Leikstjórn: Michael Haneke
Handrit: Michael Haneke
Leikarar: Juliette Binoche, Thierry Neuvic, Josef Bierbichler, Alexandre Hamidi, Ona Lu Yenke, Djibril Kouyaté, Luminita Gheorghiu, Crenguta Hariton, Bob Nicolaescu, Bruno Todeschini, Paulus Manker, Didier Flamand, Walid Afkir, Maurice Bénichou
Upprunaland: Frakland, Þýskaland, Rúmenía
Ár: 2000
Lengd: 118mín.
Hlutföll: www.us.imdb.com/Title?0216625
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Ungur piltur yfirgefur föður sinn og búgarð hans og fer til Parísar til að búa hjá bróður sínum sem er ljósmyndari. Hann er fjarverandi við myndatökur í stríðinu í Kosóvó. Pilturinn hittir mágkonu sína, Önnu (Juliette Binoche), á götu skammt frá heimili þeirra og biður um að fá að gista.
Hann kemst í nokkurt uppnám við að frétta af fjarveru bróður síns og þegar þau skilja heldur hann áfram eftir götunni og hendir pappírspoka með hálfétinni köku í fangið á konu sem situr á gangstéttinni og betlar. Það verður til þess að ungur Arabi ræðst á hann og sakar hann um að hafa sýnt konunni lítilsvirðingu.
Mágkonan Anna kemst líka í uppnám vegna atviksins en einnig vegna brotthlaups hans úr sveitinni frá föður sínum og það hefur áhrif á samband hennar við eiginmanninn þegar hann snýr til baka frá Kosóvó. Atvikið á götunni hefur áhrif á líf margra einstaklinga og myndin fylgir þeim síðan í myndbrotum sem raðast smám saman saman eins og mósaík.
Almennt um myndina:
Michael Haneke hefur gert nokkrar kvikmyndir. Líklega er mynd hans Funny Games frá 1997 sú þekktasta og þá hefur nýjasta mynda hans La Pianiste (2001) vakið snörp viðbrögð. Báðar þessar myndir hafa verið sýndar hér á landi.
Í Code inconnu: Récit incomplete de divers voyages er Haneke að fást við margmenningarsamfélagið eins og það birtist í mörgum evrópskum borgum nútímans. Í upphafsatriði myndarinnar á götu í París vill pilturinn fá að komast inn í íbúð bróður síns og mágkonu en til þess þarf hann að þekkja lykilnúmerið sem mágkonan lætur hann hafa. Haneke notar þetta sem myndlíkingu um samskiptavandamál á öllum sviðum margmenningarsamfélagsins.
Þau birtast í tjáskiptum og samtölum milli kynslóða, sambúðarfólks og í fjölskyldum, en einnig milli stétta, þjóðfélagshópa, nágranna og kynþátta. Það er eins og rétt lykilorð góðra samskipta sé óþekkt. Haneke tekst vel að túlka þetta með því að byggja myndina upp á ótal stuttum myndbrotum eða þáttum (45 talsins) og á milli þeirra er klippt á afgerandi hátt með stuttri eyðu („black out“) sem oft kemur næsta óvænt, jafnvel í miðri setningu. Þótt þessar snöggu klippingar kunni að verka óþægilegar árétta þær umfjöllunarefni myndarinnar býsna vel.
Myndin er síðan römmuð inn af atriðum með heyrnarlausum börnum, eins konar formála og eftirmála, sem leggur enn frekar áherslu samskiptavandann ásamt öllum þeim tungumálum sem koma fyrir í myndinni, en þau eru sjö talsins (franska, malinka, rúmenska, þýska, enska, arabíska og táknmál).
Eitt af því sem einkennir myndina eru nokkuð löng óklippt atriði en nánast allir þættir hennar eru byggðir þannig upp að um samfellda óklippta töku er að ræða. Upphafsatriðið hefur vakið athygli en það er flókið götuatriði í París sem tekur hátt í tíu mínútur og er það tekið upp í einu skoti. Mun það hafa kostað tveggja daga æfingar.
Þessi óklipptu atriði verða gjarnan til þess að áhorfandinn fær það á tilfinninguna að hann sé á staðnum og horfi á það sem gerist. Gott dæmi um það er atriði sem gerist í neðanjarðarlest þegar Anna er áreitt af ungum pilti. Bent hefur verið á að þarna endurspeglist reynsla Michaels Haneke sem leikstjóri í leikhúsi.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Margmenningarsamfélagið og þeir árekstrar sem það felur í sér er áhugavert umfjöllunarefni. Þar eru trúarstefin ekki langt undan vegna þess að ólík trúarbrögð fólks eru oft tengd þeim árekstrum sem verða. Í myndinni Code inconnu: Récit incomplete de divers voyages eru það þó einkum kristni og islam sem koma við sögu og árekstrarnir spretta jafnframt af ýmsu fleiru en ólíkum trúarbrögðum.
Athyglisverðasta trúarvísunin í myndinni er til sögunnar um Babelstruninn í 1M 11:1-9 þegar Guð ruglaði tungumáli mannanna. Michael Haneke hefur bent á þau tengsl í umfjöllun um mynd sína þótt hann vilji ekki gera þau að einu meginþema hennar. Því er þó ekki að neita að tjáskiptavandinn er rauður þráður í myndinni og innrömmunin með heyrnarlausu börnunum sem tjá sig með látbragði og táknmáli áréttar þetta, einkum upphafið þegar geta skal til um merkingu látbraðgsins.
Þannig verður myndin af ruglingi tungumálsins í Babel táknmynd þeirra tjáskiptavandamála sem ólík tungumál, menning, trúarbrögð, stétt, kynslóðabil, kynþáttur og ótal margt fleira veldur.
Ýmis siðferðisstef koma við sögu í myndinni, einkum tengd kynþáttahatri, stöðu innflytjenda, tortryggni og samskiptum fólks almennt, en einnig misrétti, stríði, misþyrmingum á börnum og hvenær fólki ber að skipta sér að slíku, o.fl.
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 11:1-9
Persónur úr trúarritum: Allah, Jesús Kristur, þrenningin
Guðfræðistef: eilíft líf, guðleg refsing, guðsríki
Siðfræðistef: kynþáttahatur, misrétti, ofbeldi gagnvart börnum, stríð
Trúarbrögð: islam, kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkjugarður
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, jarðarför, signing