Leikstjórn: Joaquin Luis Romero Marchent
Handrit: Santiago Moncada og Joaquin Romero Hernández
Leikarar: Emma Cohen, Robert Hundar, Albert Dalbés, Antonio Iranzo, Manuel Tejada, Simón Arriaga, Xan Das Bolas og Eduardo Calvo
Upprunaland: Spánn
Ár: 1971
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0066939
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Sjö stórhættulegir fangar, sem dæmdir hafa verið í ævilanga þrælkunarvinnu fyrir margvíslega hroðalega glæpi, eru ferjaðir á hestvagni yfir óbyggðir vestursins í nýtt fangelsi, fjötraðir þungum hlekkjum og í fylgd fámennrar hersveitar. Á leiðinni gerir bófaflokkur þeim fyrirsát í þeirri trú að um gullfarm sé að ræða, enda fangarnir búnir að afplána fyrstu ár þrælkunarinnar í afskekktri gullnámu. Fangarnir komast hins vegar allir lífs af úr fyrirsátinni ásamt liðsforingjanum og dóttur hans, en þau neyðast til að halda ferðinni áfram fótgangandi yfir snæviþakin fjallahéruðin þar sem hestvagninn eyðilagðist og hestarnir drápust. Ferðin reynist þeim þó ekki aðeins stórhættuleg heldur missa liðsforinginn og dóttirin stjórnina á föngunum, þegar þeir átta sig á því að hlekkirnir eru gerðir úr gulli.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Bölsýnn spaghettí-vestri með splatter ívafi. Þegar kvikmyndin var frumsýnd í Bandaríkjunum á sínum tíma var sýningargestunum meira að segja boðið upp á sérstakar ,hræðslugrímur’, sem þeir gátu brugðið fyrir andlitið í verstu ofbeldisatriðunum.
Helsti kostur vestrans er nokkuð frumlegt handrit þó svo að það sé ekki með öllu gallalaust. Enska talsetningin skemmir jafnframt fyrir á stöku stað, en slíkt er algengt vandamál evrópskra kvikmynda, þar sem frummálið er annað. Versti galli kvikmyndarinnar er þó klippingarnar, sem verða að teljast víða stórundarlegar, ekki síst þegar myndskotin eru fryst á fáránlegustu augnablikum meðan tónlistin og jafnvel samtölin halda áfram.
Það eina sem mögulega er hægt að bendla við trúmál í þessum spaghettí-vestra er afturganga, sem ofsækir einn fangann á flóttanum, en hún reynist að lokum skynvilla geðsjúks manns. Að öðru leyti eru helstu þemu kvikmyndarinnar fyrst og fremst siðfræðileg.
Guðfræðistef: afturganga
Siðfræðistef: manndráp, nauðgun, ágirnd, hefnd