Leikstjórn: Woody Allen
Handrit: Woody Allen
Leikarar: Woody Allen, Martin Landau, Alan Alda, Claire Bloom, Mia Farrow, Jerry Orbach, Stephanie Roth, Anjelica Huston, Sam Waterston, Gregg Edelman, George J. Manos, Martin S. Bergmann og Joel Y. Zion
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1989
Lengd: 107mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Í myndinni eru sagðar tvær sögur. Önnur greinir frá Judah Rosenthal, farsælum augnlækni sem fagnar sextugsafmæli umlukinn vinum og fjölskyldu. Hann er vinsæll og ber ekki á öðru en að hann lifi sæmilega hnökralausu lífi. Judah á hins vegar leyndarmál. Um tveggja ára skeið hefur hann átt hjákonu, Dolores, sem nú hótar að segja eiginkonu hans frá ævintýri þeirra og um leið að svipta hann því sem honum er dýrmætast, fjölskyldu og virðingu vinanna. Eftir ítrekaðar hótanir hennar leitar hann ráða hjá Jack bróður sínum sem er glæpamaður og vanur að leysa vandamál af ýmsum toga. Bróðirinn leggur til að hann láti myrða hjákonuna og fellst Judah að endingu á þá „lausn“ á vanda sínum.
Á sama tíma er sögð sagan af kvikmyndagerðarmanninum Clifford Stern sem hingað til hefur aðeins fengist við metnaðarfullar heimildarmyndir á eigin áhugasviði sem illu heilli hafa hvorki aflað honum frægðar, frama, né fjár. Woody Allen leikur Clifford og er hann dæmigerð persóna í myndum meistarans með lánleysið lekandi með síðum en hnyttin tilsvör hefur hann á reiðum höndum og kaldhæðinn er hann með eindæmum. Hann lifir í ástlausu hjónabandi með konu sinni, hverrar bróðir, Lester, er einnig kvikmyndagerðarmaður en á sviði afþreyingar og ólíkt Clifford nýtur hann mikillar velgengni og frægðar. Clifford fyrirlítur auðvitað máginn og tekur út fyrir þær stundir sem hann þarf að verja með honum. Í greiðaskyni við systur sína felur Lester Clifford hins vegar að gera heimildarmynd um sjálfan sig. Verkefnið tekur hann að sér vegna launanna, en að öðru leyti vekur það honum enga ánægju. Við gerð myndarinnar hittir hann svo Halley Reed sem hann fellur fyrir og reynir allt hvað hann getur að vinna ástir hennar þótt sjálfur sé hann kvæntur.
Til viðbótar eru svo nokkrar minni sögur í bakgrunninum. Leiftur úr fortíðinni bregður fyrir þegar Júda veltir fyrir sér glæpnum. Hann rifjar upp trúarlegar umræður á heimili sínu um ódæðisverk og mögulegar afleiðingar þeirra. Þá eru jafnan sýndar svipmyndir úr heimildarmynd sem Clifford er að vinna um merkan heimspeking og hugsjónamann sem verður eins og andstæða Lesters sem hann er knúinn að fjalla um. Hugsuður þessi veltir fyrir sér ráðgátum lífsins, þ.m.t. siðferðisins og tilvist æðri máttarvalda og virðist hafa sannleikann í hendi sér. Loks er ein af eftirtekarverðari smápersónum myndarinnar rabbíni nokkur sem er í raun tengiliður þessara tveggja manna. Hann er vinur og einnig sjúklingur Judah og svili Cliffords Það er í brúðkaupsveislu dóttur hans undir blálok myndarinnar sem þeir tveir hittast fyrst.
Þá eru afleiðingar verka þeirra ljósar áhorfendum. Judah er hvergi orðaður við glæpinn og hann er að mestu laus við samviskukvölina sem plagaði hann fyrstu vikurnar. Hann nýtur þess sem aldrei fyrr að njóta samvista með ástríkri eiginkonu sinni, efnilegum börnum og vinahópi. Stöku sinnum fær hann eins og snert af samviskubiti en það líður hjá, enda hefur hann komist að því að gildi lífsins felast í þessum smáu atriðum, „sólin skín inn um gluggann á morgnanna og konan brosir til manns“, eins og hann kemst að orði. Glæpurinn hafði alls engar afleiðingar þar sem ekki komst upp um hann. Þetta segir hann Clifford eins og hugmynd að kvikmyndahandriti þar sem þeir setjast niður eitt andartak í boðinu, kynna sig hvor fyrir öðrum og spjalla saman smá stund.
