Kvikmyndir

Django

Leikstjórn: Sergio Corbucci
Handrit: Sergio Corbucci, Bruno Corbucci, Franco Rossetti, Piero Vivarelli, José Gutiérrez Maesso og Geoffrey Copleston
Leikarar: Franco Nero, Loredana Nusciak, Eduardo Fajardo, José Bódalo, Ángel Álvarez, Gino Pernice, Giovanni Ivan Scratuglia, Luciano Rossi, Simón Arriaga, Erik Schippers, Rafael Albaicín, José Canalejas og Remo De Angelis
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1966
Lengd: 90mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Django er fámáll einfari í slitnum einkennisbúningi Norðanríkjamanna sem dregur líkkistu á eftir sér hvert sem hann fer. Hann fær bófagengi fyrrum Suðurríkjahermanna upp á móti sér þegar hann bjargar ungri konu frá böðlum þess úti í óbyggðum en hún hafði flúið frá vændishúsi næsta smábæjar þar skammt frá landamærunum í von um betra líf. Þar sem Suðurríkjabófarnir eiga í útistöðum við byltingarsinnaðan mexíkanskan bófaflokk um yfirráðin yfir bænum, sér Django sér leik á borði og egnir þeim saman. Í raun á Django harma að hefna við höfuðpaur Suðurríkjabófanna en þegar hann sér fram á að geta féflett Mexíkanana og stungið auðugur af, grípur hann tækifærið strax. Fyrirætlanir hans fara hins vegar á versta veg og gagntekur hefndarþorstinn hann því á nýjan leik.

Almennt um myndina:
Sögulega séð er þetta einn af mikilvægustu spaghettí-vestrunum ásamt A Fistful of Dollars (Sergio Leone: 1964) og einn sá besti líka. Enda þótt A Fistful of Dollars hafi strangt til tekið ekki verið fyrsti spaghettí-vestrinn, þá naut hann slíkra vinsælda að framleiddir voru allavega um áttahundruð slíkar kvikmyndir til viðbótar næstu árin og áratugina, flestar þó á sjöunda og áttunda áratugnum. Oftast voru það Ítalir sem framleiddu spaghettí-vestrana, ýmist einir eða í samvinnu við aðrar þjóðir, en allir vestrar sem gerðir hafa verið á Spáni eru jafnan einnig flokkaðir sem spaghettí.

Spaghettí-vestrinn Django (nafnið var sótt til franska næturklúbbadjassgítarleikarans Djangos Reinhardt) var einn þeirra fjölmörgu sem gerðir voru í kjölfar vinsælda A Fistful of Dollars en greina má nokkurn skyldleika með þeim hvað varðar sögusvið, persónusköpun og fléttu. Í báðum myndunum kemur fámáll einfari til afskekkts smábæjar skammt frá mexíkönsku landamærunum þar sem tveir bófaflokkar berjast um yfirráðin. Í mynd Leones, sem innblásin var af japönsku samúræjamyndinni Yojimbo (Akira Kurusawa: 1961), gengur einfarinn (stundum nefndur munkurinn eða Joe) til liðs við bófaflokkana til skiptis og egnir þeim markvisst gegn hvorum öðrum. Django gengur hins vegar aðeins til liðs við annan bófaflokkinn og svíkur hann síðan með því að stinga af með nýfenginn ránsfeng hans.

Það sem vakir lengst af fyrir Django er að hefna dauða eiginkonu sinnar en jafnvel hefndarþorstinn víkur fyrir græðginni þegar hann sér færi á skjótfenginni auðlegð. Eins og Joe er Django andhetja, órökuð og fámál stórskytta sem gerir sjaldnast neitt nema að hagnast á því eða til að hefna sín. Ólíkt Joe er Django hins vegar óvenju breyskur, lífsleiður á svip og með þreytublæ í málróminum, enda er persónusköpunin í myndum Sergios Corbucci oftar en ekki bölsýnni en hjá Sergio Leone. Skúrkarnir hjá þeim báðum eru þó allir sem einn kvikindisleg illmenni, sem best eru geymd undir grænni torfu. Í báðum myndunum eru smábæirnir í niðurníðslu, sérstaklega þó í Django þar sem aðalgatan er eitt forarsvað og húsin illa byggðir timburkofar. Kráareigandi í miðjum bænum kemur þar við sögu með svipuðum hætti, hendur þeirra Joes og Djangos eru brotnar eftir að svik þeirra koma í ljós og blóðugt uppgjör á sér stað í kirkjugörðum beggja myndanna, í öðru tilfellinu í miðri mynd en í lokin í hinni.

Vinsældir spaghettí-vestrans Django urðu strax óhemju miklar í Evrópu og náði myndin svipuðum tekjum og A Fistful of Dollars. Ótal framhaldsmyndir voru gerðar næstu árin og jafnvel aðrir spaghettí-vestrar, sem höfðu ekkert með Django að gera, voru nefndir eftir honum þegar þeir voru markaðssettir fyrir utan Ítalíu. Alls urðu framhaldsmyndirnar a.m.k. fimmtíu, flestar framleiddar af Ítölum en sumar af Spánverjum og jafnvel Tyrkjum. Aðeins ein þessara mynda, Django Strikes Again (Nello Rossati: 1987), telst þó raunverulegt framhald fyrstu myndarinnar, enda var höfundaréttarlöggjöf Ítala lengi svo óljós að hver sem er gat nýtt sér vinsældir annarra mynda með nýrri framleiðslu undir sama nafni. (Þannig gat George Hilton t.d. leikið njósnarann 007 í ítölsku kvikmyndinni Two Mafiosi Against Goldfinger (Giorgio Simonelli: 1965), en eins og flestir kvikmyndaáhugamenn vita hafði breska spennumyndin Goldfinger (Guy Hamilton: 1964) slegið í gegn nokkru áður með Sean Connery í hlutverki 007.) Í báðum þessum Django-myndum lék Franco Nero aðalhlutverkið, en hann varð í kjölfar þeirrar fyrstu einn af vinsælustu leikurum Ítala um langt árabil, einkum þó í spaghettí-vestrum og öðrum ítölskum harðhausamyndum. Sumir telja reyndar spaghettí-vestrann Get the Coffin Ready (Ferdinando Baldi: 1967) sömuleiðis réttnefnda framhaldsmynd þar sem handritshöfundurinn Franco Rossetti hafði einnig unnið við handrit þeirrar fyrstu. Nero lék Django hins vegar ekki í þeirri mynd heldur Terence Hill.

Spaghettí-vestrinn Django þótti og þykir jafnvel enn óvenju hrottafenginn, ekki bara vegna þess að flestar sögupersónurnar skuli vera skotnar til bana með köldu blóði heldur vegna margvíslegra ofbeldisatriða sem lítið höfðu sést áður á hvíta tjaldinu. Strax í upphafi myndarinnar er kona t.d. bundin við brúarstólpa, kjóll hennar rifinn í sundur og hún hýdd með svipu í góða stund, en slíkur hrottaskapur kom mörgum áhorfendum í opna skjöldu þar sem þeir höfðu ekki séð annað eins áður. Síðar í myndinni er svo eyra skorið af sviksömum presti og hann neyddur til að borða það áður en hann er skotinn til bana, en það atriði er jafnan tilgreint sem fyrirmynd löggumorðsins alræmda í kvikmyndinni Reservoir Dogs (Quentin Tarantino: 1992) sem þó gengur ekki eins langt. Í ofan á lag eru hendur Djangos lemstraðar svo svakalega undir lok myndarinnar að mörgum áhorfendum var nóg boðið á sínum tíma og gengu út af myndinni. Sökum þessara ofbeldisatriða og ásakana um guðlast var myndin bönnuð víða um heim og fékkst hún t.d. ekki sýnd í Bretlandi fyrr en snemma á tíunda áratugnum. Þrátt fyrir vinsældir myndarinnar á meginlandi Evrópu var hún lítið sýnd í Bandaríkjunum og þekktu því fáir til hennar þar í landi árum saman.

Enda þótt framleiðslan sé auðsjáanlega hræódýr, þá tókst leikstjóranum Sergio Corbucci samt ótrúlega vel að nýta það litla sem hann hafði í höndunum. Timburhús bæjarins voru byggð í snarheitum úti á túni skammt fyrir utan Róm og leðju sturtað yfir alla aðalgötuna, en þar var myndin að mestu leyti tekin. Þegar Spánverjar samþykktu svo í miðju kafi að taka þátt í framleiðslunni líka, voru nokkur atriði til viðbótar tekin með hraði á Spáni og þeim bætt við myndina. Eins og búast má við af svo ódýrri framleiðslu er myndin alls ekki gallalaus, t.d. má auðveldlega greina hjólför eftir vörubíla í forarsvaðinu á aðalgötu bæjarins, en einhvern veginn sleppur það samt allt saman fyrir horn. Kvikmyndataka Enzos Barboni, sem síðar átti eftir að slá í gegn með spaghettí-vestrunum They Call Me Trinity (1970) og Trinity is Still My Name (1971), er líka glæsileg og tónlist Luis Enríquez Bacalov flott, ekki síst titillagið sem venst ótrúlega vel (en það fór afskaplega mikið í taugarnar á mér þegar ég heyrði það fyrst). Og ekki skemmir heldur fegurð Loredönu Nusciak fyrir en sú ágæta leikkona er fræbær í hlutverki Maríu, konunnar sem Django bjargar.

Best er myndin þó með upphaflegu ítölsku talsetningunni enda hljóma þar raddir helstu leikaranna allar eðlilega. Forðast ber hins vegar ensku talsetninguna, sem verður að teljast óvenju slæm, sérstaklega hvað varðar þann leikara sem talsetur Franco Nero en röddin hæfir honum engan veginn. Í ofan á lag er stór munur á samtölunum eftir talsetningum og er ítalski textinn í alla staði mun fyllri en sá enski og alloft hreinlega allt annar efnislega.

Kvikmyndin hefur lengst af aðeins verið fáanleg með ensku talsetningunni í Bretlandi og Bandaríkjunum (og þar af leiðandi á Íslandi líka) en nú hefur bandaríska DVD fyrirtækið Blue Underground gefið hana út með ítölsku talsetningunni, enskum texta og í alveg hreint frábærum myndgæðum (að fáeinum filmuskemmdum undanskyldum). Það er því virkilega þess virði fyrir þá, sem þegar eiga myndina á DVD frá Anchor Bay í Bandaríkjunum, að kaupa einnig diskinn frá Blue Underground, enda er myndin hreinlega ekki sú sama með ítölsku talsetningunni og þeirri ensku. Það eina, sem Anchor Bay diskurinn hefur fram yfir þann nýja, er eiguleg 20 blaðsíðna handbók um helstu Django myndirnar. Að vísu fylgir framhaldsmyndin Django Strikes Again einnig með sem aukamynd hjá Anchor Bay en hún er það slæm að aðeins hörðustu safnararnir geta ekki án hennar verið.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Sir Christopher Frayling, rektor Konunglega listaháskólans í London og prófessor þar í menningarsögu, kallar vændiskonuna, sem Django bjargar í upphafi myndarinnar, maríugerving (Madonna figure) í skýringabæklingi, sem fylgir DVD diskinum frá Blue Underground. Í fjölmörgum bókum sínum og greinum hefur Frayling m.a. fjallað um hvernig persónusköpun kvenna í spaghettí-vestrum endurspeglar oftar en ekki rótgrónar kvenímyndir ítalsks samfélags, sem öldum saman hefur mótast af hugmyndafræði rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Hann bendir á að konan sé þar sjaldnast annað en móðir eða hóra og stundum hvort tveggja í senn, ekki síst ef samfélagið er svo gerspillt að hún verður það sjálfkrafa gegn vilja sínum. Konan er þá kúguð af máttarvöldum illskunnar, illmönnum sem halda henni nauðugri í hlutverki vændiskonu eða viðhalds, en frelsun hennar er komin undir helgun hennar og mögulegu móðurhlutverki.

