Leikstjórn: Zack Snyder
Handrit: James Gunn, byggt á handriti George A. Romero
Leikarar: Sarah Polley, Ving Rhames, Jake Weber, Mekhi Phifer, Ty Burrell, Michael Kelly, Kevin Zegers, Michael Barry, Lindy Booth, Jayne Eastwood, Boyd Banks, Inna Korobkina, R.D. Reid, Kim Poirier, Matt Frewer, Justin Louis, Hannah Lochner, Bruce Bohne
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2004
Lengd: 97mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Furðuleg plága herjar á Bandaríkin þegar dauðir rísa úr gröfum sínum með óseðjandi löngun í mannakjöt. Plágan breiðist út eins og eldur í sinu og verða þeir fáu sem enn eru lifandi að halda hópinn og vinna saman til að halda lífi. Hópurinn leitar hælis í verslunarmiðstöð en svo virðist sem hinir dauðu hafi ennþá ómeðvitaða þrá til að skella sér í kringluna og því verður virki þeirra stöðugt óöruggara. Ekki bætir það ástandið þegar þau veita lifandi fólki hæli í verslunarmiðstöðinni en sumir þeirra eru þegar sýktir af veirunni og breytast því brátt í uppvakninga.
Almennt um myndina:
Hrollvekjan Dawn of the Dead er endurgerð á samnefndri mynd George A. Romero, en hann og Lucio Fulci eru taldir konungar uppvakningamynda. Ég sá frumgerðina sem unglingur og hafði hún mjög sterk áhrif á mig. Ég átti t.d. lengi vel erfitt með að fara í lyftur eftir að ég sá myndina. Í minningunni er mynd George A. Romero betri en þessi endurgerð, en ég þyrfti líklega að sjá hana aftur til að meta það almennilega.
Það er margt flott við þessa endurgerð. Förðunin er glæsileg og kvikmyndatakan oft vel útfærð. Ég var sérstaklega hrifinn af ofanskotunum. Þá komu stafrænu tökurnar inn á milli ágætlega út og juku á ringulreiðina og óttann. Tæknivinnslan ber þess merki að markhópurinn er nútímaunglingar sem eru vanir tónlistarmyndböndum og örum klippingum. Það fór alls ekkert í taugarnar á mér og fannst mér það í raun koma nokkuð vel út. Hins vegar hreif lokaatriðið mig ekki en það er stolið úr The Blair Witch Project (Daniel Myrick og Eduardo Sánchez: 1999) og því ekki ýkja frumlegt. Þá er einnig að finna misheppnaða og ósmekklega vísun í Alien (Ridley Scott: 1979) í myndinni.
Þetta er fyrsta mynd Zacks Snyder en mikið hefur verið deilt um ágæti þess að hann skuli hafa látið uppvakningana hlaupa. Persónulega var ég alveg sáttur við það. Þótt stirðbusalegir uppvakningar virki stundum þá eru þeir oftar en ekki frekar kjánalegir (sjá td. Zombie Lake eftir Jean Rollin: 1981). Þá deila menn hart um hvort endurgerðin sé betri en frumgerðin en svo virðist vera að kynslóðirnar skiptist í tvennt, þeir eldri kunna betur við Romero á meðan yngri kynslóðin fagnar útgáfu Snyders.
Gallar myndarinnar eru fyrst og fremst ósmekkleg atriði (sjá umfjöllun um siðferði og trúarstef), sundurlaus framvinda og persónusköpun.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Strax við upphaf myndarinnar er uppvakningin sett í trúarlegt samhengi en upphafslag myndarinnar er „The Man Comes Around“ af plötunni American IV eftir Johnny Cash. Lagið byrjar á upplestri úr Opinberunarbókinni: „og ég heyrði eina af verunum fjórum segja eins og með þrumuraust: Kom! Og ég sá, og sjá: Hvítur hestur.“ (Opb 6:1-2.) Lagið endar einnig á upplestri úr sama kafla: „… heyrði ég rödd fjórðu verunnar, er sagði: Kom! Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum.“
Annars er (sunginn) texti lagsins svona:
There’s a man going around taking names and he decides
Who to free and who to blame every body won’t be treated
Quite the same there will be a golden ladder reaching down
When the man comes around
The hairs on your arm will stand up at the terror in each
Sip and each sup will you partake of that last offered cup
Or disappear into the potter’s ground
When the man comes around
Viðlag:
Hear the trumpets hear the pipers one hundred million angels singing
Multitudes are marching to a big kettledrum
Voices calling and voices crying
Some are born and some are dying
Its alpha and omegas kingdom come
And the whirlwind is in the thorn trees
The virgins are all trimming their wicks
The whirlwind is in the thorn trees
It’s hard for thee to kick against the pricks
Till Armageddon no shalam no shalom
Then the father hen will call his chicken’s home
The wise man will bow down before the thorn and at his feet
They will cast the golden crowns
When the man comes around
Whoever is unjust let him be unjust still
Whoever is righteous let him be righteous still
Whoever is filthy let him be filthy still
Listen to the words long written down
When the man comes around
Viðlag:
Hear the trumpets hear the pipers one hundred million angels singing
Multitudes are marching to a big kettledrum
Voices calling and voices crying
Some are born and some are dying
Its alpha and omegas kingdom come
And the whirlwind is in the thorn trees
The virgins are all trimming their wicks
The whirlwind is in the thorn trees
It’s hard for thee to kick against the pricks
In measured hundred weight and penny pound
When the man comes around
Það er líklega engin tilviljun að þetta lag er valið sem upphafslag myndarinnar en á meðan það er spilað eru uppvakningar sýndir tæta í sig fólk og leggja jörðina undir sig. Það má því draga þá ályktun að reiðmennirnir fjórir séu uppvakningarnir í myndinni, komnir til að refsa íbúum jarðar. Það vekur hins vegar athygli að guðlegur máttur, fyrirgefning eða miskunn er hvergi sjáandi. Heimsslitin virðast ekki boða komu guðsríkisins (eins og segir í Faðirvorinu) heldur endalok mannkynsins. Þá er hvergi gefið í skyn að þetta sé þrengingartímabil eða fæðingarhríðir guðsríkisins. Þetta sést hvað best á lokaatriði myndarinnar. Það er engin von!