Clifford hefur ekki verið eins lánsamur. Konan er að yfirgefa hann og er komin með nýjan mann upp á arminn, kvikmyndin sem hann gerði um máginn snerist upp í botnlausa hæðni og var hann vitanlega rekinn fyrir vikið Loks misheppnaðist tilraunin til framhjáhalds hrapalega – og það sem verra var, Halley féll fyrir mágnum og er með honum í veislunni.
Þá hefur heimspekingurinn sem var fyrirmynd Cliffords og uppspretta æðri hugsjóna stytt sér aldur. Hann henti sér út um gluggann á vinnustofu sinni og skildi eftir miða með þessum orðum: „Fór út um gluggann.“
Almennt um myndina:
Mynd þessi er afar góð og er hvergi veikan bletta að finna í öflugum hópi leikara. Leikstjórinn sýnir hér sínar bestu hliðar en yrkisefnið er honum heldur ekki framandi – tilvistarvandi nútímamannsins með þeim ótal flækjum sem honum geta fylgt.
Einnig má segja að andi átrúnaðargoðs Woody Allens, Ingmar Bergman, svífi hér yfir vötnum. Samræður sögupersónunnar við fólk sem ekki er á staðnum af holdi og blóði skipa veigamikinn sess í frásögninni að ógleymdum trúar- og tilvistarefanum sem skipar stóran sess í myndinni. Kvikmyndatökumaður Bergmans, Sven Nykvist, er á bak við myndavélina í kvikmynd þessari og koma því litir og sjónarhorn bergmanaðdáendum kunnuglega fyrir sjónir.
Titill myndarinnar er jafnframt sóttur í nafn skáldsögunnar Glæpur og refsing, en Allen segir á einum stað að hann hafi með mynd þessari viljað svara Dostojevskí og benda á það hversu léttvægir svæsnustu glæpir geta verið fyrir þann sem þá drýgir, jafnvel þótt sá eigi fram að því flekklausan feril að baki.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin greinir því frá glæpum og minni afbrotum – eins og nafn hennar gefur til kynna – mannsmorði og tilraun til framhjáhalds. Hvort tveggja er siðlaust og ljóst má vera að höfundi liggur mjög á hjarta að greina frá afleiðingum þeirra.
Upphafsatriði myndarinnar gerist í sextugsafmæli Judah. Í lokaræðu hófsins, er hann þakkar lofsyrði ræðumanna í sinn garð, segir hann frá trúarlegu uppeldi sínu. Faðir hans ítrekaði við hann í bernsku að augu Guðs væru alltaf á honum. Hann segist oft hafa velt fyrir sér þessu augnaráði Guðs og kveðst þess fullviss að raunin sé einmitt sú að augu Guðs mæni á hann. Hann gantast svo með það að líklega sé þarna komin ástæðan fyrir því að hann gerðist augnlæknir.
Myndin fjallar um þetta trúarlega fyrirbæri, augu Guðs, sem allt sjá. Þarna er á ferðinni ákveðin myndlíking fyrir réttlæti Guðs – hið fullkomna kosmíska samhengi sem tryggir að hver uppskeri svo sem hann sáir. Þetta er vitanlega lögmálið, kjarni gyðingdómsins. Ákveðinn holdgerfingur þessa hlutverks Guðs í myndinni er rabbíninn, sem er eins og fyrr getur, tengiliður tveggja aðalpersóna myndarinnar. Er hann situr á læknastofunni segir Judah honum frá hjákonunni og þeim vandræðum sem hún er að baka honum. Rabbíninn ráðleggur honum að koma hreint fram og segja sjálfur konu sinni frá áður en ástkonan gerir það. Það gerir hann hins vegar ekki og í kjölfar ódæðisverksins á hann í miklu sálarstríði. Samræður hans við samvisku sína eru þá sýndar eins og hann væri að ræða við rabbínann – t.a.m. þegar hann er andvaka eina nóttina fer hann fram og eru þeir þá skyndilega farnir að ræða saman.
Þessi samræða birtist raunar í mörgum útgáfum í sögunni. Eitt sinn er hann reynir að sættast við samviskuna heimsækir Judah bernskuslóðir sínar, húsið sem hann ólst upp í. Er hann gengur inn í stofuna finnst honum allt í einu sem hann sjái borðhald frá því þegar hann var barn og sér hann fyrir sér samræður við matarborðið. Fólk er að ræða trúmál og faðir hans heldur á lofti hugmyndinni um auga Guðs. Því andmælir ein frænkan og segir ekkert slíkt vera fyrir hendi – sagan sé aðeins skrifuð af sigurvegara hverjar rimmu og nefnir sem dæmi að ef nasistar hefðu sigrað á sínum tíma myndi enginn ræða voðaverk þeirra í dag. Afleiðingin er með öðrum orðum aðeins háð því að upp um mann verði komist. Flestir matargestanna taka undir þessa skoðun og þegar Judah tekur skyndilega sjálfur að ræða við þetta fólk úr fortíðinni, segir sérhver sín sjónarmið og fær hann að velja milli þeirra. Sjónarmið guðleysisins verða þar greinilega sterkari.
Samræður hans við Jack bróður sinn (þarna ræða Júda og Jakob saman!) fletta að sama skapi ofan af siðferði hans. Í fyrstu er hann snýr sér til hans lætur hann bróðurinn sjálfan vekja máls á þeim möguleika að menn hans „sjái um“ hjákonuna. Hann þykist hneykslaður á þessu en að endingu fellst hann á þessa leið svo sem ljóst mátti vera því að annar tilgangur hefur vart búið að baki því að kalla til bróðurinn í upphafi. Í samræðum bræðranna mætir yfirborðsleg siðferðiskennd læknisins ísköldum veruleika glæpamannsins og hið síðara verður þar ofan á enda fylgir sannfæring þeirri afstöðu ólíkt því sem raunin er með hugsjónir Judah. Að endingu segir Judah: „Guð er munaður sem ég hef ekki efni á.“
Á sama tíma glímir Clifford við sömu spurningar þótt í allt öðru samhengi sé. Hann er með höfuðið fullt af hugsjónum, gefur lítið fyrir veraldargæðin en leitar þeim mun meir að einhverri æðri eða dýpri merkingu með tilverunni. Heimspekingurinn sem heimildarmynd hans á að fjalla um tjáir sig um þessi mál af og til og er Clifford þá jafnan sýndur andaktugur og algjörlega sammála. Andstæða vitringsins, mágurinn, er hins vegar yfirborðsmennskan uppmáluð, kvennaflagari og pópúlaristi sem baðar sig upp úr þeim ljóma sem fylgir honum hvert sem hann fer. Speki hans er öllu frábrugðin þeirri sem átrúnaðargoð Cliffords ryður upp úr sér. Hann talar í tómum klisjum: „Ef það bognar er það fyndið, en ekki ef það brotnar!“, og „Húmor er harmleikur plús tími! Þegar Lincoln var skotinn var það ekkert fyndið, en gefum því nokkur ár og þá getum við hlegið að því.“
Lífsviska vitringsins verður svo skyndilega að engu þegar hann bindur skjótan endi á líf sitt. Sá verknaður gefur til kynna að lífið virðist að lokum merkingarlaust. Kaldhæðislegt sem það er, þá reynast frasarnir í mágnum hins vegar hitta í mark þegar litið er til þess hversu sagan þróast. Það sem aðeins bognar en ekki brotnar leiðir ekki af sér neitt illt. Ef aðeins samviskan plagar í ákveðinn tíma, en glæpurinn kemst ekki upp, þá er það ekkert mál. Að sama skapi er hægt að hlægja að öllum harmi ef nógu mikill tími líður. Þessi boðskapur virðist liggja höfundi á hjarta. Og andstætt stórum svörum við stórum spurningum eru það litlu atriðin sem að endingu gefa lífinu gildi, sólin skín inn um gluggann að morgni og lífið heldur áfram sinn vanagang.
Augnsjúkdómur rabbínans kallast á við hugmyndina um augu Guðs. Í byrjun myndarinnar er hann með afkáralega stór og þykk gleraugu sem árétta að hann á við augnsjúkdóm að stríða. Í lokaatriðinu er þessi tenging afar skýr. Eftir að Judah hefur sagt Clifford frá þessum „mögulega“ glæp, lýst því fyrir honum hversu einfalt það sé að komast upp með slík ódæðisverk og að engu guðlegu réttlæti sé til að heilsa – er klippt á rabbínann þar sem hann reynir með herkjum að dansa við dóttur sína, brúðurina. Nú er hann ekki lengur með flöskubotnsgleraugun, heldur svört sólgleraugu. Hann er blindur. Augu Guðs hvíla ekki á okkur.
