Kvikmyndir

Django the Bastard

Leikstjórn: Sergio Garrone
Handrit: Sergio Garrone og Antonio de Teffé
Leikarar: Anthony Steffen, Paolo Gozlino, Lu Kanante, Rada Rassimov, Furio Meniconi, Teodoro Corra, Riccardo Garrone, Carlo Gaddi, Lucia Bonez og Tomas Rudi
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1969
Lengd: 95mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0064240
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:

Undir lok borgarastyrjaldarinnar í Bandaríkjunum sjá nokkrir foringjar innan hers Suðurríkjanna hag sínum best borgið með því að svíkja hersveit sína í hendur Norðanmanna, en fyrir vikið er hún öll þurrkuð út í blóðugri fyrirsát. Þrettán árum síðar snýr einn hinna föllnu aftur með byssu í hönd og þrjá trékrossa merkta með nöfnum svikaranna og yfirvofandi dánardag þeirra í nóvember 1881.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:

Að þessu sinni nær hefndarþorstinn í spaghettí-vestrunum út fyrir grafarbakkann, enda er aðalsöguhetjan risin upp frá dauðum til þess eins að gera upp sakirnar við fyrrum yfirmenn sína og félaga sinna. Upprisulíkami Djangos er af holdi og blóði, enda fær hann sér drykk auk þess sem hann særist í hörðum átökum og skilur eftir sig blóð. Þrátt fyrir það er hann ekki háður takmörkunum tíma og rúms sköpunarinnar, því að hann getur birst hvar sem er hvenær sem hann vill, jafnvel inni í læstum herbergjum þar sem fórnarlömbin höfðu talið sig óhult. Að þessu leyti minnir upprisa hans á upprisu Jesú Krists, en samkvæmt guðspjöllunum var líkami hans með svipuðum hætti óháður takmörkunum sköpunarinnar.

Engu að síður er um grundvallarmun að ræða á upprisum þessara tveggja manna. Upprisa Jesú Krists var sigur hans yfir dauðanum, sem veitir mönnum tækifæri til eilífs lífs, en hjá Django fer lítið fyrir kristilegum kærleika, enda segist hann vera djöfull frá helvíti og skýtur hiklaust hvern þann, sem stendur í vegi fyrir honum. Hann minnir meira að segja eitt af fórnarlömbum sínum á að græðgi sé dauðasynd áður en hann skýtur hann til bana. Lögmálsákvæðið ‚auga fyrir auga, tönn fyrir tönn‘ er því meginboðskapurinn eins og í flestum spaghettí-vestrunum en í þessu tilfelli er hann hafður með hrollvekjuívafi.

Spaghettí-vestrinn Django the Bastard (eða Django il bastardo eins og hann nefnist á ítölsku) er alveg þriggja stjarna virði, einkum ef sú reikningsvilla er umborin, að á árinu 1881 skuli þrettán ár vera liðin frá borgarastyrjöldinni, en henni lauk árið 1865.

Þess má að lokum geta, að Django the Bastard var fyrirmynd Clints Eastwood að vestranum High Plains Drifter, sem hann gerði nokkrum árum síðar.

Hliðstæður við texta trúarrits: 3M 24:20, Lk 24:36-43
Guðfræðistef: upprisa, helvíti, djöfull, dauðasynd
Siðfræðistef: svik, manndráp, ágirnd
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: signing