Kvikmyndir

Commando Leopard

Leikstjórn: Antonio Margheriti [undir nafninu Anthony M. Dawson]
Handrit: Roy Nelson
Leikarar: Lewis Collins, Klaus Kinski, Manfred Lehmann, John Steiner, Christina Donadio, Subas Herrera, Rene Abadeza, Thomas Danneberg og Michael James
Upprunaland: Ítalía og Þýzkaland
Ár: 1985
Lengd: 99mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0089436
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Rómversk-kaþólskur prestur gengur til liðs við hersveitir skæruliða og málaliða, sem berjast gegn samviskulausum harðstjóra í ótilgreindu Suður-Ameríkuríki.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ósköp hefðbundin harðhausamynd að hætti Ítala. Skæruliðarnir og málaliðarnir eru nánast jafn samviskulausir og hermenn einræðisherrans því að þeir hika ekki við að myrða saklausa borgara og henda sjúku fólki út úr sjúkrahúsi með harðri hendi.Góðmennska eins sjúkrahússprestsins (Manfred Lehmann) hefur samt nokkur áhrif á þá og fá þeir hann til að hlynna að sárum þeirra. Þar sem prestar komast hvert sem er, reyna skæruliðarnir brátt að fá hann til að sprengja í loft upp helstu olíubirgðastöð einræðisherrans til að gera heri hans óvíga.Presturinn hikar þó lengi vel, enda ósáttur við að blanda kirkjunni í stjórnmálaátök, en sannfærist að lokum um, að valdhafarnir séu svo grimmir, að kristileg skylda sé að koma þeim sem fyrst frá. Þannig hjálpar presturinn skæruliðunum að leiða landsmennina til ‚fyrirheitna landsins‘ (eins og það er orðað), en lætur sjálfur lífið í kirkju sinni fyrir hendi helsta böðuls einræðisstjórnarinnar, sem að sjálfsögðu er leikinn af Klaus Kinski.Sjálfsagt er full langt gengið að tala um prestinn sem mósegerving enda þótt finna megi vissar samsvaranir milli þeirra. Eins og Móse reynir presturinn í fyrstu að skjóta sér undan köllun sinni að frelsa landsmenn sína úr þrældóminum en lætur síðan lífið skömmu áður en til fyrirheitna landsins er komið. Að þessu sinni er frelsunarverkið hins vegar fólgið í skæruhernaði og fyrirheitna landið er fyrst og fremst skárra stjórnarfar.Þess má að lokum geta að á baksíðu íslensku myndbandsútgáfunnar er feitletruð aðvörun til áhorfenda um að þeir gætu farið á taugum við að horfa á myndina.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Heb 11:9
Hliðstæður við texta trúarrits: 2M 3-4; 5M 34
Persónur úr trúarritum: verndarengill, djöfullinn, heilagur andi
Guðfræðistef: guðleysi, helvíti, synd, fyrirheitna landið, fyrirgefning
Siðfræðistef: manndráp, ljúgvitni
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, klaustur
Trúarleg tákn: kross, maríustytta, messuvín, altari
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, messa