Þetta er því saga háleitra hugsjóna, sígilds hugðarefnis sem menn hafa glímt við frá örófi alda. Þekkt er samlíking Platóns á tveimur mönnum og afdrifum þeirra í upphafi Ríkisins. Annar er fullkomlega siðlaus en hinn lifir samkvæmt ýtrustu siðferðiskröfum. Sá fyrrnefndi lifir í vellystingum, hann nýtur vinsælda og öryggis og enginn veit hvern mann hann hefur að geyma. Sá síðarnefndi verður blóraböggull alls kyns ódáða og endar vinasnauður, hungraður og allslaus í fangelsi. Platón segir hlutskipti hins síðara eftirsóknarverðara og gengur stór hluti heimspeki hans út frá því að færa rök fyrir því. Woody Allen fæst við sömu spurningar en kemst að öndverðri niðurstöðu.
Í sjónvarpsviðtali sagði hann að með þessari mynd hefði hann lýst yfir guðleysi sínu. Hann sagði boðskapinn vera á þá leið að Guð aðhefðist ekkert þótt voðaverk væru framin. Hann stykki ekki ofan af himnum þegar menn væru á leið með að komast upp með ódæði sín. Nei, lífið héldi bara áfram og eini mælikvarðinn á rétt og rangt væru þær afleiðingar sem af hlytust. Guð væri því ekki til og réttlæti hans orðin tóm.
Í umræðum um þessa afstöðu leikstjórans létu guðfræðingar hugann reika til hliðstæðs en öllu afdrifaríkara uppgjörs við réttlæti Guðs, nefnilega „Turnreynslu“ Lúthers árið 1515. Lúther komst að sama skapi að þeirri niðurstöðu að réttlæti Guðs í hinum hefðbundna skilningi orðsins væri ómögulegt. Hann sagði það ýmist steypa manninum í botnlausan hyl samviskukvalar eða þá að það léti hann afneita samvisku sinni og rödd hennar. Lúther varpaði hins vegar ekki af sér trúnni sem kunnugt er heldur henti hann kenningum kirkjunnar um verkaréttlætingu á glæ og í stað hennar boðaði hann hugmyndir sínar um réttlætingu af trúnni einni saman.
Woody Allen varpar frá sér lögmálshyggjunni og lýsir sig guðlausan. En rétt eins og margur merkur guðleysinginn (Halldór Laxness, Steinn Steinarr og auðvitað átrúnaðargoðið Bergman svo einhverjir séu nefndir) er djúp tilverunnar honum hugstætt og þeim veruleika sem skynsemin fær ekki sundurgreint er ekki varpað fyrir róða. Fljótlega eftir þessa mynd gerði hann myndina Shadows and Fog sem fjallar um atburði í fjölleikahúsi og í téðu viðtali sagðist hann einmitt vera heillaður af ritúalinu, skuggunum og því sem menn geta skynjað en ekki endilega skilið. Sú hlið á hugarheimi leikstjórans er þó efni í aðra umfjöllun.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 2M 19.1-25
Persónur úr trúarritum: Guð, Móse
Sögulegar persónur: Hitler, Mussolini
Guðfræðistef: verðskuldun, synd, miskunn Guðs, eilif refsing, dómur Guðs, samviska, Boðorðin, þjáning, trúaruppeldi, trúhneigð, umhyggja Guðs, guðfræði, almætti Guðs, bæn, Biblían, Gamla testamentið, söfnuður, gyðingar, nasismi
Siðfræðistef: sjálfsvíg, öfund, tilvistarspeki, siðleysi, framhjáhald, blekking, sjálfsvíg, vísdómur, morð, þjófnaður, fjárdráttur, sannleikur, réttæti, lygi, girnd, siðfræði, samkynhneigð, ranglæti, illska, óhefðbundnar lækningar
Trúarbrögð: gyðingdómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Sýnagóga
Trúarleg tákn: altarismynd, sjöarma ljósastika
Trúarleg embætti: rabbíni, dýrlingur, hjónaband
Trúarlegt atferli og siðir: hjónavígsla, predikun, ritningarlestur
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: brúðkaup, seder
Trúarleg reynsla: kraftaverk