Þessi tengsl við hin kristnu heimsslit eru áréttuð í myndinni þegar sjónvarpsprédikari segir að fólk hafi oft velt því fyrir sér hvernig Guð snerti það. Nú hafi það hins vegar fengið svarið. „Þegar það er ekki pláss í helvíti munu hinir dauðu ráfa um jörðina.“ Reyndar er frekar ótrúverðugt að nokkur kristinn prédikari myndi láta svona út úr sér og ekki veit ég hvaðan hann hefur þessa tilvitnun, en látið er liggja að því að verið sé að vitna í Biblíuna. Mér er ókunnugt um að þessi ritningarstaður eigi heima þar eða að nokkurn ritningarstað megi túlka svona.
Reyndar er þetta ekki það eina í myndinni sem stingur í augu. Á milli þess sem uppvakningar eru sýndir ráðast á lifandi fólk er sýnt skot af múslimum á bæn. Það er mér gjörsamlega hulin ráðgáta hvers vegna þetta tvennt er tengt saman. Annað hvort er verið að gefa í skyn að múslimar séu að biðja til Guðs vegna plágunnar (reyndar kemur hvergi fram að plágan herji á lönd múslima, þótt það sé ekki útilokað) eða að verið sé að segja að múslimar séu uppvakningar nútímans, mesta ógnin við bandarískt þjóðfélag í dag. Slík yfirlýsing væri að sjálfsögðu í meira lagi vafasöm
Eitt fyrirferðamesta stef myndarinnar er einstaklingshyggjan. Næturvörðurinn CJ er besta dæmið en honum er sama um líf annarra svo lengi sem hann heldur lífi. Hann segir meira að segja á einum stað í myndinni: „Ég mun drepa ykkur öll til að halda lífi.“ Brátt átta þeir fáu sem enn halda líf sig á því að eina leið þeirra út úr þessu er að halda hópinn og veita hvort öðru hjálparhönd. CJ umturnast svo gjörsamlega að hann fórnar meira að segja lífi sínu í lokin.
Í myndinni birtist glögglega byssudýrkun Bandaríkjamanna. Þeir sem eiga vopn og kunna að nota þau eru ekki aðeins hólpnir heldur einnig miklar hetjur. Þessi dýrkun tekur á sig frekar smekklausa mynd þegar tvær aðalpersónurnar skemmta sér við það að skjóta niður fólk sem líkist þekktum einstaklingum, eins og Burt Reynolds og Jay Leno. Í þeirra augum er þetta hin mesta skemmtun. Hugur minn leitaði hins vegar til feðganna í Bandaríkjunum sem skutu saklaust fólk úr bíl fyrir nokkrum árum, að því er virðist sér til skemmtunar. Reyndar er testosteron-karlmennskan í myndinni frekar þreytandi, en ofur-tilfinningarleysið og töffaramennskan lekur af flestum karlmönnunum. Hún er hins vegar í ágætu samræmi við byssudýrkunina.
Lögreglumaðurinn og testosteron-karlmaðurinn Kenneth er sá eini í hópi aðalpersóna sem er sagður mjög trúaður en hann virðist hafa lítinn áhuga á að deila trú sinni með öðrum. Þegar hann er spurður hvort hann trúi og hvort þetta séu heimsslit bregst hann önugur við og segist ekki nenna að hlusta á eitthvað iðrunarbull og segir í hæðnistón við viðmælandann að fara með nokkrar maríubænir og þá muni hann vera hólpinn.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 28:12; 1Kor 7:20; Opb 6:1-8; Maríubæn
Persónur úr trúarritum: uppvakningar, englar
Guðfræðistef: heimsslit, trú, iðrun, dauði
Siðfræðistef: hjónalíf, eiginhagsmunasemi, einstaklingshyggja, svik, lygi, hjálpsemi, líknardráp, sjálfsfórn, morð, ofbeldi
Trúarbrögð: islam, kristin trú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: moska, kirkja, Nýja Jerúsalem
Trúarleg tákn: kross
Trúarleg embætti: sjónvarpsprédikari, prestur
Trúarlegt atferli og siðir: bænagjörð, blessun
Trúarleg reynsla: afturhvarf