
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: jólatré, dýrlingsstytta, maríustytta, altari
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: helgiganga, signun
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól