Kvikmyndir

Dogville

Leikstjórn: Lars von Trier
Handrit: Lars von Trier
Leikarar: Nicole Kidman, Harriet Andersson, Lauren Bacall, Jean-Marc Barr, Paul Bettany, Blair Brown, James Caan, Patricia Clarkson, Jeremy Davies, Ben Gazzara, Philip Baker Hall, Siobhan Fallon, John Hurt, Zeljko Ivanek og Udo Kier
Upprunaland: Danmörk, Svíþjóð, Frakkland, Noregur, Holland, Finland, Þýskaland, Ítalía, Japan, Bandaríkin og Bretland
Ár: 2003
Lengd: 177mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Grace, sem er á flótta undan mafíunni, leitar hælis í Hundabæ (Dogville). Bæjarbúarnir fallast á að veita henni hæli en í staðin býðst Grace til að vinna fyrir þá. Þegar mafían herðir leit sína að Grace vilja bæjarbúarnir breyta samningnum þar sem áhættan er meiri en þeir gerðu sér grein fyrir í upphafi. Upp frá þessu fara bæjarbúarnir að misnota þá góðmennsku sem Grace sýndi þeim, ómeðvitaðir um þær hættur sem því kann að fylgja.

Almennt um myndina:
Lars von Trier er einn umdeildasti leikstjóri samtímans. Hann sendir varla frá sér mynd án þess að hún valdi hneykslun og deilum. Nýjasta mynd hans, Hundabær, er þar engin undantekning. Reyndar heitir Lars von Trier aðeins Lars Trier, en skólabræður hans kölluðu hann „von“ Trier vegna þess að þeim þótti hann mikill með sig. Trier tók því upp millinafnið og hefur notað það síðan.

Hundabær er fyrsta myndin í þríleik von Triers um Bandaríkin sem mun bera heitið „USA: The Land of Opportunity“, þ.e. „Bandaríkin: Land tækifæranna“.Hundabær er U-ið í þríleiknum. Næstu tvær myndir (S-ið og A-ið) munu heita Manderlay og Wasington. Upphaflega átti Nicole Kidman að leika í öllum myndunum, en hún hefur tilkynnt að hún muni ekki geta staðið við loforð sín vegna anna.

Margir hafa reiðst út í von Trier fyrir að gera þríleik um Bandaríkin þrátt fyrir að hafa aldrei komið þangað, en þar sem hann er haldinn fjölmörgum fóbíum getur hann ekki ferðast í flugvél né bát og mun því líklega aldrei stíga fæti á bandaríska grund. Von Trier hefur hins vegar bent á að þeir sem gerðu Casablanca (Michael Curtiz: 1943) hafi aldrei komið þangað. Ekki voru spaghettí-vestrarnir ástsælu heldur gerðir í Bandaríkjunum heldur á Spáni, Ítalíu, Þýzkalandi og Júgóslavíu.

Eins og í Brimbroti (1996) og Myrkradansaranum (2000) fjallar Hundabær um góðhjartaða konu sem er misnotuð af illa innrættu fólki. Viðfangsefnið er að sjálfsögðu mjög óþægilegt, en er við öðru að búast frá manni sem hefur það mottó að „kvikmynd eigi að vera eins og steinn í skó“. Reyndar er viðfangsefni mynda von Triers ekki eini „steinninn“ í skóm áhorfanda. Hann hefur iðulega reynt að ögra fólki með kvikmyndamálinu sjálfu. Hann er t.d. einn höfunda Dogma stefnunnar og var einn sá fyrsti til að taka upp kvikmynd í fullri lengd á stafræna myndbandsupptökuvél.

Hundabær er hér engin undantekning. Það hefur löngum verið óskrifað lögmál að kvikmyndir eigi að vera eins ólíkar leikhúsinu og hugsast getur. Þá er það algengt viðhorf að kvikmyndagerðarmenn eigi að forðast í lengstu lög að notast við sögumann og reyna þess í stað að segja það sem segja þarf með myndmálinu einu saman. Von Trier brýtur hins vegar báðar þessar reglur. Hundabær gerist öll á leiksviði og húsin eru ekkert annað en krítarlínur á gólfinu. Fólk opnar ósýnilegar hurðir og heldur sig innan ósýnilegra veggja. Allt minnir þetta á stíl Bertolts Brecht. Því hefur jafnvel verið haldið fram að myndin sé byggð á texta lagsins „Pirate Jenny“ eftir Brecht og Weill úr Túskildingsóperunni. Það er reyndar mjög líklegt enda viðfangsefnið áþekkt.

Það er að sjálfsögðu mjög djarft að gera heila kvikmynd þar sem lítil sem engin sviðsmynd er til staðar en von Trier gerði 15 mínútna prufumynd í upphafi framleiðslu þessarar myndar til að kanna hvort hugmyndin gengi upp. Þá styðst hann óvenju mikið við sögumann sem segir okkur ekki aðeins hvað fólk er að hugsa heldur einnig hvað það er að gera, jafnvel þótt áhorfandinn sjái það jafn vel og sögumaðurinn. Myndin er einnig byggð upp eins og bók, en hún skiptist í 9 kafla og inngang en í síðasta kaflanum er áhorfandanum tilkynnt að með honum muni þessari kvikmynd ljúka.

Ég verð að viðurkenna að þessi frásagnarmáti fór nokkuð í taugarnar á mér og held ég að myndin hefði verið mun sterkari ef von Trier hefði stuðst við raunverulega sviðsmynd og sleppt sögumanninum. Ástæðan fyrir því að hann fór þessa leið gæti þó verið sú að hann hafi viljað sýna hvernig Guð sér heiminn, þ.e. í gegnum alla veggi og inn í öll skúmaskot. Eða kannski var markmiðið að leggja áherslu á að hér væri um dæmisögu að ræða: Að Hundabær eigi í raun að standa fyrir öll þorp og allar borgir í heiminum. Þá má vera að von Trier sé aðeins að tjá andúð sína á Matrix-tæknibrelluæðinu sem tröllríður kvikmyndagerð í Bandaríkjunum um þessar mundir.

Eins og í Myrkradansaranum er myndin tekin öll á stafræna myndbandsupptökuvél og er það miður því að hún virkar alls ekki nógu vel þannig, t.d. fer myndin úr fókus og verður þokukennd um leið og hún er hreyfð hratt. Sem betur fer hefur von Trier samt að mestu yfirgefið skjálfhentan dogmastílinn en myndin er að mestu stöðug þótt oft sé haldið á myndavélinni.

Kostur þessarar myndar er fyrst og fremst mögnuð saga og stórkostleg úrvinnsla úr ýmsum trúarlegum stefjum. Leikararnir standa sig ágætlega en von Trier hefur tekist að safna saman mörgum hæfustu leikurum samtímans. John Hurt komst nokkuð vel frá hlutverki sínu sem sögumaður og Nicole Kidman sýnir enn og aftur að hún hefur mikla leikhæfileika, þótt hún vinni svo sem engan leiksigur hér eins og í síðustu myndum sínum. Senuþjófur myndarinnar er hins vegar James Caan í hlutverki föður Grace en hann lyftir myndinni upp á annað plan þegar hann birtist í lok hennar.

Sú mynd sem sýnd var á kvikmyndahátíðinni var tæpir þrír tímar á lengd en gerð hefur verið um 45 mín. styttri útgáfa af henni. Heyrst hefur að það sé sú útgáfa sem muni fara í flest kvikmyndahús.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hér verður ljóstrað upp um óvæntan endi myndarinnar, en það getur skemmt fyrir þeim sem ekki hafa séð hana.

Von Trier hefur lengi fengist við söguna af Jesú Kristi í myndum sínum en margar hafa einmitt bent á að Bess og Selma í Brimbroti og Myrkradansaranum séu kristsgervingar. Sjálfur tók von Trier rómversk-kaþólska trú svo að trúaráhugi hans ætti ekki að koma neinum á óvart. Von Trier heldur áfram uppteknum hætti í þessari mynd og aftur er kvenkristsgervingur á ferð, að þessu sinni leikinn af Nicole Kidman. Líkt og kvenhetjur fyrrnefndra mynda þarf Grace að þola ofbeldi og niðurlægingu en ólíkt fyrri myndunum gengur hún ekki sjálfviljug inn í það hlutverk. Grace er einnig mun frumlegri og áhugaverðari kristsgervingur en Bess og Selma og á það sérstaklega við um tengsl hennar við föður sinn og dómsdaginn í lokinn.

