Kvikmyndir

Donnie Darko

Leikstjórn: Richard Kelly
Handrit: Richard Kelly
Leikarar: Jake Gyllenhaal, Jena Malone, Drew Barrymore, Mary McDonnell, Katharine Ross, Patrick Swayse og Noah Wyle
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2001
Lengd: 108mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Myndin fjallar um unglingsdreng sem á við geðraskanir og svefntruflanir að stríða. Í kjölfar þess að þotuhreyfill brotlendir á húsi hans fer hann að sjá ofsjónir í líki risavaxinnar kanínu sem spáir fyrir um nákvæma tímasetningu endaloka heimsins og fær hann til að framkvæma ýmis ódæðisverk.

Almennt um myndina:
Donnie Darko er þriðja mynd Kellys (sú fyrsta í fullri lengd), en hann skrifar jafnframt handritið og leikstýrir henni. Áður hafði hann gert tvær stuttmyndir, The Goodbye Place (1996) og Visceral Matter (1997), þar sem hann átti einnig í báðum tilfellum heiðurinn af handriti og leikstjórn. Þess má til gamans geta að fyrri myndin fjallar einmitt um dag í lífi ringlaðs unglingsdrengs og sú síðari um tilraunir til ferðalaga í tíma og rúmi, svo það virðist sem þessi hugmynd hafi verið að gerjast með Kelly um einhvern tíma. Myndin var tilnefnd til nokkurra minniháttar verðlauna auk einnar tilnefningar (Grand Jury Prize) á Sundance Film Festival 2001, en hún vakti í raun litla athygli fyrr en nokkrum árum eftir útgáfu hennar.

Tilfinning leikstjórns fyrir handritinu skilar sér vel til áhorfandans og það er spurning hvort slík áhrif hefðu náðst ef höfundur og leikstjóri væru ekki einn og sami maðurinn. Sem dæmi um það má nefna þær snilldarvísanir í byrjun myndarinnar um það sem koma skal, en hér mun ég nefna þrjár þeirra sem dæmi:

1) Strax í upphafsatriðinu má sjá rauðan TransAm keyra fram hjá aðalpersónunni (mín 0:03:00-0:03:05), en í lokaatriðum myndarinnar kemur svo þessi sami bíll til með spila stórt hlutverk í söguþræði myndarinnar (mín 1:30:47-1:32:56).

2) Það markar í raun upphaf atburðarásarinnar þegar að þotuhreyfillinn lendir á húsi Donnies, en þegar hann kemur heim aftur eftir að hafa gengið í svefni þá nótt, er sýnd nærmynd af miðju hreyfilsins, sem er með spírallaga mynstri, eins konar dáleiðslutákni sem gefur í skyn þá ringulreið sem mun eiga sér stað í lífi hans héðan í frá (mín 0:13:38-0:13:35).

3) Daginn eftir hreyfilhrapið er kynntur til sögunnar skólinn sem Donnie gengur í og þær persónur sem eiga eftir að koma við sögu. Þarna hljómar lagið Head over Heels með Tears For Fears undir og senan, sem er að mestu tekin í fáum en löngum skotum, er sýnd ýmist í hraðspólun eða hægt er á atburðarrásinni, sem gefur til kynna þá tímaröskun sem verður í kjölfar atburðarins, og kemur til með að vera ráðandi í þræði myndarinnar (mín 0:15:52-0:18:27).

Kvikmyndatakan er góð blanda af Sci-Fi, raunsæi og symbólisma og sækir talsvert í American Beauty (1999) með áherslu á raunsæi í myndmáli til að skapa skýr mörk á milli ytri og innri veruleika myndarinnar. Tónlistin er einnig hreinlega framúrskarandi og minnir jafnvel örlítið á undravert tónlistarval Quentin Tarantino í kvikmyndum hans. Leikstjóranum tekst fádæma vel að búa til magnað andrúmsloft sem grípur áhorfandann. Þá eru nokkur atriði sérlega eftirminnileg þar sem myndataka, klipping og tónlist eru í fullkomnu samræmi, t.d. ofangreind skólakynning (mín 0:15:52-0:18:27 ) og lokasenan þegar allt smellur saman og verður eins og það átti að vera (mín 1:38:25-1:42:40).

