Leikstjórn: Armando Crispino
Handrit: Dario Argento, Stefano Strucchi, Armando Crispino og Lucio Battistrada, byggt á sögu eftir Don Martin, Artur Brauner og Menahem Golan
Leikarar: Lee Van Cleef, Jack Kelly, Giampiero Albertini, Marino Masé, Götz George, Pier Paolo Capponi, Ivano Staccioli, Marilù Tolo, Akim Berg, Joachim Fuchsberger, Heinz Reincke, Helmut Schmid, Otto Stern, Pier Luigi Anchisi og Giovanni Scratuglia
Upprunaland: Ítalía og Þýzkaland
Ár: 1968
Lengd: 114mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Skömmu fyrir innrás bandamanna í Marokkó og Alsír í október 1942 er fámenn landgönguliðasveit ítalsk ættaðra Bandaríkjamanna send til Líbýu til að hernema þar mikilvæga vin. Til að villa um fyrir óvininum eru bandarísku landgönguliðarnir klæddir einkennisbúningum ítalska hersins, en þeim ber að gæta vinarinnar til að auðvelda framsókn herja bandamanna inn í landið þegar þar að kemur. Landgönguliðarnir gugna hins vegar á því að taka alla ítölsku hermennina af lífi, sem gætt höfðu vinarinnar, en í upphafi aðgerðarinnar hafði þeim verið bannað að taka óþarfa áhættu á borð við þá að taka þar fanga. Brátt kemur í ljós að fjölmenn þýzk skriðdrekaherdeild er staðsett skammt frá vininni, en ítölsku stríðsfangarnir skipuleggja þegar flótta til að aðvara samherja sína.
Almennt um myndina:
Blóðug og bölsýn ítölsk-þýzk stríðsmynd sem gerist í síðari heimsstyrjöldinni og dregur upp neikvæða mynd af hernaðarbrölti allra stríðsaðilanna. Framsetningin er samt önnur en tíðkast hefur í flestum stríðsmyndum sem gerast á þessu tímabili. Bandamenn eru þar sýndir sem stríðsglæpamenn sem klæðast einkennisbúningum andstæðinganna til að villa um fyrir þeim og mega ekki taka fanga þótt óvinahermennirnir gefist upp. Þjóðverjarnir og Ítalirnir eru hins vegar flestir sýndir sem heiðvirðir og skylduræknir hermenn sem eru bara svo ólánsamir að hafa verið uppi á þessum ófríðartímum. Helsti löstur sumra þeirra er að þeir skuli kaupa sér þjónustu vændiskonu sem búsett er hjá vininni, en lítið er minnst á hugmyndafræði nazismans eða fasismans.
Í síðari heimsstyrjöldinni voru dæmi um að þýzkir hermenn klæddust einkennisbúningum bandamanna til að villa um fyrir þeim og var tekið hart á slíkum einstaklingum þegar upp um þá komst. Bandaríkjamenn tóku t.d. allmarga þýzka hermenn af lífi í Ardennasókninni, sem uppvísir höfðu orðið að slíkum blekkingum, enda flokkaðar sem alvarlegir stríðsglæpir.
Þrátt fyrir þetta voru gerðar fjölmargar stríðsmyndir á sjöunda áratugnum þar sem söguhetjurnar úr herjum bandamanna voru látnar ná markmiðum sínum með slíkum stríðsglæpum og lék þá sjaldnast vafi á því að þær væru raunverulegar hetjur og óvinirnir (þ.e. þýzkir nazistar) flestir ósviknir skúrkar. Dæmi um vinsælar stríðsmyndir í þeim anda eru The Guns of Navarone (J. Lee Thompson: 1961) og Where Eagles Dare (Brian G. Hutton: 1968), sem báðar voru byggðar á samnefndum skáldsögum eftir Alistair MacLean. Í stríðsmyndinni The Dirty Dozen (Robert Aldrich: 1967) senda bandamenn hins vegar dauðadæmda stríðsglæpamenn úr eigin röðum í sjálfsmorðsleiðangur inn á yfirráðasvæði Þjóðverja í Frakklandi til að valda þar sem mestum usla. Stríðsglæpamennirnir eru þar andhetjur sem verða náðaðir takist þeim að komast lífs af frá aðgerðinni, en allir klæðast þeir þýzkum einkennisbúningum og eiga að myrða alla Þjóðverja, sem þeir komast í tæri við, hvort sem um hermenn eða óbreytta borgara er að ræða. Helsti munurinn á þessum stríðsmyndum og Commandos er því sá að í þeirri síðar nefndu er mun jákvæðari mynd dregin upp af liðsmönnum öxulveldanna og persónur þeirra gerðar mannlegri. Slíkt ætti þó ekki að koma á óvart í ljósi þess að myndin skuli vera gerð af Ítölum og Þjóðverjum.