Myndin hefst á stóru ofanskoti en það er sett saman úr 156 myndrömmu vegna þess að myndverið var ekki nógu hátt til að ná svo víðfeðmu skoti. Það er eins og Guð horfi rannsakandi augum á alla íbúa bæjarins í þessari senu. Þar sem hvorki þök eru á húsunum né veggir, er ómögulegt fyrir íbúana að framkvæma nokkuð í „leyni“ fyrir þessu guðlega og vökula auga.

Nafn bæjarins er áhugavert. Hann kallast Hundabær en eini hundurinn í bænum heitir Móse. Annað biblíunafn er einnig að finna í bænum en kirkjan heitir Hús Jeremía. Bæði vísa þessi nöfn til Gamla testamentisins og þar með til tímans fyrir komu Krists. Sögumaður myndarinnar segir reyndar að í þorpinu séu góðar og heiðarlegar sálir en sjálfskapaður hugsuður og andlegur leiðtogi bæjarins, Tómas Edison (sbr. uppfinningamanninn) er á öðru máli. Hann telur Hundabæ vera rotinn að innan og þurfi nauðsynlega á aðstoð að halda. Hann gerir sér þó grein fyrir því að lítið mun breytast án utan að komandi aðstoðar, einhvers konar gjafar. Strax í kjölfarið mætir Grace (Náð) svo á staðinn, á flótta undan mafíunni.

Þar sem þorpsbúarnir neita að viðurkenna andlega fátækt sína býður Tómas þeim Grace sem prófraun. Þeir geti hér með sannað mannkærleika sinn með því að koma vel fram við hana, en í staðinn býðst hún til að hjálpa íbúum bæjarins. Þótt íbúarnir taki henni með varkárni til að byrja með líður ekki að löngu þar til Grace er orðin öllum allt. Hún er sjón hinum blindu, heili hinum heimsku og svo mætti lengi telja. Allir eru hamingjusamir og sáttir við hlutskipti sitt. Svo virðist því sem þessi „gjöf“ sem Tómas óskaði eftir hafi gjörbreytt þessu litla samfélagi.

Þegar leit mafíunnar að Grace eykst fara íbúar Hundabæjar að átta sig á því að Grace er upp á náð og miskunn þeirra komin. Þar sem hún hefur ekkert val er hún neydd til að vinna meira en áður fyrir lægri laun. Og hér byrjar fall bæjarbúanna. Þrátt fyrir að hafa aukið vinnu Grace og lækkað laun hennar líður þeim verr en áður. Með hverjum deginum verða bæjarbúarnir fjandsamlegri í garð Grace og misnota karlmenn bæjarins hana meira að segja kynferðislega að lokum.

Það er áhugavert að nauðganirnar eru settar í samhengi við söguna af Adam og Evu. Fyrsta nauðgunin á sér stað í eplagarði þegar Grace hjálpar eplabóndanum að tína epli. Þá er henni nauðgað innan um eplakassa á pallbíl, þegar hún reynir að flýja Hundabæ. Sögumaðurinn segir jafnvel eitthvað á þá leið í myndinni að Grace hafi hangið þarna eins og eplið í aldingarðinum í Eden. Þannig er synd bæjarbúa tengd sögunni af Adam og Evu. Það vekur einnig athyli að í þessu tilfelli er það fyrst og fremst kynferðisleg synd, en það er löng hefð fyrir því í kristinni trú að líta svo á að kynlífið sé afleiðing falls mannkynsins. Það er einnig áhugavert að syndin kemur ekki aðeins niður á mannkyninu sjálfu heldur er hún fyrst og fremst svívirðilegt brot gegn Kristi/Guði.

Í Hundabæ eru til sölu sjö litlar styttur en Grace eyðir öllum launum sínum í að eignast þær. Mikil áhersla er lögð á þessar sjö styttur en sögumaður segir að Grace líti svo á að þær séu sönnun þess að þjáning hennar hafi verið einhvers virði. Nú er sjö ekki aðeins heilög tala heldur einnig tala Krists, en hann var særður sjö sárum. Í ljósi þessa er áhugavert að sögumaðurinn skuli tengja stytturnar sjö við þjáningu Grace (náðarinnar).