Vændiskonan sem Frayling kallar maríugerving heitir María og er hún jafnan dökkklædd að hætti Maríu meyjar. (Kjóll hennar virkar reyndar dökkbrún í fáeinum senum myndarinnar en litur Maríu meyjar í listasögunni er jafnan dökkblár. Því er athyglisvert að sjal vændiskonunnar og yfirhöfn virðast bæði vera bláleit.) María er alla tíð ósátt við hlutskipti sitt og neitar að klæðast rauðu að hætti hinna vændiskvennanna og sker hún sig því úr í hópi þeirra. Þegar María rís upp gegn bófaflokkunum í upphafi myndarinnar með því að reyna að forða sér í burtu frá þeim báðum, er hún bundin í krossfestingarstellingu við stólpa hengibrúar yfir kviksyndi og hýdd eins og Kristur forðum, en líta má á brúna sem tákn milli lífs og dauða. Sérstaklega er athyglisvert í því sambandi að Suðurríkjabófarnir skuli segjast ætla að krossfesta Maríu og brenna hana þannig til dauða.

Þó er alls óvíst hvort aðstandendur myndarinnar hafi meðvitað verið að vinna með maríugerving í þessu tilfelli. Þó svo að María sækist eftir vissri helgun, bendir ekkert til þess að hún verði móðir í bókstaflegri eða huglægri merkingu þess orðs. Í raun á hún harla fátt sameiginlegt með þeirri Maríu mey, sem guðspjöllin greina frá. Þar sem hún elskar Django og segist vilja búa með honum, er hún allt eins dæmigerð unnusta aðalvestrarhetju, jafnvel þótt hann sýni henni lengst af furðu lítinn áhuga.

Suðurríkjabófarnir minna á meðlimi kynþáttarhaturssamtakanna Ku Klux Klan að því leyti að flestir þeirra hafa rauðar hettur yfir andlitum sínum, en kráareigandinn segir Django að þetta sé trúarbrögð fyrir þeim. Þeir fyrirlíta Mexíkanana sem óæðri kynstofn og segjast hafa selt þeim Maríu þar sem hún hafi svikið sitt eigið kyn. Þeir virðast því líta svo á að hún hafi upphaflega verið af sama kynþætti og þeir sjálfir. Mexíkanski byltingarforinginn lítur hins vegar á hana sem eina af sínu fólki, enda minnir hann hana á að hún sé hálfur indíáni og hálfur Mexíkani. Hver raunverulegur uppruni Maríu er er hins vegar látið liggja milli hluta í myndinni.

Það var þó ekki bara ofbeldið sem fór í taugarnar á mörgum gagnrýnendum myndarinnar heldur sökuðu þeir hana líka um guðlast á sínum tíma. Átti það einkum við um ítölsku útgáfu hennar enda töluverður munur á orðfæri ítölsku og ensku talsetningarinnar.

Í upphafi ítölsku útgáfunnar segir t.d. einn Suðurríkjabófinn við Maríu: „Þú veist hvað þessi kross merkir, ekki satt? Hmm! Mexíkanska tíkin þín!“ Og félagi hans bætir glottandi við: „Eldurinn mun hreinsa burt syndir þínar!”

Í ensku útgáfunni segir Suðurríkjabófinn hins vegar: „Þú getur slakað á í eina eða tvær mínútur. Við ætlum að kveikja í þessum krossi með þig fasta við hann. Skemmtir þú þér með Mexíkönunum?” Félagi hans bætir þá við: „Það er miklu betra að brenna en að vera barin til dauða!“

Undir lok myndarinnar mætir Django svo Suðurríkjabófaforingjanum Jackson og fimm af mönnum hans í einvígi í kirkjugarði. Django kemur sér fyrir bak við trékross, sem ætla má að sé á leiði konu hans, og nær með töluverðri fyrirhöfn, enda með mölbrotnar hendur, að koma byssu sinni fyrir á járnskrauti á honum.

Í ítölsku útgáfunni hrópar Jackson hæðnislega til hans frá kirkjugarðshliðinu: „Ert þú á bæn? Það ber manni að gera þegar maður er u.þ.b. að deyja. Þú getur ekki gert krossmerki með þessum höndum!” Síðan bætir hann við meðan hann skýtur tvisvar úr riffli sínum að Django: „Í nafni föðurins, sonarins og heilags anda!“ (Sbr. 2Kor 13:13.) En áður en honum tekst að hleypa af þriðja og síðasta skotinu, hrópar Django frá krossinum og skýtur þá alla til bana um leið: „Og svo mun verða!“

