Kvikmyndir

Donald Duck: Der Fuehrer’s Face

Leikstjórn: Jack Kinney
Handrit: Andy Engman
Leikarar: Clarence Nash og Oliver Wallace
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1943
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Eins og aðrir verkamenn í ríki Adolfs Hitlers þarf Andrés Önd að strita 48 klukkustundir á sólarhing við vopnaframleiðslu, en það verður honum að vitaskuld ofviða.

Almennt um myndina:
Eftir árás Japana á Pearl Harbor 7. desember 1941 og stríðsyfirlýsingu Þýzkalands nokkrum dögum síðar tók Walt Disney eins og önnur bandarísk kvikmyndafyrirtæki virkan þátt í stríðsrekstri bandamanna gegn öxulveldunum, einkum með gerð fjölda áróðursmynda. Ein sú þekktasta er sennilega Donald Duck: Der Fuehrer’s Face, sem hlaut óskarsverðlaun sem besta teiknimynd ársins 1943. Titillag myndarinnar í flutningi Olivers Wallace þótti bæði skondið og grípandi enda náði það miklum vinsældum á þessum ófriðartímum. Löngu síðar tók Spike Jones það einnig upp og gerði það jafnvel enn vinsælla í flutningi hljómsveitar sinnar The City Slickers.

Í teiknimyndinni ganga allir gæsagang og heilsast með framréttum hægri handlegg undir titillaginu, sem flutt er með miklum tilþrifum, en Andrés Önd er rekinn áfram með byssustingum í hvert sinn sem hann þykir slaka um of á. Texti lagsins sýnir glögglega hvers eðlis boðskapur myndarinnar er, en þar eru Þjóðverjar og helstu bandamenn þeirra dregnir sundur og saman í háði fyrir kynþáttahugmyndafræði nazismans:

When der Fuehrer says, „We ist der master race“
We HEIL! (phhht!) HEIL! (phhht!) Right in der Fuehrer’s face
Not to love Der Fuehrer is a great disgrace
So we HEIL! (phhht!) HEIL! (phhht!) Right in der Fuehrer’s face
When Herr Göbbels says, „We own der world und space“
We HEIL! (phhht!) HEIL! (phhht!) Right in Herr Göbbels’s face
When Herr Göring says they’ll never bomb this place
We HEIL! (phhht!) HEIL! (phhht!) Right in Herr Göring’s face

Are we not the supermen
Aryan pure supermen
Ja we ist der supermen
Super-duper supermen.

Ist this Nutzi land not good?
Would you leave it if you could?
Ja this Nutzi land is good!
Vee would leave it if we could

We bring the world to order
Heil Hitler’s new world order
Everyone of foreign race will love der Fuehrer’s face
When we bring to der world disorder

When der Fuehrer says, „We ist der master race“
We HEIL! (phhht!) HEIL! (phhht!) Right in der Fuehrer’s face
When Der Fuehrer says, „We ist der master race“
We HEIL! (phhht!) HEIL! (phhht!) Right in der Fuhrer’s face

Mörg myndskot úr teiknimyndinni eru vel þekkt, enda hafa þau verið notuð í vinsælum kvikmyndum á borð við Stalag 17 (Billy Wilder: 1953) og birt í fræðibókum og heimildamyndum um áróður á stríðstímum. Þekktasta myndskotið er sennilega af Andrési Önd við morgunverðarborðið þar sem hann er neyddur með byssusting til að lesa bókina Mein Kampf eftir Adolf Hitler meðan hann fær sér að borða.

Að stríðinu loknu var teiknimyndin aldrei sýnd opinberlega í heild sinni og hefur hvorki verið gefin út á myndbandi né DVD, a.m.k. ekki af rétthöfum. Ástæðan er neikvæður og ansi ómálefnalegur áróður myndarinnar í garð Þýzkalands, sem er svo gegnsýrt af nazismanum að jafnvel trén vaxa þar eins og hakakrossar og skýin taka á sig mynd þeirra. Einhverjir kvikmyndaáhugamenn virðast þó hafa komist yfir óstytt eintak af myndinni og sett það inn á netið. Hér er sennilega um að ræða filmueintak frá stríðsárunum sem löngu síðar hefur verið fært á myndband, en myndgæðin verða að teljast tiltölulega slök þó svo að það sé alveg horfandi á myndina.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Teiknimyndin er athyglisvert dæmi um hvernig áróður hefur verið notaður til að hæða andstæðinginn á styrjaldartímum. Þýzku nazistarnir eru gerðir hlægilegir og leitað allra leiða til að snúa sem mest út úr málflutningi þeirra, sem heimfærður er upp á þýzku þjóðina í heild. Vissulega var ógnarstjórn nazistanna ein sú grimmasta sem sögur fara af og kostaði heimsstyrjöldin, sem Hitler átti öðrum fremur sök á, allt að 60 milljónir mannslífa, en þar þjáðust Þjóðverjar ekki síður en aðrar þjóðir.