Talan sjö gegnir reyndar mikilvægu hlutverki í Biblíunni og kristinni hefð. Guð skapaði heiminn á sex dögum og hvíldi sig á þeim sjöunda. Í Opinberunarbókinni kemur talan sjö oftsinnis fyrir, en kirkjurnar eru sjö og bókin sjálf innsigluð sjö innsiglum (5:1). Lambið hefur sjö horn og sjö augu sem eru sjö andar Guðs (5:6). Drekinn hefur sjö höfuð (12:3) og plágurnar eru sjö (15:7). Í Gamla testamentinu er dómur Guðs einnig tengdur tölunni sjö en Jósúa lét sjö presta blása í sjö hrútshorn þegar hann sat um Jeríkó. Þegar þeir gengu í sjöunda sinn á sjöunda degi í kringum borgina og blésu í sjöunda sinn í lúðrana sjö hrundu múrar Jeríkó (Js 6:6-20). Í kristinni hefð er einnig oft talað um sjö gjafir heilags anda, sjö dyggðir og sjö dauðasyndir.

Loksins þegar Grace hefur tekist að eignast stytturnar sjö ráðast nokkrar konur bæjarins inn á heimili hennar og brjóta þær allar, vitandi að þær eru það dýrmætasta sem hún á í þessum heimi. Eftir að hafa reynt að flýja Hundabæ, er Grace sett í hlekki og hundaól fest um háls hennar. Tom ráðleggur henni að segja þorpsbúum sannleikann um þá sjálfa en hann er sannfærður um að um leið og hún afhjúpar syndir þeirra og illsku muni þeir iðrast gjörða sinna og leysa hana úr hlekkjunum. Ráðabrugg hans gengur þó ekki eftir því að bæjarbúarnir tvíeflast í heift sinni við að heyra sannleikann um sjálfa sig. Meira að segja Tom þolir ekki sannleikann og ákveður að selja Grace í hendur mafíunnar, sem hefur heitið háum fundarlaunum. Það er áhugavert að á þeirri stund sem Grace afhjúpar sannleikann um bæjarbúa byrjar að snjóa og leggst snjóbreiðan yfir bæinn eins og hvít slæða. Hvítur litur hefur lengi verið tengdur við sannleikann og því líklega engin tilviljun að hvít mjöll skuli falla á stund sannleikans.

Nokkrir dagar líða áður en Mafían mætir á staðinn en sama dag lýsir Grace því yfir, þegar hún er að búa um rúm eins bæjarbúans, að hér muni enginn sofa framar. Grace veit ekki hvers vegna hún sagði þetta og er nokkuð brugðið. Þegar mafían mætir á staðinn kemur í ljós að Grace er dóttir mafíuforingjans. Hún hafði flúið hann vegna þess að hún trúir ekki á ofbeldi og refsingar. Faðir hennar biður hana um að koma til baka og stjórna veldinu með honum (sitja honum til hægri handar) og hefst þá aftur deila þeirra um refsingu og miskunn. Grace segir föður sinn hrokafullan og að hann dæmi veikgeðja fólk allt of hart. Hún sér ekki hvers vegna þau ættu ekki að geta fyrirgefið hundum. Faðir Grace segir hins vegar að Grace sé sjálf hrokafull því að með fyrirgefningu sinni komi hún í veg fyrir að fólk axli ábyrgð gjörða sinna. Grace segir fólkið gera sitt besta en faðir hennar spyr þá hvort það sé nógu gott. Grace er hins vegar fyrirmunað að hata fólkið fyrir veikleika þeirra.

Það er ýmislegt sem gefur til kynna að Grace sé kristsgervingur. Nafnið sjálft (náðin) er nátengt Jesú Kristi, en við það bætist að þessi náð kemur inn í bæ sem kenndur er við hund. Eins og áður sagði er eini hundurinn í bænum Móse og kirkja þessar bæjar kallast Jeremía. Það er því ekki of langsótt að líta svo á að hér sé verið að vísa til samfélags gyðinga á tímum Krists. Eins og áður var á minnst vísar talan sjö einnig t.d. til Krists, bæði fórnar hans og endurkomu.