Leikararnir fara einkar vel með hlutverkin og má þar sérstaklega nefna aðalleikarann, Jake Gyllenhaal, sem leikur Donnie Darko á eftirminnilegan hátt. Hann tók hlutverkið, að sögn Kelly, svo alvarlega að hann vildi aldrei hafa neinn staðgengil í tökunum, og við tökur á einu atriðanna var honum svo í mun að ná andlegu ástandi persónu sinnar fram að hann blikkaði ekki augunum í nokkrar mínútur og þurfti á augndropum að halda þegar tökunni var lokið. Öll líkams- og raddbeiting er full innlifunar og gerir leik hans einstaklega sannfærandi. Munurinn á því hvernig hann er í kringum Frank annars vegar og ástvini sína hins vegar gefur sterka tilfinningu fyrir ólíkri afstöðu hans til viðkomandi manneskju og áhorfandinn finnur, bara í gegnum þessa líkamstjáningu, hvaða tilfinningar þær vekja hjá Donnie (t.d. samræður við föður sinn (mín 0:20:45-0:21:29), geðlækninn sinn (mín 0:46:08-0:48:01) og Frank (mín 1:04:13-1:06:32)).

Einnig var vel til fundið hjá Kelly að hafa raunverulega systur Jake Gyllenhaal, Maggie Gyllenhaal, í hlutverki systur Donnies. Þar kom fram eðlilegt andrúmsloft sem náðist án efa svo vel vegna raunverulegra tengsla þeirra (t.d. mín 1:22:19-1:22:52).

Persónusköpun er góð og í flestum tilfellum mjög sannfærandi, en einnig er skemmtilegt að sjá hvernig Kelly vinnur með erkitýpur eins og skólastjórann (David Moreland), lífsleiknikennarann (Beth Grant) og auðvitað sjálfshjálpargúrúinn (Patrick Swayse) sem er ein kaldhæðnasta og tvískiptasta persóna myndarinnar. Fyrri hluta myndarinnar fær áhorfandinn aðeins að sjá þá persónu sem hann er á yfirborðinu, þ.e. ímynd hins góða manns, þann sem hefur gert það að ævistarfi sínu að hjálpa öðrum og kenna þeim að virða sjálfa sig og aðra, nánast hliðstæða Krists. Í síðari hlutanum kemur svo í ljós hans raunverulega eðli þegar að upp kemst að hann er viðriðinn barnaklámshring. Skyndilega breytist ímynd hans og hann er ekki lengur frelsari heldur djöfull. Þetta fullkomna líf hans var einungis blekkingarvefur til að hylma yfir ofbeldi, lygum og hræðilegum glæp. Ímynd hins góða reynist vera illskan uppmáluð.

Patrick Swayse og Noah Wyle koma einkar skemmtilega á óvart með því að sýna mjög óvænta frammistöðu. Þeir eru þarna í hlutverkum sem eru afar ólík þeim sem þeir eru þekktir fyrir en auk þess eiga þeir það sameiginlegt að fara snilldarlega með hlutverkin og sýna þannig fram á meiri hæfileika en marga hefði grunað (t.d. Swayse mín 0:54:43-0:57:54 og Wyle mín 0:58:58-1:00:30). Drew Barrymore, sem jafnframt er framleiðandi myndarinnar, er einnig í óvenjulegu hlutverki og þótti mér hún fara frekar vel með það miðað við fyrri frammistöður. Hvernig hún bar sig að þegar hún gekk út úr skólanum eftir að hafa verið rekin úr starfi er að mínu mati hennar besta augnablik í myndinni. Hún er klaufaleg þegar hún fer út um hurðina, missir næstum því kassann með hlutunum sínum, en reynir að láta lítið á því bera og bera höfuð hátt. Vonbrigðin og brostnar vonir hennar skína í gegn og atriðið lýsir innra ástandi hennar (mín 1:18:12-1:18:23). Þá gæða fleiri persónur myndina lífi með sannfærandi leik, eins og Mary McDonnell (t.d. mín 0:52:13-0:54:21, þegar þau hjónin ræða við geðlækni sonar síns og fá óþægileg svör) og Jena Malone (t.d. mín 0:26:18-0:29:30, þegar persóna hennar kynnist Donnie og hrífst af því hve óvenjulegur ungur maður hann er).

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Einn af helstu töfrum myndarinnar fellst að mínu mati í því að engin ákveðin svör eru gefin í lokin og áhorfandinn er skilinn eftir með hugann fullan af spurningum sem hann verður sjálfur að svara. Rétt eins og hver og einn verður að túlka myndlistarverk eftir eigin hughrifum, fellur það í hlut hvers og eins að túlka kvikmyndina á sinn hátt og leggja eigið mat á hana. Þetta tel ég vera eitt af því sem gerir hana að því listaverki sem hún er. Ég hef séð margar ólíkar túlkanir á myndinni og ég get í raun ekki sagt að ein sé réttari eða rangari en önnur og tel því mína persónulegu túlkun ekki verri en hverja aðra.

Það væri langsótt að segja að Donnie Darko sé trúarleg mynd, en það má engu að síður sjá margar trúarlegar hliðstæður og vangaveltur í henni. Í stuttu máli er skilningur minn á myndinni sá að æðri öfl hafi gert Donnie kleift að skynja tímann í öðru samhengi en fólk getur venjulega gert og þannig leyft honum að taka þá stóru ákvörðun sem hann tekur í enda myndarinnar.