Áróðurinn í sumum bandarísku teiknimyndunum frá þessum tíma verður hins vegar að teljast það ómálefnalegur að maður spyr sig hversu langt megi ganga í slíkum efnum, jafnvel á styrjaldartímum. Þannig er t.d. jafnan dregin upp ansi neikvæð mynd af Þjóðverjum og Japönum sem einstaklingum og ýmis meint þjóðareinkenni þeirra ýkt á þeirra kostnað. Hvorki er neinn drepinn í þessari tilteknu mynd um Andrés Önd né neinum eignum grandað enda aðeins um teiknimynd að ræða. Engu að síður er framsetningin þess eðlis að hún gæti vel hafa átt þátt í að deyfa næmni sumra áhorfendanna fyrir mennsku þeirra sem barist var við. Á styrjaldartímum getur dregið úr almennu siðferði enda þykir óhjákvæmilegt að mannslífum og eignum sé fórnað fyrir málstaðinn, jafnvel þótt takmörk séu fyrir öllu eins og Genfarsáttmálinn kveður á um. Styrjaldir geta samt reynst óhjákvæmilegar og málstaður sumra er svo slæmur að ástæða getur þótt til að berjast gegn honum með öllum lögmætum ráðum.

Það kemur ekki á óvart að þessi teiknimynd skuli ekki hafa verið sýnd opinberlega eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Engu að síður er ástæðulaust að úthýsa henni með öllu þar sem sögulegt mikilvægi hennar er nokkurt og hún getur veitt mikilvæga innsýn inn í áhugaverðan þátt hildarleiksins. Bókin Mein Kampf hefur verið fáanleg í bókaverslunum hér á landi og þýzka áróðursheimildamyndin Triumph des Willens (Leni Riefenstahl: 1934) hefur verið gefin ótal sinnum út á myndbandi og DVD. Þess vegna er allt eins við hæfi að veita almenningi aðgang að þessari áróðursmynd frá Walt Disney líka þó svo að auðvitað verði að gæta að sögulega samhengi hennar um leið.

Teiknimyndin er óneitanlega fyndin, í raun meinfyndin, og verður hún að teljast ein af þeim bestu sem Bandaríkjamenn gerðu í síðari heimsstyrjöldinni. Einmitt þess vegna er mikilvægt að tilvonandi áhorfendur séu meðvitaðir um bakgrunn hennar, ekki síst þeir sem eru af yngri kynslóðinni.

Í teiknimyndinni er Þýzkaland svo gegnsýrt af nazismanum að allt tekur á sig mynd hans. Líf þjóðfélagsþegnanna er þrældómur frá morgni til kvölds eins og birtist í 48 klukkustunda löngum vinnudegi Andrésar Andar, en hann þarf að sækja sér kaffidreitilinn inn í læstan öryggisskáp og saga grjóthart brauðið með sög. Svo fer að hann tapar glórunni í vopnaverksmiðjunni og vaknar upp með andfælum heima hjá sér ­- ekki í Þýzkalandi heldur í Bandaríkjunum því að þrældómurinn hafði verið martröð. Myndinni líkur þess vegna á því að Andrés Önd faðmar grátklökkur frelsisstyttuna á náttborði sínu, tákn frelsisins í augum Bandaríkjamanna, af einskærri gleði og miklum fögnuði.

Guðfræðistef: frelsi, mennskan
Siðfræðistef: stríð, kúgun, alræði, vopnaframleiðsla, kynþáttahatur, háð
Trúarbrögð: nazismi
Trúarleg tákn: hakakross