Ef rétt er að líta á Grace sem kristsgerving þá er freistandi að líta svo á að faðir Grace sé Guð faðir sjálfur. Samtal Grace og föður hennar fær þá nýja og dýpri merkingu. Er hér Guð Gamla testamentisins, sem oft hefur verið kenndur við refsingu og hörku, og Kristur, sem oftast er kenndur við kærleika og náð, að ræða saman? Ef svo er hefur von Trier komið með einhverja frumlegustu túlkun á sambandi sonarins/dótturinnar og föðurins í kvikmynd. Kristur flýr hinn stranga og refsigjarna Guð vegna þess að hann vill ekki sýna sömu hörku og hann. Guð telur hins vegar að mannkynið eigi ekki alla þessa náð og miskunn skilið. Viðhorf Guðs verður reyndar að lokum ofan á.

Eftir að Grace hefur neitað að snúa aftur með föður sínum eða fella dóm fyrir bæjarbúum fær hún sér göngu um þorpið. Á þeirri stundu birtist tunglið og slær einkennilegri birti yfir bæinn. Grace áttar sig þá á því að þetta fólk á enga miskunn skilið. Það hafði fallið á prófinu. Hún hafði komið til þeirra sem gjöf, treyst þeim fyrir sál sinni og eins og ofsækjendur Jesú Krists höfðu íbúarnir ekki staðist prófraunina heldur arðrænt öreigann. Hún snýr því aftur til föður síns og spyr hvort hún geti fengið að deila völdum með honum strax. Hann játar því og lýsir hún því þá yfir að tími sé kominn til að refsa mönnunum fyrir syndir sínar. Hún segist vilja gera þennan heim aðeins betri og það sé best gert með því að eyða þessum spillta bæ. Hver einn og einasti bæjarbúi er því tekinn af lífi og hús Hundabæjar brennd til kaldra kola. Aðeins hundurinn Móse lifir dómsdaginn af, en Grace segir það mikið kraftaverk.

Hér er augljóslega verið að vísa til dómsdagsins, þegar bæði lifendur og dauðir eru dæmdir fyrir syndir sínar. Þessi atburður minnir reyndar einnig á dæmisögu Krists um vondu vínyrkjana, en í Markúsarguðspjalli er dæmisagan svona:

„Maður plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi. Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna að fá hjá þeim hlut af ávexti víngarðsins. En þeir tóku hann og börðu og sendu burt tómhentan. Aftur sendi hann til þeirra annan þjón. Hann lömdu þeir í höfuðið og svívirtu. Enn sendi hann annan, og hann drápu þeir, og marga fleiri ýmist börðu þeir eða drápu. Einn átti hann eftir enn, elskaðan son. Hann sendi hann síðastan til þeirra og sagði: ,Þeir munu virða son minn.` En vínyrkjar þessir sögðu sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, þá fáum vér arfinn.` Og þeir tóku hann og drápu og köstuðu honum út fyrir víngarðinn. Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra? Hann mun koma, tortíma vínyrkjunum og fá öðrum víngarðinn. Hafið þér eigi lesið þessa ritningu: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn. Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum.“ (12:1-12)

Það hlýtur að teljast dómur yfir mannkyninu að jafnvel náðin skuli gefast upp á því. Hér er dregin upp mjög svört mynd af mannslegu eðli. Philip Baker Hall sem leikur föður Tom í myndinni, gengur svo langt að kalla Dogville hryllingsmynd. „Hún er drama en hún er einnig hryllingsmynd vegna þess hvað hún segir okkur um mannlegt ástand. Hún er dimm, mjög dimm.“ Sjálfur segir von Trier að íbúarnir séu allir „á leið til helvítis“.

Hvað þennan boðskap varðar þá minnir myndin heilmikið á kvikmyndina Viridiana (1961) eftir Luis Buñuel en hún fjallar einnig um konu sem fórnar sér fyrir kærleikann en uppsker aðeins vanþakklæti heimsins í staðinn.