Í ensku útgáfunni er hins vegar dregið verulega úr þessu trúarlega orðfæri. Þar hrópar Jackson: „Biddu strax ef þú vilt! Mér er sama. Það er snjallt að gera slíkt þegar maður veit að dauðastundin er runnin upp. Af hverju ert þú ekki með líkkistuna mér þér? Við neyðumst til að skilja þig eftir handa hrægömmunum. Svo farðu nú að biðja!“ Og milli þess sem Jackson skýtur úr rifflinum hrópar hann: „Ég heyri ekki í þér! Allt í lagi! Núna!“ En Django svarar um leið og hann skýtur þá alla til bana: „Heyrir þú þetta?“

Getur verið að orð Djangos í ítölsku útgáfunni eigi að vísa til lokaorða Jesú Krists á krossinum? Andlátsorð Jesú voru: „Það er fullkomnað!“ (Jh 19:30.) Segja má að þeir vinni allavega báðir sigur á myrkraöflunum á krossum sínum, annar með dauða sínum á krossi en hinn með því að leita skjóls bak við kross þar sem hann nær að festa byssu sína þrátt fyrir mölbrotnar hendur.

Um það má deila hvort trúarlegt orðfærið í myndinni og mögulegar vísanir geti flokkast sem guðlast. Það getur allt eins talist viðeigandi að illmennin vanvirði þar heilaga hluti, enda áréttar slíkt aðeins illsku þeirra. Óneitanlega er dregin upp neikvæð mynd af prestinum, sem er í senn hræsnari og siðspillt handbendi Suðurríkjabófanna. Hann kennir Maríu um blóðbaðið og kallar hana bersynduga, en innheimtir samt tekjur vændishúsins fyrir Jackson og njósnar fyrir hann. Fyrir vikið skera mexíkönsku bófarnir líka af honum annað eyrað þegar þeir ná honum og neyða hann til að borða það áður en þeir skjóta hann til bana. Afskorna eyrað vísar þar til njósnanna en gæti einnig vísað til oblátunnar í altarissakramentinu enda þótt það sé hvergi sagt berum orðum í myndinni.

Eitt það eftirminnilegasta við myndina er að Django skuli lengst af draga líkkistu á eftir sér hvert sem hann fer. Aðspurður um hvað í líkkistunni sé að finna nefnir hann aðeins nafnið Django. Síðar kemur í ljós að þar geymir hann öfluga vélbyssu með (allríflegum) skotfærum, en segja má að það tákni allt í senn hatur hans, hefnd og dauðann. Líkkistan er í raun einkar viðeigandi geymslustaður fyrir slíkt morðtól.

Eins og svo margir spaghettí-vestrar dregur kvikmyndin upp bölsýna mynd af föllnum heimi þar sem illskan og græðgin tröllríða öllu, en aðeins Django (með tilstilli krossins og byssunnar) og María (með ást sinni á bjargvætti sínum) eru þess umkomin að leggja illmennin að velli, jafnvel þótt græðgin nái næstum því að draga hann niður í kviksyndið undir hengibrúnni. Yfirbragð myndarinnar minnir í raun töluvert á hinar svonefndu gotnesku hrollvekjur, ekki síst hvað varðar persónusköpunina, efnistökin og sviðsmyndina, t.d. forarsvað bæjarins, illa byggð timburhúsin, hengibrúna yfir kviksyndið og kirkjugarðinn með skökku krossana á leiðunum. Allt verður það að teljast viðeigandi fyrir myndina og festir hana í sessi sem eina af eftirminnilegustu spaghettí-vestrunum.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 2Kor 13:13
Hliðstæður við texta trúarrits: Jh 19:30
Persónur úr trúarritum: faðir, sonur, heilagur andi, draugur, móðir Guðs
Guðfræðistef: maríugervingur, synd, syndahreinsun, frelsun, trúarbrögð, bölsýni, kærleikur, dauðinn
Siðfræðistef: manndráp, vændi, hýðing, pyntingar, félagslegt misrétti, kynþáttahatur, þjófnaður, svik, hefnd, ofbeldi gegn konum, bylting
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkjugarður
Trúarleg tákn: kross, kross á leiði, kross á líkkistu, logandi kross
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: signun, bölvun, bæn