Tíminn er Donnie algjörlega afstæður. Áhrifin, sem af því skapast, gegna lykilhlutverki í myndinni (eftir að þotuhreyfillinn hafnar á húsinu hans og hrindir atburðarásinni af stað) og minna á orð Biblíunnar um „að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur“ (2 Pt 3:8, Sl 90:4), með öðrum orðum að tíminn sé afstæður fyrir Guði því hann þekkir fortíð, nútíð og framtíð.

Hægt er að sjá hliðstæðu við krossfestinguna í þeirri fórn sem Donnie færir í lok myndarinnar. Þarna er svo komið að hann gerir sér fullkomlega grein fyrir því hvað hefði gerst ef hann hefði ekki gengið í svefni nóttina sem hreyfillinn féll á húsið og hann ákveður að fórna sér fyrir ástvini sína, og það gerir hann með bros á vör; „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“ (Jh 15:13). Hann fórnar lífi sínu svo að þeir sem annars hefðu látið lífið þyrftu ekki að deyja heldur fái að lifa áfram.

Þá eru miklar guðfræðilegar hugleiðingar sem koma fram eins og til dæmis vangaveltur um það hvort leitin að Guði sé æskileg eða hreinlega heimskuleg (mín 0:47:08-0:47:59), hvort að allir hafi fyrirfram ákveðin örlög og þá hvort það sé Guð sem standi á bakvið þau (mín 0:58:58-1:00:30) og svo hin sígilda spurning um dauðann, en Roberta Sparrow (kölluð Grandma Death af krökkunum í myndinni) hvíslar að Donnie að allar lifandi verur á jörðu deyi einar, en það hræðir Donnie sem finnst það einmanaleg tilhugsun (mín 0:21:24-0:22:14).

Þá koma syndir og siðfræðistef fyrir í myndinni. Til dæmis má nefna einelti, fordóma, dópneyslu, svik, lygar, morð, ofbeldi og auðvitað barnaklámshringinn sem Donnie kemur upp um með íkveikju sinni. Að mínu mati sýna þessi atriði hvernig Donnie Darko er hliðstæða Krists (fórnar eigin lífi fyrir annarra, reynir að gefa von (t.d. þegar hann lofar vinalausri stúlku, sem er lögð í einelti í myndinni, að einn daginn verði líf hennar betra (mín 1:18:29-1;18:57)) og upprætir syndugt líferni (barnaklámshringurinn). Í rauninni er myndin í heild sinni hliðstæða Nýja testamentisins, þó svo að aðferðir Donnies séu vitaskuld afar ólíkar þeim sem Jesús notaði og sagt er frá í Biblíunni.

Það er ekki langt liðið á myndina þegar áhorfandinn fer að efast um að dagdraumar og ofsjónir Donnie séu ímyndanir. Þótt svo að þeirri spurningu sé í raun og veru ekki svarað í myndinni kemur það samt óljóst fram í nokkrum samræðum að ástæða sé til að ætla að upplifanir hans séu raunverulegar. Til dæmis má nefna að skemmdarverkin sem hann vinnur á skólanum kröfðust meiri krafta en hann gat mögulega búið yfir, en með því er gefið í skyn að hann hafi öðlast yfirnáttúrulegan kraft við verkin. Ein af þeim spurningum sem ásækir áhorfandann er sú að ef þetta er allt saman einungis hugarburður, hvernig gat hann þá gert þetta?

Þá má velta því fyrir sér hvort að lausn fléttunnar sé að finna í samræðum Donnie við kennara sinn þar sem hann veltir vöngum yfir því hvort hann sé kominn út fyrir „rás“ Guðs og það sem hann telur hugsanlega vera forákvarðanir Guðs séu honum þess vegna sýnilegar en ekki öðrum (mín 0:58:58-1:00:30).

Einnig má nefna dáleiðslufundinn hjá geðlækninum þar sem risakanínan Frank birtist honum og segir Donnie nánar frá heimsendinum sem hann hefur spáð. Orð læknisins í lok atriðisins gefa til kynna að hún trúi því sem Donnie er að segja henni, en hún hughreystir hann og segir honum að ef heimsendir sé í nánd þá muni Donnie aðeins standa andspænis Guði og þá skipti ekkert máli nema ákvarðanir hans og fólkið sem hann tengdist (mín 1:19:16-1:22:17). Því til stuðnings nefnir Kelly það í ummælum sínum að hann hafi þurft að klippa úr samræðunum milli þeirra þegar hún tjáir Donnie að hún hafi aldrei gefið honum alvöru lyf og gefur í skyn ástæðan hefi verið sú að hún hafi ekki trú á því að hann þurfi á þeim að halda.