Eins og áður sagði er Hundabær fyrsta myndin í þríleiknum um Bandaríkin. En í hverju felst gagnrýni von Triers á stórveldið? Um það eru skiptar skoðanir. Fjölmargir í Bandaríkjunum hafa gagnrýnt myndina fyrir að vera and-ameríska, heimskulega og kjánalega. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt í smámunasemi og árásum að gagnrýna hann fyrir að kalla bæinn „village“ á þeirri forsendu að það orð sé lítið sem ekkert notað í Bandaríkjunum.

Aðrir hafa tekið gagnrýninni opnum örmum og telja myndina vera ádeilu á síendurtekið arðrán og kúgun Bandaríkjanna á lítilmagnanum. Endir myndarinnar virðist styðja þetta viðhorf en þá eru sýndar ljósmyndir eftir Dorothea Lange úr kreppunni miklu, sem og nýrri myndir eftir aðra ljósmyndara af hlutskipti öreigans í Bandaríkjunum. Á meðan á myndasýningunni stendur er lagið Young Americans eftir David Bowie spilað undir.

Þá hafa sumir séð myndina sem ádeilu á gjörðir Bandaríkjanna eftir 11. september. Bandaríkin séu eins og Tom sem segir við Grace að hann ætli að hugsa fyrir hana. Þetta lýsi vel hroka og misskildum kærleika Bandaríkjamanna, enda kemur í ljós í lok myndarinnar að Tom er engu betri en aðrir íbúar bæjarins. Þá hafa enn aðrir talið myndina útskýra ástæðuna fyrir hryðjuverkum og árásum á Bandaríkin. Árásaraðilarnir séu eins og Grace sem Bandaríkin hafi svívirt og kúgað í allt of langan tíma. Það sé því ekkert réttlæti í því að bjóða hina kinnina lengur heldur verði hinir kúguðu að svara fyrir sig. Endi myndarinnar megi því túlka sem svo að Bandaríkin muni falla að lokum vegna sinnar eigin græðgi og hroka.

Sjálfur svaraði von Trier þegar hann var spurður um afstöðu sína til Bandaríkjanna: „Hvað get ég sagt um Bandaríkin? Vald spillir. Það er staðreynd. En þar sem Bandaríkin eru svo voldug er í lagi að stríða þeim, þar sem ég get ekki skaðað þau, ekki rétt?“

Þá hafna sumir því að um ádeilu á Bandaríkin sé að ræða og benda á að myndin sé fyrst og fremst ádeila á kúgun almennt. Hún lýsir auðvaldssamfélögum í gegnum tíðina sem tilbúin eru að sprengja fátækari þjóðir sundur og saman, fangelsa og pynta minnihlutahópa, græða á vinnuþrælkun í öðrum löndum, horfa fram hjá eigin fátækt og taka þá af lífi sem eru þeim óæskilegir. Von Trier segir reyndar sjálfur að þótt myndin gerist í Bandaríkjunum geti hún gerst hvar sem er í heiminum.

Það er svo sem ekkert sem útilokar að myndin geti verið allt þetta í einu og meira til. Von Trier segir t.d. myndina vera að hluta um sig sjálfan, að hann sé Tom og að Grace sé sú manneskja sem hann þrái að vera.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 1M 2-3
Hliðstæður við texta trúarrits: Js 6:6-20; Mt 21:33-44; Mk 12:1-12; Lk 20:9-19; 2P 4:5; Opinberunarbók Jóhannesar; Opb 11:18; Opb 5:1; Opb 5:6; Opb 12:3; Opb 15:7
Persónur úr trúarritum: Móse, Kristur, Guð
Guðfræðistef: sál, náð, kærleikur, miskunn, fyrirgefning, hroki, kristsgervingur, sannsögli, heimsslit, fórn
Siðfræðistef: heiðarleiki, jafnrétti kynjanna, þjófnaður, hroki, áfengisneysla, vændi, græðgi, illska, þrælkun, lygi, sjálfselska, nauðgun, heit, loforð, kúgun, fordómar, hefnd, kynhneigð til dýra, fyrirgefning, reiði, kvalalosti, gestrisni
Trúarbrögð: Kristin trú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Kirkja, Eden, himnaríki
Trúarleg tákn: kirkjuklukka, epli, eplatré, talan 7, hvítur
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: dómsdagur
Trúarleg reynsla: spádómur