Leikstjórnin er í höndum Armandos Crispino, sem er sennilega þekktastur fyrir gulu myndirnar The Dead Are Alive (1972) og Autopsy (1973). Meðal handritshöfunda er gulmyndameistarinn og splatterhausinn Dario Argento sem gerði meðal annars kvikmyndirnar The Bird with the Crystal Plumage (1969), Deep Red (1975) og Suspiria (1977), en hann starfaði lengi sem handritshöfundur áður en hann gerðist sjálfur kvikmyndagerðarmaður. Handritið er meðal annars sagt byggt á smásögu eftir gyðinginn Menahem Golan, sem átti eftir að verða afkastamikill ruslmyndaframleiðandi í Bandaríkjunum á níunda áratugnum. Leikararnir eru flestir traustir og vel þekktir úr aukahlutverkum í fjölmörgum stríðsmyndum frá þessum árum. Lee Van Cleef er þó sérstaklega flottur sem harðsnúinn liðþjálfi bandarísku landgönguliðanna sem tapar smám saman glórunni í öllu blóðbaðinu.
Því miður er kvikmyndin í ömurlegri ‚pan and scan‘ útgáfu á íslenska myndbandinu en sú sama hálfa útgáfa var gefin út fyrir nokkrum árum síðan á DVD í Bandaríkjunum. Vonandi verður þessi eðalmynd gefin út sem fyrst á DVD í réttum breiðtjaldshlutföllum og góðum myndgæðum, en gamla DVD útgáfan er fyrir löngu orðin uppseld.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Bölsýn mynd er dregin upp af hernaðarátökunum og áhersla lögð á tilgangsleysi þeirra, ekki síst þegar í ljós kemur að herir bandamanna munu ekki ná til vinarinnar í tíma og herstjórnin ákveður að breyta hernaðaraðgerðunum.
Einn af foringjum landgönguliðanna kallar Bandaríkin „fyrirheitna landið sem flýtur í mjólk og hunangi“ þegar hann talar við liðsmenn sína á flugleiðinni til vinarinnar, þar sem þeir lenda síðan í fallhlífum í skjóli myrkurs. „Fyrirheitna landið sem flýtur í mjólk og hunangi“ er orðalag sem notað er víða í Gamla testamentinu um landið sem Guð gaf Ísraelsmönnum, en það er fyrst nefnt á nafn með þessum hætti í II. Mós. 3:8. Við sama tækifæri nefnir foringinn rósarý talnaband rómversk-kaþólsku kirkjunnar sem dæmi um mikilvæga hluti, sem sé að finna í fyrirheitna landinu, en það er þýtt sem „rósirnar hennar mömmu“ í íslensku myndbandsútgáfunni sem er hér til umfjöllunar.
Ólíkt Ítölum eru Þjóðverjar sagðir smekkmenn á vín í myndinni. Af því tilefni kvartar einn herforingi þeirra undan slæmum vínsmekk Ítala og segir að ekki sé hægt að treysta þeim í þeim efnum þar sem þeim hætti til að veita vatni sem víni. Fyrir vikið ákveður hann að sækja vínflöskuna sjálfur. Auðvitað er hér ekki um beina vísun að ræða í frásöguna af því þegar Jesús umbreytti vatni í vín, en samlíkingin á vatni og víni er engu að síður í anda hennar.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 2M 3:8
Hliðstæður við texta trúarrits: Jh 2:1-10
Guðfræðistef: Guð, helvíti
Siðfræðistef: stríð, vændi, manndráp, stríðsglæpur, blekking
Trúarbrögð: islam, kristindómur
Trúarleg tákn: talnaband
Trúarlegt atferli og siðir: skriftir