Helsta dulúð myndarinnar felst í spurningunni: Er Donnie bara ringlaður ungur drengur eða er þetta raunverulega að gerast? Því er í raun aldrei svarað hvort raunverulegur heimsendir sé í nánd; áhorfandanum er falið að túlka það: Getur verið að ekki sé um algjöran heimsendi að ræða, heldur að heimur Donnie sjálfs muni enda á tilsettum tíma? Þá mætti segja að í lokin þegar kærasta hans er látin, hann sjálfur orðinn morðingi og fjölskyldumeðlimirnir lenda í flugslysi að heimur hans endi því hann muni að öllum líkindum lenda á bak við lás og slá það sem eftir er ævinnar og er búinn að missa flesta ástvini sína. Risakanínan Frank gæti verið vofa kærasta systur hans að reyna að koma í veg fyrir dapurleg örlög sín og annarra. Samt finnst mér eins og að eitthvað vanti, að það sé ekki öllu svarað.

Túlkunin, sem ég legg í myndina, og tel að ummæli leikstjórans styðji, er sú að það hafi vissulega verið um raunverulegan og algeran heimsendi að ræða sem hófst þegar tímarof varð í heiminum (hreyfillinn hrapar á milli tíma). Guðlegt inngrip af gangi mála stýra fólkinu í kringum Donnie til að hjálpa honum að snúa ferlinu við með því að gefa honum allar þessar litlu vísbendingar um hvað hann þurfi að gera, en þó getur maður ekki verið viss um það hvort að fólkið er meðvitað um það eða ekki. Þegar að Donnie er búinn að lagfæra rofið í lok myndarinnar og fórnar lífi sínu til að bjarga heiminum, vaknar þetta sama fólk og það er eins og það muni óljóst eftir því sem gerðist. Óstaðfestar heimildir herma að í bókinni „The Philosophy Of Time Travel“ standi að þegar tímarof er lagað finnist fólki sem það hafi upplifað einkennilegan og sterkan draum (en bókina er ekki hægt að nálgast á Íslandi). Þá mætti jafnvel spyrja sig að því hvort ummæli Donnie um að eyðilegging sé eitt form sköpunar (mín 0:19:18-0:19:35) eigi við um þema myndarinnar, þ.e. að eyðilegging þessa hliðstæða heims sem opnast við tímaröskunina skapi nýtt líf fyrir hinn rétta heim?

Myndin er full af vísbendinum um það sem koma skal, sem og það sem aldrei er beinlínis útskýrt eða sýnt. Áhorfandinn verður að vera vel vakandi og því oftar sem horft er á myndina, þeim mun fleiri vísbendingar koma í ljós. Sem dæmi má nefna að í lok myndarinnar er Donnie haldið niðri af skólafantinum sem leggur hníf að hálsi hans. Einmitt þá kemur (fyrrnefndur) rauður TransAm brunandi að, en þá segir Donnie “Deus Ex Machina”. Það hugtak táknar lausn þegar sögupersóna í leikriti/kvikmynd er komin í svo miklar ógöngur að engin leið virðist út en þá skyndilega gerist eitthvað eða einhver birtist með lausnina í lokin og fléttan er fullkomnuð. Bíllinn keyrir á kærustu Donnie, snarstansar og út honum stígur Frank. Á næstu mínútum birtast öll svörin þótt vissulega megi túlka þau á ýmsa vegu (mín 1:30:55-1:38:25).

Myndin er á heildina litið einstaklega frumleg og sérstæð. Í henni má finna gleði og sorg, gott skopskyn og dulúð en á sama tíma er glímt við tilfinningar og tengsl persónanna á djúpan hátt og þó er myndin laus við það að vera væmin. Í henni kemur fram hógvær fegurð sem skilur áhorfandann eftir hugsandi og hugfanginn af einhverju sem hann á erfitt með að skilgreina.

HeimildirBarrymore, D. og R. Kelly. (2001). Donnie Darko. Metrodome, Pandora.

Biblían. (1981). Hið íslenska Biblíufélag. Reykjavík: Hið íslenska Biblíufélag.

Donnie Darko. Internet Movie Database. Skoðað 20. apríl 2005. Slóðin er: http://imdb.com/title/tt0246578/ (höfundar og umsjónarmenn ónafngreindir).

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 90:4, 2Pt 3, 10 og/eða 3, 12
Persónur úr trúarritum: hliðstæða Krists, boðberar ­ spámenn, Guð, andkristur
Guðfræðistef: áletrun, forákvörðun, örlög, fórn
Siðfræðistef: fordómar, einelti, ofbeldi, dópneyslu, svik, lygar, morð, barnaklám, skemmdarverk, slúður, baktal
Trúarbrögð: Nýöld, kristni
Trúarleg tákn: kross, kirkjuklukka
Trúarleg embætti: nunna
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: hrekkjavaka
Trúarleg reynsla: sýnir