Leikstjórn: Krzysztof Kieslowski
Handrit: Krzysztof Kieslowski og Krzysztof Piesiewicz
Leikarar: Jerzy Stuhr og Zbigniew Zamachowski
Upprunaland: Pólland
Ár: 1988
Lengd: 56mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0094983
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Bræðurnir Arthur og Jerzy missa föður sinn og erfa eftir hann frímerkjasafn sem metið er háu verði. Í fyrstu eru tilfinningar bræðranna neikvæðar gagnvart frímerkjasafninu en fljótlega tekur söfnunaráráttan og græðgin yfirhöndina og þeir ákveða að fullkomna safn föður síns enn frekar. Sú ákvörðun reynir á þolrif og vinskap bræðranna.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eins og nafn myndarinnar Dekalog X ber með sér þá er hún túlkun Kieslowskis á tíunda boðorðinu. Í 2M 20:17 hljómar tíunda boðorðið þannig: ,,Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.” Innihald þess boðorðs passar ekki við söguþráð myndarinnar en aftur á móti passar tíunda boðorðið í 5M 5:21 betur en það er svona: ,,Ekki ágirnast hús náunga þíns, ekki land hans, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náunga þinn á.”Það er græðgin sem stýrir persónum Dekalog X. Nánast allar persónur tíunda þáttarins gerast sekar um græðgi í myndinni. Aðferðirnar sem þær beita til þess að eignast það sem þær sækjast eftir eða verja það sem þær eiga gerir myndina fyndna og skemmtilega. Þegar fjalla á um mjög alvarlega hluti þá fer oft vel að beita kímni.Tengslin við tíunda boðorðið í Biblíunni koma fram í því að nánast allar þær lykilpersónur sem koma fyrir í myndinni ásælast frímerkin. Græðgin er sterk í samfélagi manna og undirrót margra illra verka.Það er óbein tilvitnun í Boðorðin tíu í byrjun og lok myndarinnar þegar Arthur syngur texta þar sem hann hvetur fólk að brjóta boðorðin. Textinn hljómar svona í lauslegri þýðingu: ,,Drepið! Drepið! Drepið! Drepið! Drýgið hór, ágirnist hluti alla vikuna. Lemjið móður, föður og systur ykkar, lemjið hina ungu og stelið á sunnudegi. Vegna þess að allt tilheyrir þér.” Boðskapurinn er óhuggnanlegur en um leið eftirtektar verður. Einstaklingur sem upplifir sjálfan sig í heimi fullan af myrkri, lögleysu og óheiðarleika og vill breyta rétt ætti að byrja á því að huga að sjálfum sér. Valið er hans því að enginn annar getur valið fyrir hann.
Framhald umræðunnar á umræðutorginu
Hliðstæður við texta trúarrits: 2M 20:1-17
Siðfræðistef: græðgi mannsins
Trúarlegt atferli og siðir: jarðarför